„Mínar uppáhaldsminningar eru eyjahoppin í Tælandi“

Elísabet Torp er mikill ferðaunnandi og hefur ferðast víða, bæði …
Elísabet Torp er mikill ferðaunnandi og hefur ferðast víða, bæði á Íslandi og erlendis. Samsett mynd

Elísabet Torp er 24 ára viðskiptafræðingur sem starfar á fjármálasviði Bláa Lónsins. Hún hefur mikinn áhuga á ferðalögum og veit fátt skemmtilegra en að kynnast nýju fólki og nýrri menningu. 

Aðspurð segist Elísabet alla tíð hafa haft áhuga á ferðalögum, en hún hafi verið svo heppin að fá að ferðast frá unga aldri og telur það vera mikil forréttindi að geta skoðað heiminn.

„Það sakar heldur ekki að eiga maka sem deilir sama áhuga á því að ferðast og höfum við verið dugleg að ferðast saman. Seinasta ferðalagið okkar var núna í febrúar til Dyflinnar og vorum við aðallega að skoða pöbba-menninguna og fórum á Guinnes-safnið og lærðum að „river dansa“ sem var meiriháttar skemmtun,“ segir Elísabet. 

„Þar á undan fórum við í aðeins stærri ferð til Asíu í „mini“ reisu, en þá heimsóttum við Singapúr, Víetnam og enduðum svo í Tælandi. Við þurftum alls að fara í ellefu flugvélar en þetta var að sjálfsögðu allt þess virði. Menningin í suðaustur Asíu er svo allt önnur en sú sem ríkir hérlendis – fólk lifir mikið meira í núinu, er mikið afslappaðra, rosalega brosmilt og vilja allt fyrir mann gera,“ bætir hún við. 

Elísabet deilir ferðaáhuganum með kærasta sínum.
Elísabet deilir ferðaáhuganum með kærasta sínum.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Það getur verið svo mismunandi í hvernig stuði maður er, stundum þráir maður ekkert meira en sól og kokteila, svo kemur löngun í að skoða borgir og mismunandi menningu. En ef ég þyrfti að velja er það sólarlandaferðir þar sem ég get legið á sundlaugarbakkanum eða verið á ströndinni með svalandi drykk í hendi, og er það ekki verra ef drykkurinn er ódýr. Ég hef alltaf gaman af því þegar ég hitti aðra túrista eða heimamenn í ferðalögum og þau spyrja mig hvernig mér finnst verðlagið vera í landinu, þá er auðvelt að svara að það sé ekkert dýrt fyrir manni þegar maður er vanur verðlaginu á Íslandi.“

Elísabet er hrifnust af sólríkum ferðalögum.
Elísabet er hrifnust af sólríkum ferðalögum.

„En mínar uppáhaldsminningar eru eyjahoppin í Tælandi, en ég hef heimsótt margar eyjur þar, til dæmis Phuket, Koh Samui og eyjarnar þar í kring. Nú tala ég eins og kona sem gleymir strax hvað fæðingin var erfið, en ég verð mjög sjóveik og líður yfirleitt hræðilega á bátunum sem eru einmitt aðal ferðamátinn á eyjunum. En síðan sér maður þessa gullfallegu náttúru og gleymir því strax hvað ferðalagið var erfitt.“

Uppáhaldsminningar Elísabetar eru frá eyjahoppum í Tælandi.
Uppáhaldsminningar Elísabetar eru frá eyjahoppum í Tælandi.

Áttu þér uppáhaldsborg í Evrópu?

„Mér finnst erfitt að velja á milli borga í Evrópu þar sem þær hafa upp á svo margt ólíkt að bjóða. Mér finnst t.d. París alveg yndisleg og hugguleg borg, fullt af virtum söfnum, flottum minnismerkjum og kirkjum. Svo er gaman að versla á Champs-Élysées, sem er full af hönnunarverslunum. Það er líka gaman að borða og drekka í París þar sem það er fullt af flottum veitingastöðum og margir þeirra með Michelin-stjörnu.“

París heillaði Elísabetu.
París heillaði Elísabetu.

„Ég hafði einnig gaman af öllum borgunum sem ég skoðaði á ferðalagi mínu um Ítalíu. Mér fannst Pisa þó síst þar sem mér fannst borgin ekki hafa upp á mikið að bjóða nema þennan eina skakka turn. Einnig kom Lisbon ótrúlega á óvart og gæti ég vel hugsað mér að fara aftur þangað.“

Elísabetu þótti Pisa síst af borgunum sem hún hefur heimsótt …
Elísabetu þótti Pisa síst af borgunum sem hún hefur heimsótt á Ítalíu.

En utan Evrópu?

„Ég varð alveg dolfallin af Hoi An í Víetnam, við staðsettum okkur í „ancient town“ og var allt svo fallegt þar, gammaldags arkitektúr, steinsteyptar götur og áberandi litríkar verslanir prýddar litríkum ljósakerjum. Við leigðum okkur hjól og hjóluðum um bæinn, fundum klæðskerabúð með yndislegum konum sem sérsaumuðu á okkur bæði jakkaföt og fleira. Ég er ánægð að hafa fengið að upplifa bæinn í þessari mynd þar sem ég get ímyndað mér að þetta verði öðruvísi eftir 20 ár þegar túrisminn verður meiri í Víetnam.“

Elísabet á margar góðar og dýrmætar minningar frá ferðalögum sínum.
Elísabet á margar góðar og dýrmætar minningar frá ferðalögum sínum.

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi verður að vera hálendið. Ég fór seinasta september að skoða Kerlingafjöll á breyttum Toyota Hilux-jeppa sem var jómfrúarferð bílsins. Það var algjört ævintýri þó svo að bílinn hafi bilað nokkrum sinnum.“

Hálendið er í sérstöku uppáhaldi hjá Elísabetu!
Hálendið er í sérstöku uppáhaldi hjá Elísabetu!

Eftirminnilegasta ferðalagið erlendis?

„Það verður að vera fyrsta „fullorðins“ ferðin mín þar sem ég og kærastinn minn Hafsteinn fórum í tveggja vikna draumaferð til Balí í Indónesíu árið 2018. Við skoðuðum alla eyjuna, borðuðum góðan mat og kynntumst nýrri menningu. Við vorum ótrúlega lukkuleg að lenda á bílstjóra sem heitir Arik og smullum við öll saman, en hann var bílstjórinn okkar alla ferðina og sýndi okkur hvað eyjan hafði upp á að bjóða.

Einn daginn spurði Hafsteinn hann hver besti sjávarréttarstaðurinn á eyjunni væri og mælti hann með einum stað sem hann hafði lengi dreymt um að borða á en hafði aldrei gert það vegna verðlagsins. Við hugsuðum okkur ekki tvisvar um og buðum honum í dýrindismáltíð með okkur á þessum stað og var þetta yndisleg stund. Nokkrum dögum áður enn við kvöddum bauð Arik okkur heim til sín að kynnast fjölskyldu sinni og sýndi hann okkur einnig risavaxna python-kyrkislöngu sem sonur hans hafði veitt í skóginum og ákveðið að eiga sem „gæludýr“. Ég var smá smeik þar sem þetta var villt slanga og eina „öryggið“ var að hún var teipuð með rafmagnsteipi í kringum kjaftinn.“

Elísabet hefur lent í ýmsu á ferðalögum sínum.
Elísabet hefur lent í ýmsu á ferðalögum sínum.

Einn daginn vorum við á sundlaugarbakkanum og þá byrjaði sundlaugarvörðurinn á hótelinu að spjalla við okkur. Hann kynnti sig sem Ketut – nafnið er balísk hefð og er nafnið alltaf gefið fjórða barninu í röðinni. Einhverjir gætu kannast við þetta úr myndinni Eat, Pray, Love með Juliu Roberts. Við náðum vel saman og höfðum gaman af því að spjalla við hann, síðan bauð hann okkur að koma með sér á hindúaíska hátíð um kvöldið. Við þáðum boðið og mældum okkur mót fyrir utan hótelið klukkan 19. Við tróðum okkur öll þrjú á vespuna hans og byrjuðum heima hjá honum þar sem konan hans klæddi okkur upp í þjóðbúninginn og svo beint á hátíðina sem stóð klárlega upp úr í ferðinni, fólk tók okkur ótrúlega vel þó svo að við höfðum klárlega verið einu sem voru utanaðkomandi. 

Við tókum líka skyndiákvörðun í ferðinni að fara yfir á aðra eyju fyrir utan Balí sem heitir Nusa Lembongan og vorum þar í þrjár nætur. Náttúran þar var einstaklega falleg, tær sjór, hvítur sandur, hreinar strendur, mikill gróður og mjög góður matur.“

Parið hefur sannarlega kynnst skemmtilegu og áhugaverðu fólki á ferðalögum …
Parið hefur sannarlega kynnst skemmtilegu og áhugaverðu fólki á ferðalögum sínum.

En á Íslandi?

„Sumarið 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn var búinn að taka af okkur frelsið til að ferðast kom örlítill gluggi þar sem allt opnaði á ný. Þá var tilvalið fyrir alla Íslendinga að skoða landið sitt áður en að túristarnir myndu koma aftur. Ég greip tækifærið og fór í sjö daga ferðalag hringinn í kringum landið á „kúkú camper“ sem túristi í eigin landi. Það var meiriháttar gaman að sjá landið sitt með öðrum augum, þ.e.a.s. ekki umvafin túristum.“

Í kórónuveirufaraldrinum upplifði Elísabet Ísland frá öðru sjónarhorni.
Í kórónuveirufaraldrinum upplifði Elísabet Ísland frá öðru sjónarhorni.

„Það sem mér fannst standa upp úr var þegar við fórum að Stuðlagili og hafði ég enga hugmynd um að þetta yrði tíu kílómetra ganga og var ég alls ekki klædd í þetta verkefni – ég var semsagt í smekkbuxum og strigaskóm. En ég er samt sem áður ánægð að við lögðum í þetta þar sem þetta var algjörlega ómissandi í ferðinni.“

Stuðlagil stóð upp úr!
Stuðlagil stóð upp úr!

Áttu þér uppáhaldslaugar á Íslandi?

„Þegar ég fór hringinn í kringum landið fór ég í Vök sem er staðsett við Urriðavatn og fannst tær snilld að geta hent mér ofan í vatnið. Síðan hefur maður baðað sig oft í náttúrulaugum og finnst mér Seljavallalaug standa upp úr.“

Seljavallalaug er í uppáhaldi hjá Elísabetu.
Seljavallalaug er í uppáhaldi hjá Elísabetu.

Besti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Ég er ofboðslega hrifin af því að fara á góða veitingastaði og borða góðan mat og finnst því mikilvægt að skoða og plana veitingastaði sem mig langar að prófa áður en ég fer á áfangastaðinn. En ég hef minni áhyggjur af því að fá góðan mat þegar ég fer t.d. til Tælands eða Ítalíu þar sem það er hægt að fá góðan mat nánast hvar sem er.“

Elísabet hefur fengið mikið af góðum mat á ferðalögum sínum, …
Elísabet hefur fengið mikið af góðum mat á ferðalögum sínum, þá sérstaklega í Tælandi og á Ítalíu.

Hvað er ómissandi í flugvélinni að þínu mati?

„Það er hálspúðinn eða koddi eða eitthvað álíka sem ég get legið á þar sem ég sef í hverju einasta flugi, sama hversu langt eða stutt það er. Við erum að tala um það að ég svaf í vélinni frá Reykjavík til Vestmannaeyja seinasta sumar.“

Elísabet á ekki í neinum vandræðum með að sofa í …
Elísabet á ekki í neinum vandræðum með að sofa í flugi.

Hvaða staði á Íslandi mælir þú með að fólk heimsæki í sumar?

„Þegar fólk er að plana að koma til Ísland og spyr mig hvað ég mæli með að skoða spyr ég oftast hversu lengi þau verða á landinu. Fyrir styttri ferðir sting ég yfirleitt upp á að fara í Bláa lónið, skoða Gullfossi og Geysi, Jökulsárlóni og Reynisfjöru. Ef fólk hefur áhuga á meiri skemmtun þá mæli ég með að fara á snjósleða hjá Mountaineers og svo mæli ég yfirleitt með mörgum góðum veitingastöðum og börum í miðbæ Reykjavíkur. Ég reyni að sníða ferðirnar aðallega í kringum suðurhluta Íslands, mæli svo einnig með Seljalandsfossi, Gljúfrabúa og fleiri stöðum.“

Seljalandsfoss í allri sinni dýrð.
Seljalandsfoss í allri sinni dýrð.

Hvert dreymir þig um að ferðast?

„Mig hefur lengi langað að ferðast til einhverra landa í Suður Ameríku, t.d. Brasilíu og Chile að skoða Patagóníu.“

Elísabetu dreymir um að heimsækja Suður Ameríku.
Elísabetu dreymir um að heimsækja Suður Ameríku.

Ertu með einhver ferðaplön í sumar?

„Já, planið er að fara til Tenerife í september og verður það í fyrsta sinn sem ég fer þangað. Ég átti bókaða ferð til Tenerife árið 2021 en síðan var ekkert hægt að fara vegna kórónuveirufaraldursins. Ég er spennt að sjá hvað Tenerife hefur upp á að bjóða og hver ástæðan sé að Íslendingar velji að fara þangað aftur og aftur.“

Elísabet er spennt að heimsækja Tenerife, uppáhaldseyju Íslendinga, í fyrsta …
Elísabet er spennt að heimsækja Tenerife, uppáhaldseyju Íslendinga, í fyrsta sinn!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert