Þórdís Katla Sverrisdóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast. Hún er nýkomin heim eftir ævintýralega dvöl á eyjunni Srí Lanka í Indlandshafi, en þar eyddi hún jólunum ásamt foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Þórdís Katla segir ferðalagið hafa verið magnaða upplifun og hreint út sagt ótrúlegt, en eitt heldur óheppilegt atvik, sem átti sér stað á aðfangadagskvöld, gerði ferðina sérlega eftirminnilega fyrir hana og fjölskyldu hennar.
Hún segir betur frá því hér á eftir.
Þórdís Katla er 21 árs gömul og stundar nám á sviði tómstunda- og félagsmálafræða við Háskóla Íslands. Hún veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en hlakkar til að komast að því með tíð og tíma.
Ferðaáhuginn kviknaði snemma hjá Þórdísi Kötlu, enda eru foreldrar hennar afar ferðaglaðir. Hún fór í fyrstu utanlandsferðina sína aðeins nokkurra mánaða gömul og hefur verið á faraldsfæti síðan.
„Foreldrar mínir hafa alltaf verið duglegir að ferðast með okkur og kynna okkur systkinin fyrir undrum heimsins. Þegar ég var nemandi í sjötta bekk, árið 2015, ferðuðumst við til Úganda, sem var ótrúleg upplifun fyrir ungu mig. Sú ferð opnaði augu mín fyrir fjölbreytileika heimsins. Ég algjörlega elska Úganda og hef verið heppin að fá að heimsækja landið oftar en einu sinni.“
Hvernig fannst þér að sjá og upplifa lífið í Úganda?
„Þar ríkir mikil stéttaskipting og fyrir mig að sjá börn á mínum aldri búa við þessa miklu fátækt en halda í lífsgleðina og þakklætið breytti lífsviðhorfi mínu. Ég lærði hvað skiptir máli í þessum heimi. Þarna er engin efnishyggja, allt snýst um að vera þakklátur fyrir hvern dag. Allt sem ég sá og upplifði var ólíkt því ég þekkti frá því að alast upp á Íslandi.“
Eins og áður hefur komið fram þá eyddi Þórdís Katla jólunum á eyjunni Srí Lanka.
Hvernig kom það til að þið ákváðuð að ferðast til Srí Lanka?
„Góður vinur fjölskyldunnar, Björn Pálsson, stofnandi Crazy Puffin Adventures, sem pabbi kynntist í ferð til Sýrlands fyrir einhverjum árum síðan, er búsettur á Srí Lanka og skipulagði þessa ævintýraferð fyrir okkur og tvær aðrar íslenskar fjölskyldur. Hann þekkir svæðið eins og handarbakið á sér, hvern einasta krók og kima, og veit því vel hvað ferðalangar þurfa að sjá og upplifa.“
Hvernig er lífið í Srí Lanka?
„Þetta er ótrúlega fallegur staður, landslagið er ólýsanlegt og fólkið mjög vinalegt. Það var alls staðar vel tekið á móti okkur og við upplifðum okkur aldrei óörugg þrátt fyrir að vera á framandi slóðum. Ég mæli hiklaust með því að heimsækja Srí Lanka.“
Hvað gerðuð þið skemmtilegt?
„Það var mikil keyrsla, Björn hafði skipulagt heljarinnar dagskrá fyrir okkur. Fyrsta daginn gengum við upp á fjall, gistum í tjaldi á toppnum og fylgdumst með sólarupprás, það var magnað. Þetta var mikil ævintýraferð, við fórum einnig í flúðasiglingu, heimsóttum te-akra og verksmiðju og lærðum að matreiða ekta indverska rétti.“
Hvernig var að upplifa jólin á Srí Lanka?
„Það var æðislegt, ólíkt öllu öðru. Ég vissi ekki alveg hvort né þá hvernig þau héldu jólin en það var heljarinnar húllumhæ, mikil hátíð, á hótelinu með góðum mat og skemmtiatriðum.“
Þórdís Katla Sverrisdóttir lenti í óhappi á aðfangadagskvöld.
„Já, ég endaði á bráðamóttökunni, ég bjóst sko ekki við því.“
Hvað gerðist eiginlega?
„Sko, þetta er pínu fyndið, svona eftir á. Aðfangadagur hófst á safarí-ferð, sem var ótrúlega skemmtileg, en við fjölskyldan höfðum ákveðið að eyða restinni af deginum á hótelinu í afslöppun við sundlaugarbakkann. Dagurinn leið hratt, ég pældi ekkert í því að drekka og borða, sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera í svona miklum hita, og endaði á að falla í yfirlið á steingólfi hótelsins. Foreldrar mínir ruku með mig beint á bráðamóttökuna, ég hlaut djúpan skurð fyrir ofan aðra augabrúnina sem þurfti að sauma. Ég er með skarð, varanlegan minjagrip úr ferðinni, í andlitinu,“ segir Þórdís Katla og hlær.“
Aðspurð segir Þórdís Katla ferðina á bráðamóttökuna hafa gengið vel.
„Ég var saumuð og send „heim“ en sögunni lýkur ekki þar.
Nokkrum dögum seinna bólgnaði andlitið á mér upp, ég var eins og blaðra, og þá kom í ljós að það var komin sýking í sárið.
Ég hélt því aftur upp á spítala þar sem saumarnir voru teknir og greftinum þrýst úr sárinu. Ég hef aldrei upplifað slíkan sársauka, ég þurfti að fá sýklalyf í æð. Þetta gerðist sama dag og við áttum að leggja af stað heim til Íslands. Við vorum samt heppin og fengum leyfi til að ferðast og flugum í heilar 11 klukkustundir til Parísar og þaðan heim, þó seinna en áætlað var, því fluginu var frestað þar til seinna um kvöldið. En eftir langt ferðalag lentum við á Íslandi og fórum rakleitt upp á Landspítala þar sem ég fékk meiri sýklalyf.“
Hvernig var heilbrigðisþjónustan á Srí Lanka?
„Hún var mjög fín. Heilbrigðisstarfsfólkið vandaði sig og gerði allt rétt. Það sem mér fannst kannski erfiðast var að fáir skildu ensku og voru samskiptin því brösuleg á tímum, ég var auðvitað stressuð þar sem þetta var andlitið á mér, en allt fór vel. Ég get alveg hlegið að þessu núna.“
Eftir þetta heljarinnar ævintýri, ertu með einhver spennandi ferðaplön?
„Já, við erum alltaf með einhver ferðaplön. Okkur fjölskylduna langar mikið til að heimsækja Japan og stefnum þangað á næsta ári. Annars ætla ég til Hollands að hitta vini mína, í útskriftarferð með bekkjarfélögum mínum til Tyrklands og kannski aftur til Úganda í páskafríinu. Ég er ekki með nein formleg plön eftir útskrift, sem er núna í vor, en það er draumur að flytja erlendis, hvort sem það er í nám eða til að vinna.“