„Fólk tók alveg sérstaklega vel á móti mér“

Stuðlagil er uppáhalds staður Ryans á Íslandi.
Stuðlagil er uppáhalds staður Ryans á Íslandi. Samsett mynd

„Ég heyrði fyrst minnst á Ísland aðeins örfáum árum áður en ég flutti hingað,“ segir Filippseyingurinn Ryan Corcuera sem fluttist búferlum til Íslands árið 2014 og fagnar því tíu ára flutningsafmæli í ár. 

Ryan er 32 ára gamall og starfar sem hjúkrunarfræðingur á taugadeild Landspítalans, einn fjölmargra innflytjenda sem sinna hér störfum í heilbrigðiskerfinu. Hann elskar að hjálpa fólki og nýtir allar frístundir til þess að ferðast um Ísland. 

„Frændi minn sagði mér frá þessari eldvirku eyju í Atlantshafi og þeim fjölbreyttu starfsmöguleikum innan heilbrigðiskerfisins. Hann var sá sem hvatti mig til að leggja stund á nám í hjúkrunarfræði, enda góð leið til öruggara og betra lífs á Íslandi,“ útskýrir Ryan. 

Hvar bjóstu í Filippseyjum og hvernig voru uppeldisárin þar?

„Ég ólst upp í Calamba City í Filippseyjum, borg í einnar klukkustundar fjarlægð frá höfuðborg Filippseyja, Manila. 

Ég ólst upp í góðu hverfi þar sem krakkar léku sér að mestu á götum úti. Það er ótrúlegt að búa á stað þar sem er alltaf sólríkt veður. Það var því mikil breyting fyrir mig að kynnast íslensku veðurfari.“

Lífið var ljúft á uppvaxtarárunum í Filippseyjum.
Lífið var ljúft á uppvaxtarárunum í Filippseyjum. Ljósmynd/Aðsend

Átt þú stóra fjölskyldu á Íslandi?

„Eldri bróðir minn og fjölskylda hans búa á Íslandi. Frændi minn er einnig búsettur hér á landi og starfar sem hjúkrunarfræðingur. Ég á gríðarlega gott bakland á Íslandi, mér finnst það mjög mikilvægt.

Faðir minn og móðir eru búsett í Filippseyjum en faðir minn er nýfluttur heim eftir margra ára búsetu á Ítalíu.“

Ryan er þakklátur fyrir fjölskyldu sína á Íslandi.
Ryan er þakklátur fyrir fjölskyldu sína á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Saknar þú lífsins á Filippseyjum, hvers þá helst?

„Já og nei. Ég elska matinn og að eyða tíma á ströndinni en veðrið getur stundum orðið aðeins of heitt fyrir minn smekk, sérstaklega yfir sumartímann.“

Hvenær tókst þú þá ákvörðun að flytja til Íslands, af hverju?

„Það er erfitt að vinna sem hjúkrunarfræðingur úti, mjög lítið um fastar stöður fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Ég ákvað því að flytja til Íslands í þeirri von að eignast betra líf. Ég flutti til Íslands tveimur árum eftir að ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur.“

Hjúkrunarteymi taugadeildar Landspítalans.
Hjúkrunarteymi taugadeildar Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við hjúkrunarstarfið?

„Ég elska að hjálpa fólki. Það er mjög gefandi að sjá fólk ná bata.“

Hvað kom þér helst á óvart þegar þú fluttir til Íslands? 

„Fólk tók alveg sérstaklega vel á móti mér, með opnun örmum. Það kom mér verulega á óvart og hjálpaði mér klárlega að aðlagast.“

Er eitthvað líkt með lífinu á Íslandi og Filippseyjum?

„Nei, þetta eru mjög ólíkir menningarheimar, alveg á sitthvorum enda skalans. Mér brá mjög mikið að sjá og heyra verð á Íslandi, sérstaklega þar sem allt er mjög ódýrt á Filippseyjum.“

Hvað finnst þér um veturna og myrkrið á Íslandi?

„Maður venst því með tímanum. Í fyrstu fannst mér þetta leiðinlegt og niðurdrepandi en ég kýs að líta alltaf á jákvæðu hliðarnar og sé þetta bara sem hluta af fegurð þessa fallega lands.“ 

Ryan ásamt fjölskyldu og vinum á flugvellinum daginn sem hann …
Ryan ásamt fjölskyldu og vinum á flugvellinum daginn sem hann lagði af stað til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Borðar þú íslenskan mat?

„Ég legg mig fram við að smakka sem flest. Ég algjörlega elska kjötsúpu, hún er í miklu uppáhaldi. Ég hef sömuleiðis smakkað þorramat og hákarl en það heillaði ekki bragðlaukana.“

Hefur þú upplifað höfnun eða fordóma?

„Nei, ég get nú ekki sagt það. Mér fannst þó margt breytast eftir að ég lærði að tala tungumálið. Fólk varð opnara og duglegra að tala við mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert