„Ertu ennþá með hana á brjósti?!“

Ásta Sóley Gísladóttir er búin að fá nóg af afskiptasemi …
Ásta Sóley Gísladóttir er búin að fá nóg af afskiptasemi annarra en hún ákvað að vera með barnið sitt lengur á brjósti en algengast er.

Sumir geta verið ótrúlega afskiptasamir um það hvernig annað fólk hagar sér. Þetta virðist vera sérstakleg áberandi gagnvart foreldrum og ungum pörum, hvort þau ætli ekki að koma með eitt lítið, hvort þau ætli ekki að koma með annað lítið, hvort móðirin ætli virkilega ekki að hafa barnið á brjósti og svo hvort hún ætli ekki að fara hætta með barnið á brjósti.

Meðfylgjandi er frásögn af lífstílsblogginu Narnia en þar segir Ásta Sóley Gísladóttir frá afskiptasemi annarra af því hún ákvað að vera með barnið sitt lengur á brjósti en algengast er en hún er búin að fá sig fullsadda á afskiptaseminni.

________________________________________

Fer þetta ekki að verða komið gott? Ertu ennþá með hana á brjósti?!

Þetta eru allt spurningar sem ég fæ mjög reglulega þegar fólk kemst að því stelpan mín sem er tæplega 17 mánaða sé ennþá á brjósti. Fólk finnur alltaf þörf á því að blanda sér í okkar mál og ég er komin með leið á því.

Þetta er okkar mál, það er ég sem er að gefa henni brjóst og þetta hreinlega kemur engum öðrum við.

Áður en ég átti þá hélt ég að brjóstagjöf væri bara ekkert mál og því kynnti ég mér hana ekkert. Ég og Björgvin fórum á fæðingarnámskeið en við hugsuðum ekkert út í það að fara á brjóstagjafanámskeið. Ef ég hefði vitað að brjóstagjöf gæti verið svona erfið hefði ég hiklaust farið á námskeið, ég hélt þetta væri bara eins og í bíómyndunum, maður myndi bara skella barninu á brjóstið og að síðan myndi þetta bara ganga af sjálfu sér.

Brjóstagjöfin hjá mér hefur ekki alltaf gengið vel, hún byrjaði mjög illa og ég þurfti mikla hjálp upp á spítala og frá heimaljósmóðurinni. Mér gekk mjög illa að ná að leggja hana á brjóstið og var mjög klaufaleg við þetta allt saman, ég var næstum búin að hætta með hana á brjósti fyrstu vikuna, mér fannst þetta allt hræðilegt og ég var bara ekki að ná þessu! við Viktoría Sól grétum í kór oft á dag fyrstu vikuna, hún svöng og óþolinmóð og ég útaf því ég bara náði ekki tækninni og svo fannst mér ég vera versta móðir í heimi útaf því. Sem betur fer var ég með æðislega heimaljósmóður sem hjálpaði mér mikið í þessu og svo hjálpuðu mamma, tengdamamma og Björgvin mér líka mikið. Þar sem ég er þrjóskari en allt þá byrjaði brjóstagjöfin loksins að ganga upp þegar hún var tveggja vikna og þegar þetta byrjaði allt að ganga vel var ég svo ánægð með mig að hafa ekki gefist upp vegna þess að þetta er æðisleg stund.

Viktoría fékk RS vírusinn þegar hún var tveggja mánaða og var því frekar veik, síðan þá hefur hún gripið allar pestir. Eftir að hún byrjaði að borða þá reyndi ég að minnka brjóstið en svo varð hún alltaf veik og vildi ekkert borða þannig hún fékk bara brjóst. Í dag er hún tæplega 17 mánaða grallari og er sem betur fer farin að borða ágætlega vel. Ég ætlaði alltaf að hætta með hana á brjósti um 1 árs en svo finnst okkur báðum þetta bara svo æðisleg stund. Ég ákvað því að leyfa henni bara að halda áfram að fá kvöldsopann sinn. Ég mun hætta með hana á brjósti þegar við erum báðar tilbúnar til þess og ekki fyrr, alveg sama þótt fólk ætli endalaust að skipta sér af þessu. Sem ég vona samt að það hætti.

Brjóstagjöf er ekki sjálfsagt mál, það eru margar konur sem langar að hafa börnin sín á brjósti en geta það ekki. Það er svo leiðinlegt fyrir þær konur að fá komment eins og „af hverju ertu að gefa barninu þínu pela?“ eða „veistu ekki að það er langbest að gefa barninu brjóst? “ svo fá konur sem geta haft börnin sín á brjósti og vilja hafa þau lengur en 1 árs komment eins og „fer þetta ekki að verða komið gott? Ertu ennþá með barnið á brjósti? “ Fólk virðist alltaf þurfa að skipta sér af þessu sama hvort barnið sé ekki á brjósti eða of „lengi“ á brjósti, ég skil ekki af hverju fólk má ekki bara gera það sem það vill í friði. Ég ætla að hafa Viktoríu á brjósti aðeins lengur, ekki vegna þess að hún þarf þess heldur einfaldlega bara vegna þess að við elskum þetta báðar.

Blogg Ástu Sóleyjar á Narníu vefnum.

Snap chat aðgangur Narniu

mbl.is