Móðir á fimmtugsaldri á höfuðborgarsvæðinu er að bugast á daglegum samskiptum við son sinn á unglingsaldri: „Er ég ógeðslega klikkuð að vera reið og sár af því að sonur minn á unglingsaldri er með svo mikla vanvirðingu í minn garð? Hann er að senda mér svipi, segja hvað ég sé glötuð, með glataðan húmor, sé of gömul og alls konar þannig, ég sé ekki fyndin eða sé bara að skoða einhver mömmu „meme's“ og horfir á mig með fyrirlitningu ef ég hlæ að einhverju. Ég er ekki að tala um að við séum að rífast heldur bara eiga dagleg samskipti og ég að hlæja að einhverju sem mér finnst fyndið. Er þetta bara dramatík í mér eða á ég að refsa fyrir svona hegðun? Kannski er ég bara mjög viðkvæm og þá má alveg segja mér það.“
Viðkvæm? NEI mín kæra, það ertu ekki!
Bara að þú sért að velta þessu fyrir þér segir mér að þú sért meðvituð um líðan drengsins og viljir bera virðingu fyrir skoðunum hans og tilfinningum. Þú vilt gera rétt, ekki satt?
Ég veit að þú veist að unglingsárin geta verið flókin tímabil þar sem við vegum salt á milli þess að vera barn og fullorðin. Við munum sjálf vel eftir þessum tíma og hvernig tilfinningarnar voru stilltar í botn en samt ekki. Skoðanir félaganna skiptu mestu máli á þessu tímabili. Við vildum vera einstök en samt eins og allir hinir.
Hluti af þroskaferlinu er einnig að sjá foreldra sína í öðru ljósi. Sem foreldri er aftur á móti frekar undarlegt að breytast nánast á núll einni úr mikilvægustu manneskjunni í öllum heimi í frekar óáhugaverðan einstakling. En við skiljum þessar elskur, vitum að þetta er tímabil sem gengur yfir.
En .. samt .. Halló systir!! Svona kemur enginn fram við þig! ENGINN, ekki einn einasti einstaklingur, hvað þá sonur þinn! Hvað heldur þú að Freyr Alexandersson myndi segja við Glódísi Perlu Viggósdóttur nú eða Heimir Hallgrímsson við Gylfa Þór Sigurðsson ef þessir leikmenn kæmu fram við þá eins og drengur kemur fram við þig? Fjölskyldan er eins og hvert annað „lið“ og þessi hegðun væri hvergi talin vís til árangurs.
Svo þarftu að muna að ef hann kemur svona fram við þig eru auknar líkur á að hann leyfi sér þessa hegðun við aðrar konur. Og það er ekki í boði ungi herra augnrúllari. Uppeldi snýst um að kenna góða, holla og hjálplega hegðun. Hegðun sem gagnast barninu þínu til lengri tíma. Refsingar geta verið hjálplegar, bara svona eins og í umferðinni. En það er samt ekki eina kennsluaðferðin.
Hvar er pabbinn? Er hann sáttur við þessa hegðun? Ég hvet þig og ykkur til þess að setjast niður með strák og útskýra hvers vegna þessi hegðun mun ekki líðast lengur. Leggðu línur um hegðun, hvernig villtu að hann komi fram við þig og aðra í umhverfinu? Ræddu við hann um það, skýrðu út hvers vegna og vertu óhrædd við að mæta honum. Þú þarft ekki að verða reið eða hækka róminn, en mátt það ef þú vilt.
Það er árangursríkara að leggja áherslu á hvaða hegðun þú villt sjá, frekar en að segja bara hvað má ekki gera. Það er eins og ég gæfi þér uppskrift af dásamlegri tertu og uppskriftin hljómaði svona: „Þú skalt ekki nota edik og alls ekki agúrku.“ Gengi þér vel að baka þá tertu!
Skilgreindu hegðunina sem þú vilt sjá og hlúðu að þeirri hegðun, það er mikilvægt. Ef hann kveikir ekki á perunni má auðvitað nota refsingar (bæ bæ sími). Það skaðar piltinn ekkert, hins vegar gæti það haft neikvæð áhrif að bregðast ekki við.
Þú ert ekki ein í þessari baráttu, aðrir foreldrar eru að kljást við sama vanda og gott hjá þér að opna á þessa umræðu. Vertu dugleg að sækja stuðning til vina og fjölskyldu, það væri líka gaman að leyfa okkur að fylgjast með hvað þú ákveður að gera og hvernig gengur. Svo ef ykkur vantar frekari aðstoð þá eruð þið ávallt velkomin til okkar á SÓL.
Spurningum sem berast Fjölskyldunni á mbl.is svarar SÓL sálfræði- og læknisþjónusta en þar starfar hópur fagfólks sem leggur metnað sinn í að veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra góða þjónustu. Nánari upplýsingar á www.sol.is