„Þetta var ein besta stund lífs míns,“ segir hin íraska Shan Yousif Mohammed sem nýverið hlaut íslenskan ríkisborgararétt eftir tæplega sjö ára búsetu á Íslandi. Hún kom til landsins frá Kúrdistan árið 2017, ásamt foreldrum sínum og þremur systkinum, og segir líf sitt hafa breyst til hins betra um leið og hún steig niður fæti á Íslandi.
Shan er 22 ára gömul og ein fjölmargra innflytjenda sem sinna hér störfum í heilbrigðiskerfinu. Hún elskar að hjálpa fólki og vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum í haust þegar hún deildi myndskeiði af sér að sýna sjúklingi á Landspítalanum glænýtt vegabréf sitt.
Hvað varð til þess að þið fluttuð til Íslands, af hverju?
„Faðir minn vildi öðlast betra og öruggara líf fyrir fjölskyldu sína.“
Saknar þú lífsins í heimalandinu, ef svo, hvers þá helst?
„Að sjálfsögðu sakna ég heimalandsins. Ég sakna afa, ömmu, frænda minni og vina og einnig tungumálsins, að heyra það óma úti á götu og alls staðar í kringum mig. En ég vil frekar búa á Íslandi og lít á Ísland sem heimili mitt, eins og faðir minn segir alltaf: „Heimili þitt er þar sem þér líður best“. Mér líður mjög vel á Íslandi og er með framtíðarplön.“
Er eitthvað líkt með lífinu á Íslandi og í heimalandi þínu?
„Nei, ég myndi nú ekki segja það, en það eru líkindi. Fólk ber mikla virðingu fyrir hvert öðru og sýnir ást og umhyggju. Íslendingar og Kúrdar eiga það sameiginlegt að þykja vænt um fjölskyldur sínar, hittast á hátíðisdögum og fagna saman.“
Hvernig var að yfirgefa heimalandið?
„Það var mjög erfitt. Ég var ung og vinamörg og þurfti að yfirgefa heimili mitt og byrja upp á nýtt í ókunnu landi. En ég er mjög þakklát, stolt og afar hamingjusöm hér á landi.“
Hvers saknarðu helst við heimalandið?
„Ég sakna afa og ömmu. Ég sakna föstudagskvöldanna þegar öll fjölskyldan hittist og borðaði saman heima hjá þeim.“
Hvað finnst þér um veturna og myrkrið á Íslandi?
„Satt best að segja þá hef ég mjög gaman af öllu sem viðkemur lífinu á Íslandi en viðurkenni alveg að þetta voru viðbrigði. Það tók mig smá tíma að venjast þessu en ég veit að á eftir myrkri kemur ljós og að vetri hverjum fylgir vor.
Ég hef fundið fyrir vott af skammdegisþunglyndi og leitaði eitt sinn ráða hjá sjúklingi mínum sem sagði: „Njóttu alls í kringum þig, jafnvel þegar það særir þig eða gerir þig hrygga, þú nýtur slæmu tímanna jafnvel og hinna á meðan þú hefur tíma í þessu lífi“. Þessi orð opnuðu augu mín og allt frá því að ég heyrði þetta hef ég kunnað meta kuldann og myrkrið.“
Shan öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt í október og segir það besta augnablik lífs síns.
„Ég get varla útskýrt hvernig mér leið þennan örlagaríka dag, þegar ég varð íslenskur ríkisborgari. Ég var flóttamaður á Íslandi, ekki með vegabréf, bara ferðaskilríki, og velti því fyrir mér í langan tíma hvenær ég yrði íslenskur ríkisborgari.
Líf mitt breyttist svo óvænt laugardagskvöldið 5. október síðastliðið. Ég var alltaf að bíða eftir svari frá Útlendingastofnun og ákvað, eiginlega bara að gamni mínu, að yfirfara tilkynningarnar mínar á island.is og það var þá sem ég sá ríkisfangið breytast úr Írak yfir í Ísland. Ég stóð upp og hljóp gargandi og grátandi um allt húsið, af gleði auðvitað.
Vinkona mömmu minnar var í heimsókn hjá okkur og skildi ekkert í því af hverju ég lét svona og mamma ekki heldur. Ég gat ekki talað en kom því að lokum út mér að ég hefði öðlast ríkisborgararétt, mamma fór að hágráta og faðmaði mig þétt að sér. Vinur pabba míns tilkynnti honum tíðindin, hann var svo glaður og kom meira að segja snemma heim úr vinnunni til að fagna með okkur.“
Shan hélt þessum miklu gleðitíðindum leyndum frá vinum og vinnufélögum í smástund en átti þó erfitt með að leyna þessu lengi.
„Ég bakaði íslenska köku og fór með hana upp á Landspítala. Ég fagnaði með vinnufélögum mínum og sjúklingum. Eins og margir hafa séð þá sýndi ég einum af sjúklingum mínum vegabréfið mitt, það var einstakt augnablik. Ég græt í hvert einasta skipti sem ég horfi á myndbandið.“
Shan hóf störf á Landspítalanum í mars 2022 og hyggur á nám í læknisfræði við Háskóla Íslands.
„Ég byrjaði að vinna á Landspítalanum þann 10. mars 2022, á sjálfan 20 ára afmælisdaginn minn. Það var sko besti afmælisdagur sem ég hef átt.“
Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?
„Ég nýt þess að annast fólk og sjá því batna. Ég á í góðu sambandi við sjúklingana mína og elska að grínast í þeim og gleðja þá. Ég á margar fallegar minningar og skemmtilegar sögur. Ég var til að mynda með sjúkling, alveg yndislega konu, sem kallaði mig alltaf lilju. Mér þótti afar vænt um það. Þegar hún lést þá endaði ég á að fá mér húðflúr á rifbeinin með mynd af lilju og orðunum „kindness always comes back“, en hún var vön að segja það við mig.“
Stefnir þú á nám í hjúkrunarfræði, læknisfræði eða sjúkraliðafræði?
„Ég er á sjúkraliðabraut og stefni á læknisfræði. Mig hefur alltaf langað til þess að hjálpa fólki og sá fljótt að ég get reynst mörgum hjálparvon. Ég ætti þó eflaust að fara í sálfræði, enda góður hlutandi og hef gengið í gegnum margt, en ég vil bara vera manneskja sem sýnir öðrum bjartari leiðir.“
Shan elskar veturinn á Íslandi og nýtur veðurblíðunnar, göngustíganna og náttúrufegurðarinnar.
Hvernig lýst þér á veturinn á Íslandi?
„Hann er fallegur en oft og tíðum harður. Ég elska himininn á veturna, að horfa á norðurljósin og leika í snjónum, það er ekkert betra.
Heldur þú jól, ef svo, hvernig ætlarðu að halda jólin?
„Já, við byrjuðum að halda jól þegar við fluttum til Íslands, enda eru jólin stór hluti af íslenskri menningu. Ég á tvö yngri systkini, bæði á grunnskólaaldri, og þau vilja ólm halda jól eins og samnemendur sínir. Foreldrar mínir kaupa jólatré og gjafir handa öllum, við mamma eldum kvöldmat og síðan borðum við saman og gefum hvert öðru gjafir.“
Áttu þér einhverjar skemmtilegar jólahefðir?
„Já, ég elska að skreyta jólatréð, baka jólakökur og horfa á jólamyndir. Mér finnst líka gaman að vinna á Landspítalanum í jólamánuðinum. Það er eina skiptið sem við megum bregða út af vananum og klæðast jólapeysum á vaktinni.“