Hefur alltaf elskað að synda í fossum

Valdís er mikið náttúrubarn og kann best við sig innan …
Valdís er mikið náttúrubarn og kann best við sig innan um stórbrotna náttúru Íslands.

Val­dís Björg Friðriks­dótt­ir er for­fall­in úti­vist­ar­kona og elsk­ar að fara upp á jök­ul. Hún kvaddi höfuðborg­ar­svæðið fyr­ir fimm árum og flutti á Höfn í Hornafirði. Þessi 28 ára æv­in­týra­kona veit ná­kvæm­lega hvert skemmti­leg­ast er að fara þegar Suður­land er ann­ars veg­ar. 

„Ég ólst upp í Mos­fells­bæ en árið 2019 langaði mig að prófa að búa og starfa úti á landi. Ég fékk vinnu á Hót­el Smyrla­björg­um í Hornafirði og leið svo vel þar að eft­ir út­skrift úr ferðamála­fræði við Há­skóla Íslands árið 2020 flutti ég og hef búið þar síðan. Vorið 2022 lauk ég svo námi í fjalla­mennsku hjá FAS og vann sem snjósleðaleiðsögumaður á Vatna­jökli áður en ég hóf störf hjá Glacier Advent­ure á Hala í Suður­sveit í lok árs 2022.

Þar er ég með um­sjón með markaðsmá­l­um, sam­fé­lags­miðlum og skrif­stofu, fer á jök­ul­inn að taka upp efni og að leiðsegja í jökla­ferðum af og til. Sam­hliða starf­inu kláraði ég nám í sta­f­rænni markaðssetn­ingu frá Sa­hara Aca­demy.“

Hef­urðu alltaf verið nátt­úru­barn?

„Já, ég hef alltaf verið mikið nátt­úru­barn og liðið best úti í frísku lofti, finna fyr­ir ork­unni frá nátt­úr­unni og með tærn­ar í gras­inu. Ég var í skáta­fé­lag­inu Mosverj­um í æsku og fannst ekk­ert skemmti­legra en að vera úti, fara í úti­leg­ur og synda í foss­um. Mamma mín var mikið í úti­vist og ég dáðist alltaf að henni og æv­in­týr­un­um sem hún fór í. Ég held að áhugi minn á jökl­um og fjalla­mennsku hafi kviknað eft­ir göngu á Eyja­fjalla­jök­ul með vin­kon­um mín­um sem ég fór í vorið 2020. Það fannst mér al­veg mögnuð upp­lif­un. Síðan þá hef ég verið dol­fall­in yfir ís­lenskri nátt­úru, jökl­un­um og hef ferðast mikið inn­an­lands. Fyr­ir mig er helsta aðdrátt­ar­aflið ein­fald­lega hvað mér líður vel í nátt­úr­unni. Hún hjálp­ar mér að vera í nú­inu, slaka á og hugsa minna.“

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu?

„Ég er mikið fyr­ir alls kon­ar úti­vist. Hér á Höfn er stutt í nátt­úr­una og mögu­leik­arn­ir enda­laus­ir. Ég fer mikið í göng­ur á svæðinu og hef gam­an af því að fara á jökl­ana, kaj­ak á jök­ullón­um, klettaklifri og ut­an­vega­hlaup­um. Á vet­urna finnst mér fátt skemmti­legra en að fara á snjó­bretti, bæði á skíðasvæði og fjalla­skíði þar sem ég nota fjalla­bretti til þess að skinna upp og renna niður. Hérna í kring­um Höfn er ekk­ert eig­in­legt skíðasvæði. Eft­ir vinnu fer ég mikið í cross­fit og sund hér á Höfn. Ég elska líka að fara í nokk­urra daga göngu­ferðir með bak­poka og tjald, það er eitt­hvað svo heilandi við það að vera úti í nátt­úr­unni með allt sem maður þarf á bak­inu. Upp­á­halds­göngu­leiðirn­ar mín­ar eru við skriðjökl­ana frá Vatna­jökli. Krist­ín­art­ind­ar í Skafta­felli eru mín upp­á­halds­leið og sú sem ég hef farið oft­ast. Hér við Höfn eru Klifatind­ur og Skálat­ind­ar líka mín­ar upp­á­halds­göngu­leiðir.“

Áttu upp­á­halds­jök­ul?

„Svæðið frá Öræf­um að Lóni er al­gjör nátt­úrup­ara­dís en ef ég ætti að velja eitt svæði væri það við Fláa­jök­ul en hann er í al­gjöru upp­á­haldi hjá mér. Það er hægt að ganga að hon­um á nokkra vegu en ég fer yf­ir­leitt aust­an meg­in frá Hauka­felli, sem er önn­ur nátt­úruperla ef út í það er farið. Fláa­jök­ull hef­ur verið í fyrsta sæti hjá mér síðan ég flutti hingað, hann er líka fyrsti jök­ull­inn á svæðinu sem ég fór að svo það gæti spilað inn í en mér finnst hann al­veg sér­stak­lega fal­leg­ur.

Við Hof­fells­jök­ul eru líka marg­ar fal­leg­ar göngu­leiðir, til dæm­is Geita­fells­björg og Grasgiljat­ind­ur. Það er al­veg magnað að ganga við jök­ul og fátt út­sýni fal­legra að mínu mati. Lóns­ör­æfi eru líka ein­stakt svæði, til dæm­is Stafa­fells­fjöll­in og Hvannagil í Lóni. Ég hlakka mikið til að kynn­ast því svæði bet­ur í sum­ar.“

Hvað gef­ur úti­vist þér?

„Það er ómet­an­legt hvað úti­vist gef­ur mér. Ég held að þegar fólk kynn­ist til­finn­ing­unni verði það háð henni og þá verður bara ekki aft­ur snúið. Það er eig­in­lega ólýs­an­legt að standa á fjallstindi og njóta augna­bliks­ins og út­sýn­is­ins þegar maður er loks­ins kom­inn upp. Ann­ars finnst mér úti­vist snú­ast um að leyfa sér að njóta úti í nátt­úr­unni. Það þarf ekki alltaf að vera löng fjall­ganga eða eitt­hvert stórt mark­mið. Mér finnst voða gott til dæm­is að fara bara út á fal­legt svæði og slaka á á meðan hund­arn­ir hlaupa um.“

Lyk­il­atriði að und­ir­búa göng­ur vel

Ef fólk vill byrja að stunda mikla úti­vist, hvaða búnað eða flík mynd­ir þú mæla með að kaupa fyrst?

„Fyrst og fremst góða göngu­skó, þá eru þér all­ir veg­ir fær­ir! Svo er frá­bært að eiga gott föður­land því það er nauðsyn­legt all­an árs­ins hring hérna á Íslandi. Góða göngu­sokka, þynnri fyr­ir göng­ur á sumr­in og hlýrri fyr­ir vetr­ar­göng­ur. Klæða sig í nokk­ur lög svo það sé auðvelt að taka af sér og bæta á eft­ir veðri. Taka alltaf með sér hæl­særisplástra og teip.

Af minni reynslu er mik­il­vægt að vera með nesti sem er girni­legt og gott, og borða nóg, sér­stak­lega í lengri göng­um. Þurrmat­ur get­ur verið frek­ar ólyst­ug­ur einn og sér en ég bæti út í hann til að bragðbæta t.d. smjör, ost, krydd, súp­ur frá Knorr og fleira sem mér dett­ur í hug. Það er mik­il­vægt að und­ir­búa göng­una vel, skoða veður og ég mæli með að not­ast við for­rit eins og Wik­i­loc en þar er hægt að hlaða niður göngu­leiðum og fylgja þeim, eða hafa til hliðsjón­ar. Aðalráðið sem ég get gefið er að vera ekki að flækja þetta fyr­ir þér. Það þarf ekki að kaupa dýr­asta og besta búnaðinn strax. Prófaðu þig áfram, og finndu hvað virk­ar fyr­ir þig.“

Er ein­hver hlut­ur sem er alltaf í bak­pok­an­um þínum?

„Eins lítra Nalgene-brúsi fylg­ir mér alltaf. Það er svo mik­il­vægt að drekka nóg vatn. Ég mæli með að eiga stór­an og létt­an vatns­brúsa fyr­ir úti­vist. Svo tek ég alltaf fyrstu hjálp­ar tösku með og í henni er það allra nauðsyn­leg­asta.“

Hvert er upp­á­halds­sn­arlið þitt í göngu­ferðum?

„Ég er yf­ir­leitt alltaf með heilsusafa í fernu, það er svo gott að fá sér eitt­hvað ferskt, svo er upp­á­halds hjá mér núna sítr­ónu Oat King-stykki, súkkulaðihnet­ur, þurrkað mangó og Ba­by­bel-ost­ur.“

Áttu þér minn­ingu af Suður­land­inu sem stend­ur sér­stak­lega upp úr?

„Já, fyrsta ferðin mín á há­lendið þegar ég fór á Langa­sjó. Við fór­um á kaj­ak og geng­um á Sveinstind. Útsýnið þaðan er al­gjör­lega magnað. Þetta svæði er eitt af mín­um upp­á­halds í dag! Svo líka fjögra daga ferð á Öræfa­jök­ul með fjalla­mennsku­nám­inu. Við sett­um upp tjald­búðir og eydd­um dög­un­um í að toppa tind­ana þar; Hvanna­dals­hnúk, Dyr­ham­ar, Sveinstind, Rótar­fjalls­hnúk og Vest­ari-Hnapp, og að æfa allskon­ar tækni, eins og sprungu­björg­un.“

Ertu með ein­hverja upp­á­haldsstaði á Íslandi sem þú mynd­ir mæla með fyr­ir sum­arið?

„Ég mæli ein­dregið með að fólk heim­sæki Horna­fjörð, það er svo margt að sjá og gera hér. Allt sem ég er búin að nefna áður og svo staðir eins og Múlagljúf­ur, Skafta­fell, jökl­arn­ir og jök­ullón­in, Bergár­foss, Stokksnes, Vestra­horn, Skúta­foss og lengi mætti áfram telja. Það er líka mikið úr­val af ferðum með leiðsögn með fyr­ir­tækj­um á svæðinu; jökla­göng­ur, fjall­göng­ur, báts­ferðir á jök­ullón­un­um, snjósleðaferðir, lunda­skoðun, skoða gil og fleira. Hér er líka nóg af gististöðum, tjaldsvæðum og veit­inga­stöðum. Í stuttu máli; allt sem gott sum­ar­frí þarf að hafa.“

Hér er Valdís á Langasjó. Þangað var mikil upplifun að …
Hér er Val­dís á Langa­sjó. Þangað var mik­il upp­lif­un að koma.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert