HOLLÍ HÚ - líka í sófanum heima

Þegar einhver giskar á rétta nafnið eða orðið þá kastar …
Þegar einhver giskar á rétta nafnið eða orðið þá kastar sá sem er er hann boltanum í jörðina, gólfið eða húsvegg og kallar „hollí!“ og hleypur í burtu þar til sá sem giskaði á orðið nær boltanum og kallar „hú!“ mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Á gervihnattaöld er gaman að rifja upp einfalda leiki sem fjölskyldan getur farið í saman og kalla ekki á tækni af neinu tagi. Hollí-hú er einn af þessum leikjum sem auðvelt er að leika hvar sem er, inni eða úti. Eina sem þarf er bolti .. eða bara púði.

Þátttakendur raða sér hlið við hlið, til dæmis upp við vegg úti eða bara heima í sófanum. Einn úr hópnum „er hann“ og tekur sér stöðu fyrir framan hina og heldur á boltanum. Hópurinn er búinn að velja hvort valinn séu mannanöfn, heiti dýra, lönd eða annað fyrir leikinn en mannanöfn er algengast. Sá sem er hann velur nafn á konu eða karli, dýraheiti eða bara hvað sem er,  gefur upp fyrsta stafinn í orðinu og kastar boltanum til þess sem fyrstur er í röðinni. Sá giskar á nafnið eða orðið og kastar boltanum aftur til baka, ef orðið er ekki rétt þá fær næsti tækifæri og heldur leikurinn þannig áfram ef enginn getur rétt þá er gefinn upp næsti stafur í orðinu. Þegar einhver giskar á rétta nafnið eða orðið þá kastar sá sem er er hann boltanum í jörðina, gólfið eða húsvegg og kallar „hollí!“ og hleypur í burtu þar til sá sem giskaði á orðið nær boltanum og kallar „hú!“ Þá stoppar sá sem hleypur í burtu og myndar körfu með handleggjunum. Sá sem giskaði rétt má nú taka þrjú risa skref, þrjú venjuleg skref og þrjú hænuskref í átt að þeim sem er hann og reynir síðan að kasta boltanum í körfuna. Ef hann hittir fær hann að vera hann næst, hitti hann ekki þá fer hann bara aftur í röðina.

Það er hægt að gera eitt og annað í sófanum …
Það er hægt að gera eitt og annað í sófanum þó tækjunum sé sleppt.

Sófaútgáfan kallar á minni hlaup nema þess sem „er hann“ og kallar „hollí“. Sá/sú hleypur um rýmið inni þar til sá sem gat upp á réttu nafni eða orði segir „hú“ og reynir að hitta í körfuna. Ef þið eruð algerar sófakartöflur má sleppa hlaupunum og bara leika leikinn þannig að sá/sú sem gat rétt verður „hann“ í næstu umferð.

mbl.is