Á höfuðborgarsvæðinu er margt skemmtilegt og áhugavert að skoða fyrir fjölskyldur á flandri. Hér er ein hugmynd að góðum degi í Reykjavík og nágrenni.
Hefjið rúntinn úti á Granda þar sem mikil uppbygging er búin að eiga sér stað. Hægt er að grípa sér bita á elsta veitingastað borgarinnar, Kaffivagninum, eða kíkja á nýopnaða mathöll. Ef fólk er fróðleiksfúst þá er tilvalið að skella sér inn á eitt af söfnunum á svæðinu en þar má finna Sjóminjasafnið, þar sem þú getur verið skipstjóri varðskipsins Óðins, Hvalasafnið með öllum hvölum Íslandsmiða í raunverulegri stærð, Sögusafnið þar sem hægt er að klæða sig upp eins og víkingur, eða Auróra Reykjavík þar sem krakkarnir geta skoðað norðurljósin með sýndarveruleikagleraugum.
Næst skal halda út á Gróttu á Seltjarnarnesi en það er algjörlega ómissandi fyrir alla almennilega rúnta um borgina. Ströndin þar er falleg og fuglalífið fjölbreytt sem hægt er að skoða í fuglahúsi hjá Bakkatjörn, mörgum börnum til mikillar gleði.
Gaman væri svo að keyra Ægisíðuna og aka í átt að Hringbraut, upp Bústaðaveginn og taka beygjuna að Perlunni. Þar er hægt að upplifa íslenska náttúru á einstakan hátt með íshelli, krafti eldgosa, eðli jökla, og stórkostlegu útsýni yfir Reykjavík og nærsveitir. Ef veðrið er gott er einnig tilvalið að rölta niður í Nauthólsvíkina og svamla í upphituðum sjónum!
Upplagt er að halda svo niður Kringlumýrarbraut og stoppa í Hamraborg, en þar er að finna stórskemmtilegt svæði fyrir fjölskyldur, þar sem Gerðarsafnið er með fönduraðstöðu fyrir börn, og Náttúrufræðisafn Kópavogs sem býður gestum upp á ókeypis aðgangseyri. Þaðan heldur rúnturinn áfram inn í Garðabæinn og Álftanesið því það er ávallt dálítið einstakt að virða fyrir sér bústað forsetans okkar og kyrrðina sem ríkir í kring.
Eftir að keyra niður Álftanesveginn liggur leiðin í átt að Hafnarfirði. Þar er yndislegt að labba um bæinn á góðum degi með fjölskyldunni. Hægt er að kíkja inn á Byggðasafnið, sem er með gamla leikfangabúð til sýnis, og efla listhugann með því að kíkja inn í Hafnarborgina, að kostnaðarlausu.
Nú er hægt að halda aftur inn í Reykjavík með því að fara út á Reykjanesbraut, ef einhverjir kaupglaðir eru með í för er hægt að skreppa inn í IKEA, Costco eða Smáralindina en það er allt í leiðinni. Næsti áfangastaður er hins vegar Árbæjarsafnið og Elliðaárdalurinn. Árbæjarsafnið er eitt skemmtilegasta safn landsins og er það tilvalinn staður fyrir fólk á öllum aldri. Börn hafa sérstaklega gaman af því að fá að leika sér og skoða gömlu leikföngin sem eru þar til sýnis. Ef það er einhver vilji fyrir að skella sér í sund er Árbæjarlaugin ein af betri laugum borgarinnar og mjög skammt frá.
Dásamlegt væri svo að ljúka þessum rúnti með því að halda út á Vesturlandsveg og í átt að Mosfellsbæ, en þar hefur Úlfarsfellið lengi verið í uppáhaldi hjá gönguglöðum fjölskyldum sem vilja njóta undurfagurs útsýnis yfir höfuðborgarsvæðið.