Skemmtileg fæðing sem gekk yndislega vel

Ljósmynd/einkasafn

Þegar kona verður ólétt heyrir hún gjarna ýmsar fæðingarsögur og einhvern veginn er það svo að erfiðustu fæðingasögurnar ná mestu flugi. Kannski ekki skrýtið því dramatík og erfiðleikar með góðum endi eru mest í frásögur færandi. Hún Eva Rós Gunnarsdóttir, sem bloggar reglulega á lífstílsblogginu Narnia.is, eignaðist stúlku 14. júní og gekk fæðingin ljómandi vel þó að hún hafi svo sem ekki verið verkja- og vandræðalaus með öllu. Fjölskyldan á mbl.is fékk leyfi til að birta frásögn Evu Rósar af fæðingunni:

______________________________________________________________

Þann 14. júní 2018 eignaðist ég mína aðra dóttur.

Settur dagur var 13. júní og aðfaranótt 13. byrja ég að fá „fyrirvaraverki“ sem komu svo óreglulega yfir allan daginn. Kl. 03 þann 14. júní vakna ég við mikla verki sem komu með 5 mínútna millibili. Ég hafði áður vaknað við svona verki en það var 6. júní þeir komu einnig með 5 mínútna millibili en stóðu yfir í 3 klst. og duttu svo alveg niður.

Þannig að þegar ég vaknaði við verkina þessa nótt vildi ég fara beint upp á spítala til að fara í skoðun sem reyndist vera góð ákvörðun. Við mættum upp á Landspítala um kl. 04. Þá var ég komin með 5 í útvíkkun. 

Ljósmynd/einkasafn

Verkirnir voru að ganga frá mér og ógleðin var að magnast upp. Þegar ég fæddi eldri stelpuna mína fékk ég mænudeyfingu en dró þá á langinn að fá hana því viðhorfið við mænudeyfingar var svo leiðinlegt. En fékk að lokum deyfingu. Þá ákvað ég að með næsta barn skyldi ég ekkert vera að draga það á langinn að fá deyfingu, ef ég vil deyfingu fæ ég mér hana bara enda eftir deyfinguna þá naut ég fæðingarinnar til botns! 

Ég fann það að ég vildi fá aftur deyfingu og bað um hana. Ljósmóðurinni fannst það bara sjálfsagt og lítið mál og setti upp æðalegg og hringdi í svæfingarlækni. Ég fæ deyfinguna um kl. 05. 

Ljósmynd/einkasafn

Mér leið mun betur þótt ég fengi mikinn skjálfta og lækkaði í blóðþrýstingi. En það getur verið aukaverkun við mænurótardeyfingu. Rúmri klst. síðar byrja ég að finna svaka þrýsting og verk niður í leggöng. Ég spyr ljósmóðurina hvort ég megi reyna að fara á klósettið því mér liði alveg eins og ég þyrfti að gera nr. 2. Hún spyr mig hvort þetta sé ekki bara barnið að koma og vill fá að athuga það, ég var ekki alveg að trúa því að þetta væri stelpan á leiðinni því ég hafði ekki misst vatnið. En þegar ljósmóðirin athugar stöðuna segir hún mér að belgurinn sé kominn út. Ég skildi þetta ekki alveg, að belgurinn væri kominn út. Ég hef fætt barn áður en hvað er belgur? Jæja alla vega stelpan var á leiðinni og Anton sofandi í hægindastólnum, við vekjum hann og ljósmóðirin segir mér að rembast, einn góður rembingur og litla stúlkan okkar skaust í heiminn í belgnum!

Ljósmynd/einkasafn

Núna veit ég hvað belgur er. Fyrir þá sem vita það ekki þá er barnið inni í vatnsbelg sem er svo inni í fylgjunni.

Þetta var ótrúlega skemmtileg fæðing sem gekk svona yndislega vel. 

 Færsla Evu Rósar á lífsstílsblogginu Narnia.is

mbl.is
Loka