Tinna Guðmundsdóttir skrifað bloggfærslu um fæðingu sonar hennar, hans Frosta litla, á lífstílsblogginu Glam.is. Fæðingin tók 34 tíma í allt og óhætt að segja að Tinnu hafi verið mjög létt þegar hún fékk litla krúttið í fangið eftir öll átökin. Hún gaf Fjölskyldunni leyfi til að birta frásögn sína af Glam-vefnum.
________________________________________________
Þessi meðganga var örlítið öðruvísi en sú fyrsta þegar ég gekk með stelpuna mína. Ég fékk mikla ógleði og var almennt mun þreyttari í þetta sinn, þá sérstaklega síðustu vikurnar. Ég var meira og minna hlaupandi á eftir einni eins og hálfs árs allan daginn áður en hún byrjaði á leikskóla um haustið.
Ég missi vatnið kl. 08:00 um morguninn 30. nóvember, komin 40 vikur og 3 daga á leið. Vek Bjarka sem hoppar upp úr rúminu með látum og hann hringir í mömmu mína sem var akkúrat á leiðinni í vinnuna og keyrir beint til okkar til að fara með Írenu Ósk á leikskólann og planið var að hún yrði síðan hjá henni allan tímann þangað til við kæmum aftur heim af fæðingardeildinni. Okkur var sagt að koma strax upp á fæðingardeild því ég fór í keisara síðast og þá er engin áhætta tekin og ég átti ekkert að bíða neitt heima eftir einhverjum verkjum eins og flestar eru látnar gera. Þegar við komum á fæðingardeildina er ég skoðuð og komin með 3 í útvíkkun og með væga verki. Við röltum aðeins um á meðan það var verið að gera herbergið okkar klárt. Síðan fáum við herbergið okkar og þetta var ekkert smá flott aðstaða með risa baðkari og hengirólu!
Þetta var má segja löng fæðing í orðsins fyllstu merkingu þar sem allt ferlið tók heillangan tíma. Útvíkkunin gekk löturhægt, en þar sem okkur miðaði alltaf áfram voru ljósmæðurnar ekkert á þeim buxunum að fara að gefa mér dripp eins og mörgum konum er gefið til að flýta fyrir ferlinu. Ég var komin með miklar hríðar og ákvað því að fara í baðið. Ljósmóðirin rétti Bjarka glaðloftið og sagði honum að vera duglegur við að rétta mér það við hvert tækifæri á meðan á hríðum stóð. Ég var sennilega í 90 mínútur í baðinu, vá hvað mér leið vel þar, og glaðloftið var himnasending!
Því næst var útvíkkun mæld og ég var komin með 5 cm eftir allan þennan tíma. Á u.þ.b. 6 klukkustundum bættust við alveg heilir tveir sentimetrar í útvíkkun. Verkirnir fóru bara versnandi þannig að mér var ráðlagt að fara í hengiróluna því hún leyfir mér að halla mér með allan þungann á róluna og hanga þar í dágóða stund sem lét mér líða betur. Á meðan ég hékk í rólunni nuddaði elsku Bjarki minn á mér mjóbakið og ég enn þá með glaðloftið alltaf í hendinni.
Síðan versna verkirnir töluvert og ég gat ekki höndlað meir eftir allan þennan tíma af hríðum sem voru búnar að vera í gangi í rúma 16 klukkutíma og fóru bara versnandi þannig að ég bað um mænudeyfingu á miðnætti. Það gekk rosalega illa að koma henni fyrir og þurfti að ná í sérfræðing til þess að ljúka við verkið. Bjarki hélt við mig allan tímann og ég var með glaðloftið upp við munninn á mér og tók enga pásu með það (sem á ekki að gera) og það endaði með því að það leið yfir mig og ég man að lagið "Ya Mama" með Fatboy Slim hljómaði í höfðinu á mér þegar ég var að detta út (mjög skrítið). Mænudeyfingin tókst á endanum og ég gat loksins sofnað í nokkra stund, þvílíkur léttir! Yfir nóttina þurfti að bæta á deyfinguna á fjögurra klukkutíma fresti og svo um morguninn fékk ég loksins dripp til þess að flýta fyrir ferlinu þar sem það var ekkert að gerast, útvíkkunin gekk allt of hægt að mati sérfræðinga og því átti bara loksins að keyra þetta í gang.
Ég þurfti alltaf að fá áminninguna varðandi það að fara að pissa á þriggja tíma fresti þar sem ég fann voða litla tilfinningu sjálf út af mænudeyfingunni en ég gat ekki pissað og þá þurfti að tappa af þvagblöðrunni. Þarna var klukkan að nálgast hádegi og útvíkkun orðin 8, loksins eitthvað að gerast! Hríðirnar voru orðnar óbærilegar og ég farin að öskra af sársauka og orðin svo úrvinda því þetta gerðist allt svo hægt. Þarna er liðinn sólarhringur og ég ekki enn þá komin með fulla útvíkkun, en það gerðist svo loksins klukkan hálftvö! 10 cm í útvíkkun og allir héldu að nú myndi barnið loksins komast í heiminn.
Eftir smá tíma var ég skoðuð og þá kom í ljós að Frosti var enn of ofarlega í grindinni, ég enn þá í bullandi hríðum og komin með smá rembingsþörf. Ekkert var að gerast og voru liðnir 3 tímar frá fullri útvíkkun og var ég þá aftur skoðuð. Læknarnir sáu að Frosti var fastur með höfuðið í grindinni, gat þar af leiðandi ekki skrúfað sig út og var því tekin ákvörðun um að fara í bráðakeisara. Mér var rúllað inn á skurðstofu og Frosti kom öskrandi í heiminn hálftíma seinna eða klukkan 17:20 þann 1. desember. Guði sé lof. Ég hef aldrei verið jafnfegin og hamingjusöm að þetta ferli væri loksins á enda og ég komin með litla strákinn minn í hendurnar.
Ferlið tók samtals 34 klukkutíma. Frosti var 4.132 grömm (16 og hálf mörk) og 54 cm.
Ég verð að hrósa elsku Bjarka mínum fyrir að standa svo þétt við bakið á mér allan tímann og gera gjörsamlega allt rétt. Einnig vorum við með yndislegar ljósmæður sem hjálpuðu okkur allan tímann!