Fjöl­skyldu­bíltúr­inn á Suðurlandi

Húsið á Eyrarbakka.
Húsið á Eyrarbakka. Ljósmynd/Aðsend

Í til­efni sum­ar­fría fjöl­skyldna birt­ast hér á næstu dög­um grein­ar í nýj­um greina­flokki:  „Fjöl­skyldu­bíltúr­inn í sam­starfi við Markaðsstof­ur lands­hlut­anna. Hér er til­laga að bíltúr um Suðurland frá Markaðsstofu Suðurlands.

Fjölmargir dvelja í lengri eða skemmri tíma á hinum fjölmörgu sumarhúsasvæðum og tjaldsvæðum í nágrenni við Selfoss. Til að brjóta upp daginn getur verið gaman að skreppa í bíltúr um nágrennið enda nóg um að vera á þessum slóðum. Ef fjölskyldan hefur gaman af útivist og smá leik er tilvalið að byrja í frisbígolfi á Selfossi. Völlurinn er staðsettur á Gesthúsa- og Selfossvallarsvæðinu, miðsvæðis í bænum. Leikurinn byggir á sömu hugmyndafræði og golf nema svifdiskur er notaður í stað golfkúlu og kylfu.

Áður en haldið er lengra væri ráð að fá sér eitthvað gott að borða á Selfossi á hinum fjölmörgu veitingastöðum eða kaupa gott nesti.

Því næst er gaman að halda í fjöruferð, annaðhvort í nágrenni við Stokkseyri eða Eyrarbakka en þar eru frekar grófar fjörur þar sem mögulega er hægt að finna ýmiss konar smádýr. Á Eyrarbakka er einnig að finna söfn sem vert er að heimsækja í leiðinni, en það eru Byggðasafn Árnesinga í Húsinu sem og Sjóminjasafnið. Þá er um að gera að líta líka við í Konubókastofu sem hefur að geyma ritverk eftir íslenska kvenhöfunda og kemur skemmtilega á óvart.

Hinn möguleikinn er að fara í sandfjöru og byggja kastala eða bara njóta þess að ganga í sandinum. Gott aðgengi er að slíkri fjöru við veitingastaðinn Hafið bláa við Óseyrarbrú og rétt austan við Þorlákshöfn á svæði sem heitir Skötubót. Skötubót er skemmtilegt útivistarsvæði en þar njóta knapar þess að ríða í flæðarmálinu en einnig má stundum sjá brimbrettakappa spreyta sig á öldunum.

Það eru frábærar sandfjörur á Suðurlandi.
Það eru frábærar sandfjörur á Suðurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Eftir góðan tíma í fjörunni er tilvalið er að ylja sér í sundlauginni í Þorlákshöfn þar sem er frábær barnalaug innanhúss ásamt góðu útisvæði með rennibrautum. Í lok dags er svo hægt að koma við á kaffihúsinu Hendur í Höfn þar sem finna má eitthvað við allra hæfi. Staðurinn flutti í vor í glæsilegt húsnæði en vinalega andrúmsloftið og góði maturinn eru enn þá til staðar. 

Sundlaugin á Þorlákshöfn.
Sundlaugin á Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is