„Ég er mikið í að búa til upplifanir“

Halldór elskar að heimsækja fallega staði.
Halldór elskar að heimsækja fallega staði. Ljósmynd/Úr einkasafni

Halldór E. Laxness, leikstjóri og leiðsögumaður, lagðist ungur í ferðalög og hefur alla tíð síðan látið nám og störf taka sig um heim allan. Hann hefur átt erindi í flestar heimsálfur og býr yfir áratuga reynslu í ferðaþjónustu og fararstjórn. Þúsundir manna þekkja hann frá Lignano og Sikiley á Ítalíu, en einnig hafa sælkeraferðir hans um Frakkland, Grikkland og Ítalíu slegið í gegn hjá landsmönnum síðastliðin misseri.

Halldór hlakkar til að halda áfram að miðla þekkingu sinni um sögu og listir til farþega Úrvals Útsýnar á komandi mánuðum.

 Hvenær byrjaði ferðaáhuginn?

„Við erum öll þjökuð af þessari bakteríu í fjölskyldunni. Ég byrjaði að ferðast mjög snemma í huganum, enda voru sögur og saga í algjöru uppáhaldi á mínu heimili.“

Hvað varstu gamall þegar þú ferðaðist fyrst erlendis og hvert fórstu?

„Ég var eins árs þegar farið var til Danmerkur. En fyrsta ferðin með meðvitund var þegar ég var sjö ára, þá ferðaðst fjölskyldan á farþegaskipinu Kromprins Friðrik einnig til Danmerkur.“

Til hvaða landa hefur þú ferðast?

„Ætli maður sé ekki kominn með eitthvað um 20 lönd.“

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Öll ferðalög eru eftirminnileg ef mann þyrstir í að ferðast.“

Halldór hefur ferðast til ríflega 20 landa.
Halldór hefur ferðast til ríflega 20 landa. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað leggur þú áherslu á, á ferðalögum? 

„Lengi vel sem ungur maður var maður að flýta sér til að sjá sem mest en núna er best að gefa öllu góðan tíma til að hafa sem mest gaman að stöðum og fólki.“

Finnst þér skemmtilegra að ferðast einsamall eða í hóp?

„Ég hef mikið gert af báðu en ég verð að viðurkenna að það er alltaf frábært að vera með persónur og leikendur sem geta glaðst með manni yfir fegurð og gamani.“

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu og af hverju?

„Ég elska Róm og París, þær eru drottningar borganna. Nú síðan er ég alltaf veikur fyrir hafnarborgunum Napólí, Marseille og Palermo, enda allar með svo fjölbreytt mannlíf og ægifögur bæjarstæði.“

En fyrir utan Evrópu?

„Mexíkó er einn mesti suðupottur margra mismunandi menninga. Þar ægir öllu saman á góðan og vondan hátt.“

Hefur þú lent í vandræðum á ferðalögum?

„Öllum ferðalögum fylgja einhverjar áskoranir en maður reynir að gera sem minnst af „stunti“ þegar maður er að ferðast með hópa og einnig þegar maður er einn á ferð. Með vandræðum endar oft ferðin.“

Segðu aðeins frá leiðsögumannalífinu?

„Það er skemmtilegt ef þú finnur rétt sjónarhorn á það. Ég hef gaman að vera með fólki og njóta einhvers saman.“

Halldór hlakkar mikið til komandi ferðalaga.
Halldór hlakkar mikið til komandi ferðalaga. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað skilgreinir góðan leiðsögumann?

„Þar kemur leikhúsið inn. Að skipuleggja ferðalag er eins og sviðsetja leikverk. Við förum með áhorfendur og samferðamen okkar á vissa staði. Ég er mikið í að búa til upplifanir. Og leikstjórinn og leiðsögumaðurinn eru í að dýpka reynsluna.“ 

Verður þú einhvern tímann þreyttur á að heimsækja sömu staðina?

„Aldrei því að alltaf sér maður eitthvað nýtt.“

Hvaða ferðalög eru á dagskrá hjá þér? 

„Ég var að koma úr Napólíflóanum og held aftur út í október með Úrval Útsýn í einhvers konar „must-ferðir“ á fagra og skemmtilega staði. Á stefnuskránni er að heimsækja Budva í Svartfjallalandi, sem er ein af perlum Adríahafsins, sigla um Miðjarðarhafið og heimsækja Sikiley. Þetta eru allt „must-ferðir“ því að fegurðin ríkir ein á þessum stöðum. Síðan verðum við vonandi með spennandi ferðir til Napólí, Capri, Amalfi, Feneyja og gríska eyjahafsins á komandi mánuðum.“

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnastur af? 

„Ég er einna mest hrifinn af því að vera í fegurðinni þar sem að lífið er of stutt fyrir annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka