Mikill missir framundan

Sorgarferlið er öllum aðstandendum erfitt en þó sýnu erfiðast fyrir …
Sorgarferlið er öllum aðstandendum erfitt en þó sýnu erfiðast fyrir yngstu dóttur konunnar sem er níu ára gömul og ömmu sinni mjög náin. mbl.is/Thinkstockphotos

Rúmlega fertug kona, þriggja barna móðir í Reykjavík, á móður sem liggur á líknardeild Landspítalans með krabbamein á lokastigi og ljóst að hún á ekki langt eftir. Fjölskyldan er búin að taka út mikla sorg og reynir að undirbúa sig eftir bestu getu undir komandi missi. Þetta ferli er öllum aðstandendum erfitt en þó sýnu erfiðast fyrir yngstu dóttur konunnar sem er níu ára gömul og ömmu sinni mjög náin. Eldri börnin eru komin á unglingsaldur, þau eru döpur en takast á við sorgina og erfiðleikana af skynsemi og halda áfram í sínu en yngsta dóttirin sýnir merki um mikinn kvíða og andlega vanlíðan.
_______________________________________________________________________

Ó, hvað ég skil ykkur vel, það er eitt af því erfiðasta sem foreldrar lenda í að horfa á barnið sitt upplifa sorg og erfiðleika. Stundum vildi ég að það væri til lítil „vanlíðunar-ryksuga“ sem ég gæti rennt yfir kollinn á börnum og svo djús til að gefa þeim, sem væri búinn til úr seiglu og hamingju, sykurlaus auðvitað og lífrænn.

Þegar börnin okkar eru að takast á við eitthvað nýtt, hvort sem það er sorglegt eða dásamlega yndislegt, ráðlegg ég foreldrum að finna sér rólega stund til þess að ígrunda hvað líklega hentaði þeim og þeirra börnum best að gera.

Í dag er svo auðvelt að finna fullt af ráðum á netinu um hvað sé rétt og nauðsynlegt í öllu uppeldi. Ef þið náið að setjast niður saman og bara anda og hlusta á eigin tilfinningar, eruð þið strax á réttri leið. Allar þessar upplýsingar sem er svo auðvelt að sækja draga stundum úr öryggi okkar sem foreldra og þagga niður í þessari mikilvægu eðlishvöt sem við fæðumst með. Hlustið á eigin sannfæringu, þið þekkið börnin ykkar best.

Segjum börnunum satt

Að því sögðu, vil ég samt segja að það er auðvitað hægt að gera mistök í þessum aðstæðum. En það er yfirleitt þegar við segjum þeim ekki satt og reiknum ekki með skynsemi og visku barnanna okkar. Erfiðasta málið mitt sem tengist dauðsfalli ættingja var þegar foreldrar voru búnir að fela veikindi elskaða afans, hlífa börnunum við þeim athöfnum sem fylgdu dauða hans og svo loks þegar þau treystu sér til þess að segja hvað hefði gerst, gátu þau ekki notað þessi þungu erfiðu orð eins og „dáinn“, sögðu að afi hefði sofnað og ekki vaknað aftur. Væri bara sofandi.

Jú, einmitt! Þau komu vegna svefnvanda barnanna.

Ég þarf ekkert að segja ykkur að dauðinn sé hluti af lífinu, þið vitið það allt saman. Verkefnið ykkar núna er að kenna stúlkunni ykkar að takast á við sorgina og missinn. Eins mikið og við elskum fólkið okkar er brýnt að kenna börnum að lífið heldur áfram. Haldið rútínu eins og unnt er með áherslur á grunnþarfir eins og að borða, sofa, mæta í tómstundir og skóla. Á þessum tímum er skólinn oft besti griðastaður barnsins, þar breytist lítið og allir fylgja sömu rútínu. Auðvitað má upplýsa kennarana svo þeir geti veitt henni hlýju og stuðning ef á þarf að halda. En annars finna börn mest öryggi í daglegu rútínunni sinni.

Amma lifir áfram

Erfiða atburði er oft auðveldara að ráða við þegar við getum gefið þeim tilgang. Amma lifir áfram í hjartanu okkar, hvað er það sem við viljum muna og hvað myndum við vilja segja næstu kynslóð um ömmu? Að þekkja fólkið sitt og geta tengt við styrkleikana í ættinni er bæði nærandi og heilandi fyrir okkur öll. Leyfið henni að eiga hlutverk í þessu ferli, það er gott ef hún nær að kveðja ömmu sína og líka gott ef hún fær aðstoð við að skrifa ömmu bréf og/eða teikna mynd sem svo má fara með í kistuna.

Sorgin og þær sterku tilfinningar sem henni fylgja geta komið í bylgjum, hún þarf að vita að hún má leita til ykkar og þið getið grátið saman og svo er líka allt í lagi að fara út að leika og hlæja með vinum.

Það er oft hjálplegt að geta í rólegheitum sett sig í spor allra við svona erfiðar og krefjandi aðstæður. Auðvitað vill amma ekkert annað en að yndislega fólkið hennar minnist þess góða og þótt hún skilji tárin þá vill amma að við gerum það sem hún kenndi okkur. Kláraðu skólann, vertu góður vinur, fylgdu hjartanu þínu, burstaðu skóna, ferðastu um heiminn og góða litaðu hárið á þér bleikt ef þig langar til. Gangi ykkur vel, kæru foreldrar.
___________________________________________________________________

Spurningum sem berast Fjölskyldunni á mbl.is svarar SÓL sálfræði- og læknisþjónusta en þar starfar hópur fagfólks sem leggur metnað sinn í að veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra góða þjónustu. Nánari upplýsingar á www.sol.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: