Fer aftur og aftur til Nepals

Leif­ur Örn Svavars­son, stofn­andi og eig­andi Íslenskra Fjalla­leiðsögu­manna, heillaðist af Nepal fyr­ir um 20 árum. Upp­haf­lega drógu fjall­göng­ur hann til lands­ins en síðan þá hafa ferðalög­in þró­ast og býður fyr­ir­tækið nú upp á göngu- og hjóla­ferðir þangað sem njóta vin­sælda. Þótt hann sé bú­inn að ferðast um all­an heim er ekk­ert sem topp­ar ís­lenska sum­arið og er það vel nýtt til úti­vist­ar. 

Himalaja­fjall­g­arður­inn ligg­ur í gegn­um Nepal og þar er ekki aðeins Ev­erest held­ur eru þar átta af þeim 14 fjöll­um jarðar sem eru yfir 8.000 metr­ar á hæð og tind­ar sem eru yfir 7.000 metr­um eru nán­ast ótelj­andi,“ seg­ir Leif­ur. Hann seg­ir að fjöll­in og fjöl­breytt mann­líf hafi dregið hann aft­ur og aft­ur í þetta æv­in­týra­land.

„Auðvitað er það sam­bland af þessu tvennu sem fær fólk til þess að langa til þess að koma aft­ur til Nepals. Það er sterk upp­lif­un að kom­ast í ná­vægi við fjallaris­ana í Himalaja­fjall­g­arðinum þó að ekki sé verið að klífa fjöll­in. Snævi þakt­ir tind­arn­ir gnæfa allt að 4.500 metra yfir dal­ina þegar gengið er upp í grunn­búðir Ev­erest og þegar við hjól­um Anap­urna-hring­inn för­um við um dýpsta dal í heimi sem er milli tveggja átta þúsund metra risa.

Flottur hópur við Pasang Lhamu minningarhliðið í Lukla áður en …
Flott­ur hóp­ur við Pas­ang Lhamu minn­ing­ar­hliðið í Lukla áður en gang­an upp í grunn­búðir Ev­erest hófst. Ljós­mynd/Ó​laf­ur Már Björns­son

Það tek­ur nokk­urn tíma að átta sig á hversu gríðarlega fjöl­breytt menn­ing­in í Nepal er. Land­fræðileg­ar aðstæður eru mjög breyti­leg­ar eft­ir því hvar þú ert í land­inu. Við landa­mæri Ind­lands eru regn­skóg­ar, svo kóln­ar veðurfar eft­ir því sem landið hækk­ar. Erfitt var að ferðast á milli dala og mörg svæði ein­angruð í þröng­um döl­um sem eru um­lukt­ir tor­fær­um fjöll­um og af­girt­ir straum­hörðum jök­ulám. Við þess­ar aðstæður er ekki bara mik­il fjöl­breytni í dýra­lífi held­ur hef­ur líka þró­ast mis­mun­andi og fjöl­breytt menn­ing þannig að enn í dag eru töluð 123 tungu­mál í land­inu. Sjálf­ur hrífst ég af menn­ingu fjalla­bú­anna, sjerp­anna. Hvernig þessi glaðbeitti þjóðflokk­ur hef­ur lifað á harðbýl­um fjalla­svæðunum. Þrátt fyr­ir vax­andi ferðamanna­straum hafa þeir haldið sér­kenn­um sín­um og þjóðleg­um siðum og það er gam­an að lenda á trú­ar­hátíðum og öðrum uppá­kom­um þar sem heima­fólk klæðist þjóðleg­um fatnaði,“ seg­ir hann.

Feg­urðin er engu lík

Hvað hef­ur Nepal fram yfir aðra staði þegar göngu- og fjalla­ferðir eru ann­ars veg­ar?

„Nepal er ör­uggt og þægi­legt land að ferðast til og þar er rót­gró­in hefð fyr­ir göngu­ferðum. Fyrst eru það lík­lega könn­un­ar- og fjall­göngu­leiðangr­ar sem nota þekk­ingu og krafta heima­fólks til þess að ferðast um landið en í dag er þessi þekk­ing notuð til þess að fara með ferðafólk um fal­lega og af­skekkta staði. Með Himalaja­fjall­g­arðinn, tak­markað vega­kerfi og mikið af þjóðleiðum sem gengn­ar eru á milli staða býður Nepal upp á fjölda fal­legra göngu­leiða. Þó að Nati­onal Geograp­hic hafi valið göng­una upp í grunn­búðir Ev­erest sem eina af fal­leg­ustu göng­um í heimi þá er fjöldi annarra fal­legra göngu­leiða í land­inu, eins og hring­ur­inn í kring­um Anap­urna-fjall­g­arðinn. Verðlag er einnig hag­stætt á okk­ar mæli­kv­arða enda er Nepal næst­fá­tæk­asta land í Asíu á eft­ir Af­gan­ist­an.“

Gott form skipt­ir máli

Get­ur venju­legt fólk farið í svona ferðir?

„Já, tví­mæla­laust. Þess­ar ferðir eru ætlaðar venju­legu fólki. Það þarf löng­un til þess að fara og já­kvæð viðhorf til þess að upp­lifa fram­andi menn­ingu. Þó að gist sé í tehús­um og fjalla­skál­um er gott að þátt­tak­end­ur séu van­ir tjald­ferðum og ferðalög­um inn­an­lands til þess að vera bet­ur und­ir­bún­ir und­ir ferðalagið. Það er mjög sterk upp­lif­un að koma í iðandi mann­líf í borg eins og Kat­mandú, sér­stak­lega fyr­ir þá sem eru að fara í fyrsta sinn út fyr­ir Evr­ópu.“

Leifur Örn hefur rekið fyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn í mörg ár
Leif­ur Örn hef­ur rekið fyr­ir­tækið Íslensk­ir fjalla­leiðsögu­menn í mörg ár Ljós­mynd/Ó​laf­ur Már Björns­son

Þarf fólk ekki að vera lík­am­lega vel á sig komið?

„Jú, al­mennt gild­ir að þeir sem fara í göngu­ferðir er­lend­is þurfa að vera van­ir göng­um. Það er gott að ganga reglu­lega, vera í göngu­hópi eða fé­lags­skap sem fær þátt­tak­end­ur til þess að hreyfa sig reglu­lega. Það er eng­inn há­marks­ald­ur ef fólk er frískt en ef valið er að fara í hæð þá fylgja því óþæg­indi og áhætta sem ekki er gott að leggja á börn. Í göngu­ferðum eins og upp í grunn­búðir Ev­erest, sem eru í 5.360 metra hæð, eru göngu­dag­arn­ir ekki lang­ir í kíló­metr­um; það er gengið mjög ró­lega, en hæðin veld­ur tals­verðu álagi á þátt­tak­end­ur. Það eru ekki endi­lega þeir sem eru í besta lík­am­lega form­inu sem eiga auðveld­ast með göng­ur í hæð, oft stend­ur fólk á miðjum aldri sig bet­ur en yngra fólk, og ef ég á að gera upp á milli kynja þá eiga kon­ur oft­ar auðveld­ara með hæðina.“

Hvernig pakk­ar fólk fyr­ir svona ferð?

„Ferðafatnað má geyma á hót­eli í Kat­mandú meðan farið er í göngu- eða hjóla­ferð. Í göng­unni er far­ang­ur­inn bor­inn af burðarmönn­um eða flutt­ur á jak­ux­um. Það er því rétt að fara vand­lega eft­ir út­búnaðarlist­an­um og taka ekki óþarfa með í slíkt ferðalag. Þannig henta mjúk­ar tösk­ur bet­ur í göng­una en harðar og óþarfi að láta bera fyr­ir sig hjóla­tösk­ur. Íslensk­ir fjalla­leiðsögu­menn hafa ná­kvæma út­búnaðarlista fyr­ir all­ar ferðir og und­ir­bún­ings­fundi fyr­ir brott­för þannig að farið er vel yfir all­an und­ir­bún­ing og pökk­un.“

Aðspurður hvernig Nepal hafi breytt hon­um sjálf­um seg­ist hann vera auðmýkri.

„Ég held að Nepal og ferðalög­in al­mennt hafi gert mig auðmýkri. Kennt mér lít­il­læti og að bera virðingu fyr­ir dýra­lífi, fólki og fram­andi menn­ingu.“

Ísland best á sumr­in

En hvað ger­ir svona maður eins og Leif­ur Örn í sín­um eig­in „sum­ar­frí­um“?

„Þó að marg­ir haldi að ferð til landa eins og Perú, Nepals, Mar­okkós, Alban­íu eða Bút­an sé einu-sinni-á-æv­inni-ferðalög, þá er það því miður ekki svo ein­falt. Við hverja ferð sem þú ferð kvikna nýj­ar hug­mynd­ir um fram­andi lönd og spenn­andi áfangastaði sem gam­an væri að heim­sækja. Þannig er því einnig farið með mig og þó að ég hafi farið marg­ar ferðir til Nepals tek ég eft­ir nýj­um hlut­um í hverri ferð og kem heim full­ur löng­un­ar að fara aft­ur og sjá nýa staði. Ég er einnig með sterka löng­un til að miðla reynslu og upp­lif­un frá þess­um stöðum. Lönd­in eru orðin ansi mörg sem ég vil helst kom­ast til á hverju ári. Fyr­ir utan lönd eins og Mar­okkó og Nepal eru það líka Græn­land, sem ég hef hrif­ist mikið af, auk hrjóstr­ugri svæða eins og suður- og norður­póls.

Sum­arið á Íslandi er stutt og þá vil ég helst vera hér heima. Þó eru göng­ur í Evr­ópu eins og í kring­um Mt. Blanc eða um Dólómít­ana á Ítal­íu sem ekki er hægt að fara nema yfir sum­ar­mánuðina. Við velj­um að fara á Kilimanjaro í byrj­un fe­brú­ar þó að ág­úst og sept­em­ber séu einnig góður tími. Eins er með göng­una í Atlas­fjöll­um Mar­okkós; við för­um hana eins seint og hægt er eða í lok sept­em­ber og fáum þannig smá sum­ar­auka þegar farið er að hausta hér heima. Ég reyni að taka frá tíma með fjöl­skyld­unni til þess að ferðast um Ísland í hefðbundnu sum­ar­fríi. Var meira að segja að kaupa mér hústjald í fyrsta skipti sein­asta sum­ar, en hef hingað til verið með fjöl­skyld­una í göngu­tjaldi.“

Glaður gönguhópur á ferð um Himalajafjöllin
Glaður göngu­hóp­ur á ferð um Himalaja­fjöll­in Ljós­mynd/Ó​laf­ur Már Björns­son

Verður fólk ekki æ spennt­ara fyr­ir ferðum á óhefðbundna staði?

„Ég held að það sé vakn­ing fyr­ir því að hreyfa sig í ferðalög­um, ganga eða fara á hjóli um fram­andi staði. Við hjá Íslensk­um fjalla­leiðsögu­mön­um völd­um að bjóða upp á þær ferðir sem Nati­onal Geograp­hic valdi sem fal­leg­ustu göngu­leiðir í heimi. Þó að marg­ir þeir staðir, eins og göngu­leiðin til Petru í Jórdan­íu, séu Íslend­ing­um ennþá fram­andi eru það vel þekkt­ir áfangastaðir fyr­ir göngu- og æv­in­týra­ferðir. Sam­fé­lags­miðlarn­ir eiga líka stór­an þátt í að breyta ferðavenj­um land­ans. Þegar fólk sér fal­leg­ar mynd­ir frá áhrifa­rík­um stöðum og lýs­ing­ar ánægðra þátt­tak­enda er vel skilj­an­legt að það kvikni löng­un til þess að fara slík­ar ferðir.

Áfangastaðirn­ir verða því að vera spenn­andi og bjóða upp á góða upp­lif­un frek­ar en að vera al­ger­lega fram­andi. Þegar við byrjuðum til dæm­is fyr­ir rúm­um 20 árum með göngu­ferðir til Mar­okkó þótti það full „óhefðbund­inn“ og fram­andi áfangastaður sem tók lang­an tíma að öðlast vin­sæld­ir meðal Íslend­inga. Í dag eru göngu og æv­in­týra­ferðir til Mar­okkós nokkuð vin­sæl­ar meðal Íslend­inga og fleiri fyr­ir­tæki hafa fylgt í fót­spor okk­ar og boðið uppá sömu ferðir.“

Hef­ur þú orðið hrædd­ur í svona ferðum eins og til dæm­is í Mar­okkó?

„Þó að allt hafi gengið vel í mín­um ferðum er ég oft hrædd­ur eða áhyggju­full­ur. Ég held að það fylgi því að vera far­ar­stjóri og bera ábyrgð á farþeg­un­um. Það leyn­ist kannski í mér ein­hver for­laga­trú þannig að ég er ekki hrædd­ur í flug­vél­um eða í bíl­ferðum um þrönga fjall­vegi en við veik­indi farþega á ein­angruðum og af­skekkt­um stöðum verð ég hrædd­ur.“

Er eitt­hvað sem fólk þarf að var­ast?

„Já, það er margt sem þarf að var­ast í fram­andi ferðalög­um. Sú hætta sem leyn­ir lík­lega mest á sér er hæðin yfir sjáv­ar­máli. Ef ekki er farið var­lega, fylgst vel með heilsu farþeg­anna og staðið rétt að hæðaraðlög­un get­ur það haft lífs­hættu­leg­ar af­leiðing­ar. Það er einnig margt í ferðahegðun sem gott er að hafa í huga til þess að ferðalagið verði ánægju­legt. Þó að maga­sýk­ing til dæm­is hafi ekki al­var­leg lang­tíma­áhrif get­ur hún skemmt mikið upp­lif­un­ina í frí­inu þannig að það er betra að fara var­lega og til­einka sér góðar ferðavenj­ur.“

Kanntu ein­hverja sögu úr slíkri ferð?

„Jahá, sög­urn­ar eru ansi marg­ar. Ég gæti lík­lega fyllt heila bók og hver veit nema ég skrifi þær niður ein­hvern dag­inn,“ seg­ir hann.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert