Ketogenískt mataræði, þar sem kolvetnum í mat er haldið í miklu lágmarki, nýtur mikilla vinsælda nú um stundir meðal fólks sem vill léttast, ná niður blóðsykri og blóðþrýstingi. Það er ef til vill ekki skrýtið að konur sem bætt hafa á sig aukakílóum eftir meðgöngu velti þessu mataræði fyrir sér enda hefur fólk oft náð miklum árangri í baráttunni við aukakílóin á ketogenísku fæði.
En skyldi vera óhætt að gefa brjóst og vera á keto mataræðinu eða öðrum lágkolvetnakúr?
Mælt hefur verið með keto mataræði um árabil fyrir ýmiskonar krankleika en vinsældir þess til að léttast eru nýrri af nálinni. Að staðaldri notar líkaminn kolvetni sem orkugjafa. Keto mataræðið neitar líkamanum um það „eldsneyti“ sem nútímafólki er tamast, þ.e. kolvetnin og þvingar hann til að nýta eigin fitu í meira mæli. Þegar kolvetnin eru skorin niður fer líkaminn í ketósa ástand og sækir sér orku með því að breyta fituforða í lifrinni í svokallaða ketóna. Prótein og fituríkt mataræði er lykillinn að ketógenísku mataræði, svo sem kjöt, fiskur, egg, feitar mjólkurvörur eins rjómi og smjör, hnetur, olíur en fólk heldur sér frá öllum kornvörum, áxöxtum, baunum, kartöflum og öllum sykruðum vörum. Fólk á lágkolvetnafæði borðar mismikið grænmeti, þeir sem fara alla leið og eru á ströngu ketogenísku fæði sleppa grænmeti að mestu þar sem það samanstendur af kolvetnum.
Mataræði þetta hefur bæði kosti og galla. Matar sem má neyta innan ramma hins ketógeníska mataræðis er mettandi og því þarf ekki að borða mikið til að verða södd/saddur. Fólk sleppir að mestu leyti unnum mat og framleiddum úr fæðinu sem fæðinu sem þýðir að fólk gleypir ekki í sig alls kyns sykur sem oft er falinn í framleiddum mat.
Sem stendur eru ekki til neinar rannsóknir sem benda til þess að lágkolvetnafæði minnki mjólkurframleiðslu kvenna með barn á brjósti eða skaði gæði mjólkurinnar.
Næringarfræðingurinn Elizabeth Ward sem einnig er þriggja barna móðir og höfundur bókarinnar Gerðu ráð fyrir því besta, handbók um hollt mataræð fyrir, á meðan og eftir meðgöngu (Expect The Best: Your Guide to Healthy Eating Before, During, and After Pregnancy) segir þó að hún geti ekki mælt með svo „ýktu“ mataræði fyrir konur með börn á brjósti.
Fyrir það fyrsta að þá útilokar ketógenískt fæðið ofur hollan mat eins og ávexti og gróft korn. „Of lítið magn af kolvetnafæði eins og grófu korni, kartöflum og baunum er ekki heppilegt fyrir mæður með börn á brjósti vegna þess að þarmarnir fara á mis við mikilvægar bakteríur og trefjar í þessum fæðutegundum auk þess sem þetta mikil mettuð fita er ekki heppileg fyrir hjartað, alla vega ekki til lengri tíma“ segir Ward.
Hún bætir við að mætaræðið dragi úr matarlyst og auknar líkur séu á því að mæður með börn á brjósti neyti of fárra hitaeininga en það getur dregið úr mjólkurframleiðslu, þó það valdi vissulega þyngdartapi.
Önnur ástæða þess að gjalda ætti varhug við ketógenísku mataræði þegar barn ef haft á brjósti er ofþornun. Mjólkandi konur þurfa að drekka mikinn vökvað til að halda framleiðslunni gangandi. Á ketógenísku fæði sækir líkaminn orku með því að breyta fituforða í lifrinni í ketóna og þetta ferli getur valdið ofþornun. „Alla vega þyrftu konur að leggja sig enn betur fram við að drekka nægan vökva á þessu fæði, sérstaklega þar sem það má ekki einu sinni borða ávexti sem eru náttúrulega vökvaríkir eins og til dæmis appelsínur og vatnsmelónur,“ segir Ward.
Þriðja ástæða þess að ketogenískt mataræði hentar ekki fyrir konur með barn á brjósti að mati Ward er sú að fólk sem er á þessu fæði upplifir stundum mikla þreytu vegna skorts á kolvetnum, þó svo gagnstæða tilfinningin þekkist líka. Þannig getur hin vel þekkta mjólkurþoka orðið enn ýktari ef konur upplifa óskýra þokukennda hugsun sem vandamál á fyrstu vikunum eftir fæðingu, sem þó er engan veginn algilt. Heilinn notar glúkósa til að starfa eðlilega og venjulega kemur hann frá kolvetnum. Þegar líkaminn er að stilla sig inn á aðra orkugjafa getur fólk upplifað óskýra hugsun sem er getur auðveldlega verið auka álag þegar huga þarf að nýfæddu barni.
Ward segir að það sé engin vísindaleg sönnun fyrir því að ketónar úr blóði skili sér í brjóstamjólk og valdi skaða. Hugsanleg ofþyngd móðurinnar eftir fæðingu skiptir máli ef það truflar hana en Ward telur að hag barnsins skyldi setja í fyrsta sæti og það sé ekki hagur þess að móðirin skeri niður alla kolvetnisneyslu á þessum mánuðum meðan á brjóstagjöf stendur.