Erfitt að toppa vinkonuferðina til Marbella

Rósa Pálsdóttir er mikill ferðaunnandi.
Rósa Pálsdóttir er mikill ferðaunnandi. Samsett mynd

Rósa Pálsdóttir er 24 ára gömul úr Grafarvoginum og stundar nám í byggingarfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún hefur alla tíð haft gaman að því að ferðast um heiminn og skoða nýja staði, en hún kann þó best við sig á suðrænum slóðum og veit fátt betra en að liggja á fallegri strönd með góða bók.

Rósa segir áhuga sinn á ferðalögum hafa kviknað snemma. „Ég hef verið svo lánsöm að fá að ferðast mikið á mínum yngri árum, bæði hér innanlands en einnig erlendis. Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að ferðast og sérstaklega með vinkonum mínum,“ segir hún. 

Rósa var dugleg að ferðast á sínum yngri árum með …
Rósa var dugleg að ferðast á sínum yngri árum með fjölskyldu sinni.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Ég held að ég sé hrifnust af sólarlöndum, en þó finnst mér mjög gaman að skoða borgir og ólíka menningarheima. Það er svo gaman að sjá hvernig annað fólk lifir lífinu. Þó finnst mér ekkert jafnast á við það að liggja á litlum fallegum ströndum með góða bók.“

Sólarlandaferðir eru í sérstöku uppáhaldi hjá Rósu.
Sólarlandaferðir eru í sérstöku uppáhaldi hjá Rósu.

Til hvaða landa hefur þú ferðast?

„Ég var svo lánsöm að fjölskyldan mín átti hús í Flórída og var það nær eini áfangastaðurinn sem ég ferðaðist til síðan ég var sjö ára. Ég held að við höfum farið þangað 20 sinnum ef ekki oftar og það er alltaf jafn gaman að koma þangað, smá eins og „my second home“.

Á mínum eldri árum þegar ég fór að ferðast meira sjálf hefur Evrópa oftast verið fyrir valinu, en þar má til dæmis nefna Króatíu, Ítalíu, Hollands, Spánar og San marino. Í sumar er ég með tvær ferðir planaðar. Ég ætla að fara að heimsækja vinkonu mína í Portúgal og svo erum við vinkonuhópurinn að fara saman til suður Frakklands, sem ég er mjög spennt fyrir.“

Rósa hefur eytt miklum tíma á Flórída í Bandaríkjunum og …
Rósa hefur eytt miklum tíma á Flórída í Bandaríkjunum og segir alltaf jafn gaman að koma þangað.

Eftirminnilegasta ferðalagið og af hverju?

„Ég hef farið í mörg góð ferðalög en það sem stendur mest upp úr er klárlega þegar við vinkonuhópurinn fórum til Marbella síðasta sumar. Þótt við höfum verið óheppnar með veður verður held ég erfitt að toppa þessa ferð.

Mæli sjúklega mikið með Marbella fyrir vinkonuhópa sem eru að plana ferð út saman! Marbella hefur upp á allt að bjóða – góðir veitingastaðir, strandarklúbbar, næturlíf, gott veður (oftast), mjög hrein og falleg borg við höfnina, strendur, bara allur pakkinn.“

Ferðalag vinkonuhópsins til Marbella stendur upp úr!
Ferðalag vinkonuhópsins til Marbella stendur upp úr!

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Úff þegar stórt er spurt! Ég er með nokkrar í uppáhaldi eins og Marbella, Capri, Sorrento en Barcelona myndi ég segja að væri mín allra uppáhaldsborg. Á síðustu önn eyddi ég heilum mánuði í Barcelona með vinkonu minni sem fór þangað í skiptinám og ég varð alveg heilluð af borginni.

Það sem heillar mig við Barcelona er að þetta er gullfalleg stórborg með fallegum arkitektúr en býður líka upp á þessa strandarmenningu sem mér finnst svo skemmtileg. Einnig er hægt að finna litlar strendur og smábæi aðeins í 40 mínútna fjarlægð.“

Barcelona er uppáhaldsborg Rósu í Evrópu, en hún féll alveg …
Barcelona er uppáhaldsborg Rósu í Evrópu, en hún féll alveg fyrir borginni þegar hún heimsótti vinkonu sína þar á síðasta ári.

En utan Evrópu?

„Ég hef ekki verið nógu dugleg að ferðast utan Evrópu og er markmiðið að gera meira af því! Draumurinn er að fara til Asíu eða Suður-Ameríku. Ég verð hins vegar að segja að mér fannst New York-borg alveg æðisleg borg sem hefur upp á margt að bjóða. Ég er mjög spennt að fara þangað aftur og þá yfir sumartímann.“

New York-borg klikkar seint!
New York-borg klikkar seint!

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalögum þínum?

„Nei ekki sem ég man eftir. Eina sem mér dettur í hug er þegar við fjölskyldan ætluðum að eyða páskunum uppi í sveit árið 2022. Ég, mamma, pabbi og amma fórum saman í bíl sem var vægast sagt troðfullur af farangri og með tóma kerru í afturdragi. Þegar við erum komin undir Hafnarfjall byrjar að hvessa mikið og áður en við vitum af kemur hrikalega stór vindhviða og kerran fýkur yfir á hinn vegarhelminginn beint á bíl sem er að keyra í gagnstæða átt. Bíllinn fylgir kerrunni og tekur góða veltu í einn hring.

Báðir bílarnir eyðilögðust en blessunarlega slasaðist enginn alvarlega. Við létum þetta ekki stoppa okkur og redduðum öðrum bíl og héldum áfram ferðalaginu upp í sveit þar sem helmingur fjölskyldunnar var nú þegar kominn til að eyða páskunum saman. Amma vill meina að afi Kjartan sé okkar verndarengill og því fór ekki verr.“

Rósa lenti í óhugnalegu atviki á ferðalagi upp í sveit …
Rósa lenti í óhugnalegu atviki á ferðalagi upp í sveit árið 2022.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?

„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi er sveitin sem við fjölskyldan eigum á Norðurlandi. Það er ekkert betra en að eyða tíma þar með mínum nánustu, hvort sem það er í einhverskonar útiveru eða bara í rólegheitum úti á palli í sól og blíðu.“

Sveit fjölskyldunnar á Norðurlandi er uppáhaldsstaður Rósu á Íslandi.
Sveit fjölskyldunnar á Norðurlandi er uppáhaldsstaður Rósu á Íslandi.

Uppáhaldssundlaug og/eða náttúrulaug á Íslandi?

„Uppáhalds náttúrulauginn mín á íslandi er 100% Leynigjá á Mývatni. Það er algjört ævintýri að reyna að finna hana og komast niður að henni, en þegar maður hefur náð því er hún svo ótrúlega falleg og næs. Svo er uppáhaldssundlaugin mín auðvitað Grafarvogslaug þar sem ég bý og er uppalinn.“

Rósa mælir með Leynigjá á Mývatni!
Rósa mælir með Leynigjá á Mývatni!

Hvert dreymir þig um að ferðast?

„Vá, mig dreymir um að fara á alltof marga staði. Það sem er efst á listanum er Brasilía, Ástralía og Japan en Franska Pólýnesía heillar mig einnig. Í Evrópu væri ég til í að heimsækja Albaníu.“

Rósu dreymir um að heimsækja marga spennandi áfangastaði.
Rósu dreymir um að heimsækja marga spennandi áfangastaði.

Hvað er framundan hjá þér?

„Ég ætla að reyna að ferðast mikið í sumar en ég á þrjár utanlandsferðir bókaðar. Við stelpurnar ætlum einnig að reyna að fara í góða göngu hér á Íslandi en okkur langar mikið til að ganga Grænahrygg. Eftir sumarið tekur svo BS ritgerð og lokaverkefni við og hlakka ég mikið til að útskrifast næstu jól.“

Sumarið verður fullt af ævintýrum hjá Rósu sem hefur þegar …
Sumarið verður fullt af ævintýrum hjá Rósu sem hefur þegar bókað þrjár utanalandsferðir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert