Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja Japan að undanförnu þar sem yenið og krónan eru á pari. Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir verkefnastjóri hjá Green by Iceland fór ásamt kærasta sínum Aroni Heimissyni í ógleymanlegt ferðalag til Japans og segir hér frá sinni upplifun.
„Japan hafði lengi verið á lista yfir lönd sem okkur langaði að heimsækja. Ég elskaði japanskar teiknimyndir og manga sem barn og var alltaf heltekin af Japan. Að heimsækja Japan og sjá kirsuberjatréin í blóma (Sakura) var langþráður draumur sem kærasti minn lét rætast þegar hann gaf mér ferðina í þrítugsgjöf,“ segir Viktoría sem flaug í gegnum Helsinki með Finnair.
„Við vorum í tvær vikur sem reyndist vera fullkomin lengd. Við lentum í Tokyo en ákvaðum að fara beint til Kanazawa sem er lítil borg og oft kölluð Litla Kyoto. Við lögðum áherslu á að upplifa hefðbundið Japan og kynnast menningu og náttúru fremur en að vera í stórborg. Við vörðum tveimur dögum í Kanazawa og fórum svo í fjóra daga til Kyoto. Þaðan ferðuðumst við til Wakayama héraðsins og fórum í þriggja daga fjallgöngu. Loks enduðum við ferðalagið okkar á þremur dögum í Tokyo.“
„Í Kanazawa leigðum við okkur kimono og eyddum deginum í Kenroku-en garðinum sem er einn flottasti garður Japans. Við vorum svo heppin að Sakura seinkaði í ár og blómstraði einmitt þegar við vorum þarna en það var ótrúlega gaman að sjá þennan fallega garð og hversu vel er hugað að honum. Allt var svo snyrtilegt og við sáum fólk snyrta minnstu smáatriði í garðinum. Við fórum í sake-smakk á litlum sake bar sem er með yfir 100 tegundir af sake. Þar fengum við matar- og sake pörun.“
„Í Kyoto gistum við í Gion sem er eitt af frægustu geisju-hverfum Japans en við sáum þær labba í vinnuna strax á fyrsta degi. Þar fórum við í nokkur hof og garða og röltum um götur borgarinnar en Kyoto er virkilega skemmtileg borg og gott að týnast í henni því maður finnur alltaf skemmtilegar antique/vintage búðir, lítil hof, garða og góða veitingastaði.“
„Við kíktum á hinn fræga Nishiki matarmarkað í Kyoto og sáum strax að þetta var túristagildra þar sem verðið var mun hærra en annars staðar, of fjölmennt og nánast eingöngu túristar. Þegar við heimsóttum önnur hof og garða þá sáum við að þar eru oft matarvagnar að selja hefðbundinn japanskan mat fram eftir kvöldi þannig að maður gat smakkað margt á góðu verði að hætti heimamanna.“
„Eftir Kyoto héldum við í Wakayama hérað þar sem við tók Kumano Kodo fjallganga. Sú ganga er ein af tveimur pílagrímsleiðum heims sem eru á UNESCO heimsminjaskrá. Við gistum á gömlum ryokan gististöðum þar sem við fengum mjög hefðbundinn margra rétta japanskan mat og nestisbox fyrir ferðalagið okkar.“
„Gangan tók þrjá daga en við gengum milli 20-25km í 6-10 tíma á dag, alls 70km og 3400m hækkun. Einn af áfangastöðum var Yunomine Onsen sem er eitt elsta hverakerfi í Japan (uppgötvað fyrir 1800 árum síðan) og þar má finna Tsuboyu baðhús sem er á heimsminjaskrá UNESCO.“
„Fjallgangan var jafn falleg og hún var krefjandi og maður var mjög endurnærður bæði líkamlega og andlega eftir hana.“
„Síðustu dagana vörðum við í Tokyo þar sem við kíktum á fræga TeamLab safnið þar sem hvert herbergi býður uppá sérstakar upplifanir. Þar var til dæmis hægt ganga í gegnum sakura tjörn eða sitja í speglaherbergi umkringd ferskum blómum.“
Viktoría segir að þeim hafi liðið vel í Japan. „Við fundum fyrir miklu öryggi og ró líkt og hér á Íslandi. Göturnar eru hreinar, allt vel merkt og það er mjög þægilegt að ferðast á milli staða.
„Þá var fólkið mjög kurteist, það skiptir sér ekki af manni að óþörfu og fáir töluðu ensku þar sem við vorum. Maður fékk mikinn frið til að upplifa þetta alveg á eigin forsendum. Það fólk sem við spjölluðum við var mjög áhugasamt og góðhjartað.“
„Maturinn var mikil upplifun. Það er klárt að Japanir huga mikið að matarmenningu og leggja mikla áherslu og ferskleika, gæði og fjölbreytileika. Við smökkuðum mikið sem við vissum ekki alveg hvað var og oft var enginn enskumælandi til að útskýra og google translate hjálpaði lítið. Sumt þótti okkur skrítið en maður fann samt að þetta var allt mjög ferskt og eldað af ástríðu.“
„Við komumst hins vegar að því að ekki er allt sushi framúrskandi í Japan, þó það sé allt gott. Það var til dæmis mikill gæðamunur á sushi á túristastöðum og sushi á hefðbundnum japönskum veitingastað. Einn staður bauð til dæmis einungis uppá fastan matseðil af 28 bitum þar sem kokkurinn gerði hvern bita í einu fyrir hvern gest (eingöngu 6 gestir). Þetta var mögnuð upplifun og ferskasti fiskur sem við höfum smakkað og um var að ræða margar tegundir af fisk sem við könnuðumst ekki einu sinni við og finnst eingöngu í Japan.“
„Veitingastaðir í Japan leggja áherslu á gæði umfram fjölda og flestir bjóða uppá örfáa rétti sem eru þó útbúnir af mikilli fagmennsku og fullkomnun. Það er mikið um litla og falda veitingastaði sem hafa aðeins pláss fyrir 4-6 gesti í einu og taka ekki við borðpöntunum. Það gildir því „fyrstur kemur, fyrstur fær“ og ekki er óeðlilegt að bíða klukkutímum saman í röð fyrir góða máltíð. Afgreiðslutími er mjög hraður og maður er ekki að eyða miklum tíma á veitingastaðnum.“
Viktoría segir að ferðalagið hafi gengið vel en leggur þó áherslu á mikilvægi góðs undirbúnings.
„Það þarf að undirbúa ferðalagið vel og ákveða hvað maður vill skoða og hvenær. Okkur fannst mjög erfitt að velja og hafna því það er svo margt að sjá í Japan og maður þurfti að forgangsraða vel. Stundum eru langar vegalengdir milli staða og ferðatíminn getur tekið hálfan dag.“
„Eins ef fólk ætlar til Kyoto þá ráðleggjum við öllum að bóka borð fyrirfram þar sem það var ómögulegt að labba inn á staði. Eins er erfitt að bóka borð því bókunarsíða japans Tablelog er á japönsku og ef maður hringir þá talar enginn ensku en með aðstoð google translate getur maður verið heppin!“