Í tilefni sumarfría fjölskyldna birtum við hér á næstu dögum nýjan greinaflokk: „Fjölskyldubíltúrinn" í samstarfi við Markaðsstofur landshlutanna. Hér birtist tillaga að bíltúr frá Borgarnesi til Stykkishólms.
Það er kjörinn dagur fyrir útivist, sólin skín (stundum!) og hlýtt er í veðri, tilvalið að skella sér í bíltúr með fjölskylduna. Allra fyrst er gott að koma við í Geirabakarí í Borgarnesi og fá sér morgunhressingu áður en lagt er í hann og jafnvel nesta sig upp. Þegar farið er út á Snæfellsnes er best að keyra hringinn í kringum nesið, í gegnum þjóðgarðinn og Vatnaleiðina til baka - Leggjum í hann!
Fyrsta stopp er á Ytri Tungu þar sem vinalegir og forvitnir selir halda gjarnan til. Þar er tilvalið að fara í stuttan göngutúr, fræðast um selina og sjá þá flatmaga letilega í fjörunni eða leika sér í sjónum. Í júní, júlí og ágúst er mesta selaumferðin við Ytri Tungu þannig að það er einkar ákjósanlegur áfangastaður á sumrin.
Snæfellsnes er þekkt fyrir stórbrotna náttúrufegurð og Arnarstapi er góður staður til að fara í göngutúr og njóta náttúrunnar en þar má finna marga fallega staði og eins er þar mjög mikið fuglalíf. Eftir góða göngu á Arnarstapa er tilvalið að halda leiðinni áfram og kíkja í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, koma við á svörtu ströndinni, Djúpalónssandi og skella sér í hellaferð í Vatnshelli sem tekur einungis 45 mínútur í skipulagðri ferð með leiðsögumanni. Það eru margir fallegir staðir í þjóðgarðinum og getur verið erfitt að velja úr þegar dagurinn þarf að duga en það er alltaf hægt að fara aftur síðar og heimsækja nýja staði og njóta útiveru í góðum félagsskap.
Eftir allt náttúrubröltið í þjóðgarðinum er gott að hægja aðeins á og heimsækja Hellissand. Þar er Sjóminjagarðurinn staðsettur og mjög gaman er að kíkja í Sjómannasafnið og fræðast aðeins um lífshætti sjómanna, lífsviðurværi þeirra og lífið eins það var hér áður fyrr. Þar má einnig sjá uppstoppaða fugla og fiskategundirnar sem hafa verið veiddar í gegnum tíðina. Því næst er tilvalið að slaka aðeins á og kíkja á Gilbakka kaffihús og fá sér kaffi og eitthvað gott með því áður en Hellissandur er kvaddur og hringferðinni um Snæfellsnesið haldið áfram.
Grundarfjörður er huggulegt lítið sjávarþorp eins og hin þorpin á nesinu og það er einnig heimili eins frægasta fjalls okkar Íslendinga. Kirkjufell er stórfenglegt og sérkennilegt og segja sumir að það sé eins og kirkja í laginu. Það er að sjálfsögðu skyldustopp þar á ferð sinni um Snæfellsnes. Það má rölta upp að Kirkjufellsfossinum sem tekur aðeins örfáar mínútur og taka eigin myndir af einu mest myndaðasta fjalli heims og setja í minningabankann.
Næsta stopp er Stykkishólmur og svokölluð Viking Sushi ferð með Sæferðum um Breiðafjörðinn. Þar er siglt í kringum óteljandi stuðlabergseyjurnar, bragðað á fersku Sushi beint úr sjónum og fuglalífið skoðað. Þar eru heimkynni margra sjófugla á sumrin og má þar meðal annars sjá lundann en hann verpir í eyjunum á sumrin og elur ungana upp áður en hann heldur til hafsins á ný á haustin.
Eftir sjóferðina er farið að kvölda og kominn tími til að huga að heimferð. Áður en haldið er af stað yfir Vatnaleiðina er góð hugmynd að fá sér aðeins í svanginn fyrir brottför. Narfeyrarstofa er tilvalinn staður fyrir fjölskylduna og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi svo enginn fari svangur heim eftir langan og viðburðarríkan dag.