Lét drauminn rætast og flutti til Íslands

Deividas Matkevičius er mikill ævintýramaður sem varð heillaður af Íslandi …
Deividas Matkevičius er mikill ævintýramaður sem varð heillaður af Íslandi eftir fyrstu heimsóknina árið 2016. Samsett mynd

Dei­vi­das Mat­kevičius er 28 ára gam­all æv­in­týramaður frá Lit­há­en sem varð al­gjör­lega heillaður af Íslandi eft­ir fyrstu heim­sókn sína til lands­ins í mars árið 2016. Ári síðar flutti hann til Íslands og hef­ur verið bú­sett­ur hér síðan, en í dag starfar hann sem ljós­mynd­ari, upp­tökumaður og jökla­leiðsögumaður og á sitt eigið jökla­leiðsögu­fyr­ir­tæki, Frosty Tours. 

Aðspurður seg­ir Dei­vi­das ákvörðun­ina um að flytja til Íslands hafa verið knúna af ástríðu hans fyr­ir ljós­mynd­un og mynd­bands­gerð. Á þeim tíma var hann að spara pen­inga til að geta fjár­fest í al­vöru mynda­véla­búnaði og sá strax að Ísland væri hinn full­komni staður til að ná lengra í ljós­mynd­un­inni.

„Frá því ég flutti til Íslands hef ég varið mikl­um tíma í ljós­mynd­un og hef eytt næst­um öll­um helg­um í að ferðast um landið til að kanna bestu út­sýn­is­staðina og fanga þetta stór­kost­lega lands­lag í gegn­um lins­una mína. Dvöl mín á Íslandi hef­ur ein­kennst af æv­in­týr­um, upp­götv­un­um og list­ræn­um vexti, en ég hef getað sokkið mér inn í feg­urð og und­ur þessa ein­staka og hríf­andi lands,“ seg­ir Dei­vi­das. 

Deividas hefur fest mögnuð augnablik á filmu á Íslandi.
Dei­vi­das hef­ur fest mögnuð augna­blik á filmu á Íslandi. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Skemmti­leg­ast að taka mynd­ir af lands­lagi og úti­vist

Dei­vi­das hef­ur náð að fanga mögnuð augna­blik á Íslandi á filmu, en hann seg­ir ljós­mynd­un hafa verið mikla ástríðu hjá sér síðastliðin sex ár. „Ljós­mynd­un er fjöl­hæf list­grein sem ger­ir mér kleift að tjá mig á skap­andi máta og fanga feg­urð heims­ins sem er allt í kring­um mig. Mér finnst skemmti­leg­ast að taka mynd­ir af lands­lagi og æv­in­týra­legri úti­vist, en þannig næ ég bæði að kanna og fanga nátt­úr­una í allri sinni dýrð með hjálp mynda­vél­ar­inn­ar eða iP­ho­ne-sím­ans,“ seg­ir hann. 

„Lands­lags­ljós­mynd­un fel­ur í sér að fanga víða og opna staði, stór­kost­leg­ar aðstæður og töfr­andi lands­lag á filmu. Það krefst oft þol­in­mæði að ná áhrifa­ríkri mynd sem bæði fang­ar augað og vek­ur undr­un, en það krefst einnig skiln­ings á ljósi og birtu,“ út­skýr­ir Dei­vi­das. 

Landslagsljósmyndun er í miklu uppáhaldi.
Lands­lags­ljós­mynd­un er í miklu upp­á­haldi. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

„Útivist­ar­ljós­mynd­un felst hins veg­ar í því að skrá­setja úti­vist og æv­in­týri, svo sem göngu­ferðir, klif­ur, skíði, úti­leg­ur og fleira. Ég ein­beiti mér oft að því að fanga spenn­una, adrenalínið og til­finn­ing­una sem teng­ist úti­vist­inni á filmu, en einnig stór­kost­lega lands­lagið sem æv­in­týr­in eiga sér stað á.

Báðar þess­ar teg­und­ir ljós­mynd­un­ar bjóða upp á enda­laus tæki­færi til sköp­un­ar og könn­un­ar sem ger­ir ljós­mynd­ar­an­um kleift að tengj­ast nátt­úr­unni og deila reynslu sinni með öðrum á sjón­ræn­an máta. Hvort sem það er að fanga glæsi­leika fjallag­arðs við sól­ar­upp­rás eða spennu brimbret­takapp­ans að grípa öld­una, þá nær ljós­mynd­ar­inn að sökkva sér niður í feg­urð og spennu nátt­úr­unn­ar,“ bæt­ir hann við. 

Deividas er sjálfur duglegur að stunda útivist en þykir einnig …
Dei­vi­das er sjálf­ur dug­leg­ur að stunda úti­vist en þykir einnig gam­an að festa hana á filmu. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Hvernig kanntu við þig á Íslandi?

„Ég kann vel við mig á Íslandi og það hef­ur verið mjög ánægju­legt að búa hér. Landið minn­ir mig óneit­an­lega á Lit­há­en, heimalandið mitt, en lík­ind­in milli þess­ara tveggja þjóða hef­ur gert það að verk­um að ég hef upp­lifað kunn­ug­leika og þæg­indi sem hef­ur stuðlað að því að mér hef­ur gengið vel að kom­ast inn í ís­lenskt sam­fé­lag.“

Deividas kann vel við sig á Íslandi.
Dei­vi­das kann vel við sig á Íslandi. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Hef­ur þú þurft að tak­ast á við ein­hverj­ar áskor­an­ir hér á Íslandi?

„Það hafa komið upp áskor­an­ir, sér­stak­lega yfir vetr­ar­mánuðina þegar veðrið get­ur verið storma­samt. Veðuraðstæður á Íslandi krefjast aðlög­un­ar­hæfni, en þær skapa líka tæki­færi til spenn­andi úti­vist­ar. Göngu­ferðir, ísklif­ur og ferðalög um landið verður enn meira spenn­andi og ger­ir áskor­an­ir vetr­ar­ins að lok­um gef­andi og eft­ir­minni­leg­ar. 

Þegar á heild­ina er litið þá hef­ur þessi blanda af áskor­un­um og æv­in­týr­um gefið mér mikla og dýr­mæta reynslu og auðgað tengsl mín við þetta fal­lega og kraft­mikla land.“

Deividas segir veðrið geta verið krefjandi yfir vetrarmánuðina, en um …
Dei­vi­das seg­ir veðrið geta verið krefj­andi yfir vetr­ar­mánuðina, en um leið skapi það tæki­færi til æv­in­týra. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Hver árstíð með sinn sjarma

Hvað er það sem heill­ar þig við Ísland?

„Ísland er sann­ar­lega heill­andi staður fyr­ir marg­ar sak­ir. Þar má nefna töfr­andi lands­lag, þar á meðal tign­ar­lega jökla, eld­fjöll og fossa, og hrjúf­ar strand­lengj­ur sem bjóða upp á stór­kost­legt og fjöl­breytt um­hverfi til að kanna. Svo eru það ein­stök jarðfræðileg ein­kenni lands­ins, svo sem hver­ir, hraun og gos­hver­ir, sem veita manni inn­sýn í nátt­úru­öfl jarðar­inn­ar.“

Deividas segir margt heilla hann við landið.
Dei­vi­das seg­ir margt heilla hann við landið. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

„Þá má einnig nefna rík­an menn­ing­ar­arf Íslands sem hef­ur mót­ast af aldagam­alli nor­ræni goðafræði, vík­inga­sög­um og þjóðsög­um, sem vek­ur áhuga og for­vitni um landið. Íslenska þjóðin er líka þekkt fyr­ir hlýju sína, sköp­un­ar­gáfu og seiglu, sem skap­ar lif­andi og vel­komið sam­fé­lag fyr­ir gesti til að upp­lifa. Svo má ekki gleyma skuld­bind­ingu Íslands til sjálf­bærni og um­hverf­is­vernd­ar sem er afar hvetj­andi.

Það má því segja að þetta sé sam­blanda af hríf­andi lands­lagi Íslands, rík­um menn­ing­ar­arfi og skuld­bind­ingu til sjálf­bærni sem ger­ir landið að svona heill­andi og spenn­andi áfangastað að skoða.“

Það tók Deividas ekki langan tíma að verða heillaður af …
Það tók Dei­vi­das ekki lang­an tíma að verða heillaður af Íslandi. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Áttu þér upp­á­halds­árstíð á Íslandi?

„Ég get ekki sagt að ég eigi mér upp­á­halds­árstíð þar sem mér finnst hver árstíð bjóða upp á sinn ein­staka sjarma og feg­urð. Marg­ir heill­ast að sum­ar­mánuðunum á Íslandi, þá sér­stak­lega vegna dags­birt­unn­ar og miðnæt­ur­sól­ar­inn­ar sem gefa manni tæki­færi til að tjalda á tjald­stæðum og fara í æv­in­týra­ferðir. Sum­arið er líka vin­sæll tími til að upp­lifa líf­leg­ar hátíðir og viðburði á Íslandi, sem og töfr­andi lands­lag í full­um blóma.“

Sumarið býður upp á ótal spennandi ævintýri, bjartar nætur og …
Sum­arið býður upp á ótal spenn­andi æv­in­týri, bjart­ar næt­ur og blóm­legt lands­lag. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

„Á hinn bóg­inn er vet­ur­inn ekki síður heill­andi á Íslandi, með stór­kost­legu snævi þöktu lands­lagi sínu, glitrandi jökl­um og dá­leiðandi norður­ljós­um sem dansa um næt­ur­him­in­inn. Vet­ur­inn býður einnig upp á spenn­andi tæki­færi til afþrey­ing­ar eins og að fara í jökla­göngu, heim­sækja ís­hella og hlýja sér í heit­um nátt­úru­laug­um í kuld­an­um.“

Deividas segir veturinn einnig bjóða upp á spennandi ævintýri og …
Dei­vi­das seg­ir vet­ur­inn einnig bjóða upp á spenn­andi æv­in­týri og úti­vist. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

„Haustið fær­ir land­inu friðsæld með gullnu lands­lagi og færri ferðamönn­um. Það er tími fyr­ir friðsæl­ar göngu­ferðir, dýra­lífs­skoðun og til að njóta stór­kost­legr­ar lita­dýrð lauf­anna. Og loks mark­ar vorið svo upp­haf nýs lífs á Íslandi með end­ur­komu far­fugl­anna, villi­blóm­in springa og snjór­inn bráðnar – en þá koma í ljós fald­ir foss­ar og grósku­mikið grænt lands­lag.“

Deividas segir hverja árstíð hafa sinn einstaka sjarma.
Dei­vi­das seg­ir hverja árstíð hafa sinn ein­staka sjarma. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Fangaði Norður­ljós­in á filmu

Dei­vi­das hef­ur unnið að hinum ýmsu spenn­andi ljós­mynda- og upp­töku­verk­efn­um á und­an­förn­um árum. Spurður hvort hann eigi sér upp­á­halds­verk­efni nefn­ir Dei­vi­das tvö sem hann seg­ir standa upp úr, en hann seg­ir verk­efn­in bæði hafa gert hon­um kleift að kanna sköp­un­ar­gáfu sína og kennt hon­um dýr­mæt­ar lex­í­ur.

„Fyrsta verk­efnið sem er í al­gjöru upp­á­haldi hjá mér er þegar ég fangaði svo­kallað „time-laps“ af Norður­ljós­un­um sem vakti mikla at­hygli á In­sta­gram. Að sjá dá­leiðandi dans Norður­ljós­anna þró­ast í raun­tíma og deila því síðan með heim­in­um var sann­ar­lega ógleym­an­leg til­finn­ing, en mynd­bandið hef­ur fengið yfir 1,5 millj­ón áhorf og verið end­ur­deilt af yfir fimm þúsund not­end­um. Sú staðreynd að mynd­bandið hafi náð til þessa fjölda er ótrú­lega gef­andi og ótrú­legt að hugsa til þess að þetta hafi fangað at­hygli svona breiðs hóps.

Annað verk­efni sem á sér­stak­an stað í hjarta mínu er röð bíla­aug­lýs­inga sem ég tók upp fyr­ir Bíla­sölu Ak­ur­eyr­ar. Að vinna með svona flott öku­tæki og finna skap­andi leiðir til að sýna hönn­un þeirra og kosti var spenn­andi áskor­un, en það að búa til sjón­rænt gríp­andi atriði þar sem lögð er áhersla á kjarn­ann í hverj­um bíl var bæði spenn­andi og ánægju­legt. Auk þess var gam­an að vita að starf mitt hafi stuðlað að því að kynna þetta fara­rækti og um leið efla ímynd vörumerk­is­ins.“

Deividas hefur unnið að mörgum spennandi verkefnum.
Dei­vi­das hef­ur unnið að mörg­um spenn­andi verk­efn­um. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Hvernig lít­ur hefðbund­inn dag­ur í lífí þínu út á Íslandi?

„Dæmi­gerður dag­ur í lífi mínu hér á Íslandi hefst þegar ég vakna upp við kyrrð og feg­urð ís­lenska lands­lags­ins. Eft­ir að hafa notið staðgóðs morg­un­verðar ásamt rjúk­andi kaffi­bolla til að koma mér af stað í dag­inn þá hefst vinnu­dag­ur­inn sem ljós­mynd­ari og upp­tökumaður. Á milli verk­efna gef ég mér tíma til að huga að heils­unni með því að skella mér í rækt­ina og taka æf­ingu – hvort sem það er að lyfta lóðum eða fara að hlaupa. Hreyf­ing gef­ur mér klár­lega aukna orku og ein­beit­ingu yfir dag­inn. 

Af og til tek ég mér svo frí frá vinn­unni til að hitta vini og njóta gæðastunda með þeim, hvort sem það er að fara á nýtt kaffi­hús eða veit­ingastað, fara í ferðalag og stunda úti­vist, eða ein­fald­lega slaka á og spjalla. Að eyða tíma með vin­un­um bæt­ir án efa gleði og jafn­vægi við líf mitt hér á Íslandi.“

Deividas hefur gaman að hreyfingu og líkamsrækt, en hann segir …
Dei­vi­das hef­ur gam­an að hreyf­ingu og lík­ams­rækt, en hann seg­ir það einnig hjálpa til við ein­beit­ingu og orku yfir dag­inn. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

Ertu með ein­hver ferðaplön fyr­ir sum­arið?

„Planið er að fara Lauga­veg­inn og Fimm­vörðuháls­inn í sum­ar. Þetta eru göng­ur um töfr­andi lands­lag með stór­kost­legu út­sýni yfir lit­rík fjöll og jökla þar sem farið er yfir ár, horft yfir fal­lega fossa og tjaldað í nátt­úr­unni í nokkra daga – ógleym­an­legt æv­in­týri fyllt með magnaðri nátt­úru­feg­urð og spenn­andi upp­lif­un­um!

Svo stefni ég á að taka þátt í hálf­um járn­karli. Ég vann og var í fyrsta sæti í byrj­enda­flokki í hálf­um járn­karli árið 2020, en ég hef mjög gam­an að bæði lík­ams­rækt og þrekþjálf­un og þát­töku í slík­um keppn­um.“

Deividas stefnir á að keppa í hálfum járnkarli í sumar.
Dei­vi­das stefn­ir á að keppa í hálf­um járn­karli í sum­ar. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius

„Ég er líka að spá í að fara í stutta ferð til út­landa til að bæta smá auka spennu í sum­arið mitt! Hvort sem valið er að heim­sækja ná­læg­an evr­ópsk­an áfangastað eða fara lengra þá get­ur maður alltaf verið viss um að það verði auðgandi upp­lif­un full af nýrri menn­ingu og æv­in­týr­um. 

Ferðalön mín fyr­ir sum­arið stefna því í að vera full af æv­in­týr­um, upp­götv­un­um og ógleym­an­leg­um minn­ing­um. Ég mun njóta hverr­ar stund­ar, bæði á há­lendi Íslands og víðar!“

Í sumar ætlar Deividas einnig að vera duglegur að ferðast …
Í sum­ar ætl­ar Dei­vi­das einnig að vera dug­leg­ur að ferðast inn­an­lands og um há­lendi Íslands. Ljós­mynd/​Dei­vi­das Mat­kevičius
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert