María Gomez heldur úti lífstílsblogginu Paz.is. Hún er hálfspænsk og hefur viðhaldið þeim spænska sið, sem einnig er viðhafður í Suður Ameríku og víðar, að láta gata eyru ungra dætra sinna. Margir hérlendis hafa á því sterkar skoðanir, að ekki skuli gata eyru barna fyrr en þau hafa vit á því sjálf að biðja um það en hér skýrir María sína spænskættuðu sýn á götun eyrna í ungabörn.
________________________________________________________________
Að setja göt í eyrun á nýfæddum stúlkum myndi sjokkera marga hér á Íslandi. Á Spáni og latínólöndum hins vegar er sá siður að gata eyrun á nýfæddum stúlkum mjög rótgróinn. Margir sem þekkja ekki þennan sið annað hvort sjokkerast og jafnvel reiðast, meðan öðrum finnst þetta svakalega krúttilegt og vilja gera það sama.
Þegar þið farið til Spánar er næsta víst að allar pínulitlar stelpur sem þið sjáið eru með eyrnalokka og þykir það algjör undantekning ef stelpa fær ekki göt í eyrun. Þar eru götin sett í af ljósmóður sem kemur heim, eða jafnvel á spítalanum strax eftir fæðingu. Þar er ekki notuð byssa heldur hilo eða þráður.
Ég hef lesið heitar umræður um þetta málefni á spjallþráðum og hafa sumir jafnvel líkt þessu við að umskera stelpur. Öðrum finnst að þær eigi sjálfar að ráða því hvort það verði sett göt í þær þegar þær hafa vit, og aðrir segjast aldrei myndu setja göt í barnið sitt. Allt er þetta gott og gilt og verður hver og einn að fá að gera það upp við sig hvað honum þykir rétt gagnvart sínu barni og taka sínar ákvarðanir samkvæmt því. Mér finnst mjög mikilvægt að hver fái að hafa sína skoðun og við virðum þær skoðanir sama hverjar þær eru. Tek það fram að hér á ég við þegar um er að ræða að setja lokka í eyrun en ekki umskurð á börnum svo það sé á hreinu.
Ég hef mikil og sterk tilfinningatengsl við Spán sem er mitt annað land. Þar sem ég er hálfur Spánverji, eins og flest ykkar vita, var þetta gert við mig og hef ég alltaf verið stolt og fundist gaman að hafa göt í eyrunum. Ég er ekkert alltaf með eyrnalokka, en sem barn var ég það. Það vakti oft athygli hversu ung ég væri með eyrnalokka.
Þegar ég var síðan ófrísk af mínu fyrsta barni, sem í dag er á 19 ári, fór ég í heimsókn til ættmenna minna á Spáni. Þar fékk ég að gjöf, frá ömmu minni Paz, fyrstu lokkana í barnið. Við vissum að ég gengi með stelpu. Um leið og ég vissi hvort kynið ég væri með var ég ákveðin að halda þessum sið.
Spánn og siðir landsins skipta mig miklu máli og er stór partur af því hver ég er. Vandamálið var hins vegar það að enginn á Íslandi veitti þessa þjónustu fyrir börn undir 1 árs. Ég hringdi á marga staði og fékk alveg að heyra það. Sumir urðu alveg reiðir og vildu ekki einu sinni heyra á þetta minnst. Allt í lagi með það.
Loks fann ég svo yndislega konu sem var gullsmiður og hafði búið bæði á Ítalíu og Spáni og þekkti þennan sið. Hún var til í að gera þetta fyrir mig og úr varð að Gabríela fékk sínu fyrstu lokka 11 daga gömul. Ég mun koma inn á það á eftir að það þurfa að vera sérstakir lokkar sem notaðir eru í ungabörn, en þannig fást eingöngu á Spáni en ekki hér á landi.
Svo þegar ég gékk með seinni stelpuna, sem er 4 barnið mitt, ákvað ég að hún skildi fá lokka líka strax. Ég vissi um traustan aðila sem setur göt í eyru og spyr ekki um aldur. Úr varð að Viktoría Alba fékk sína fyrstu lokka 5 daga gömul eða strax á eftir 5 daga skoðuninni. Þar hafði ég sagt lækninum frá áformum mínum sem tók ekkert annað en vel í þau, þar sem hann heyrði að ég vissi nákvæmlega hvernig ætti að fara að og meðhöndla það.
Langar að taka fram að barnið finnur ekki mikið til eða eflaust ekkert, þegar götin eru sett. Yngri stelpan t.d svaf allan tímann sem götin voru sett í hana og tók það svona 2 mínútur að gera. Þeirri eldri brá við hljóðið og hrökk við þegar sett var í annað eyrað en svo ekki söguna meir.
Hvorugar stelpurnar mínar hafa nokkurn tímann fengið sýkingu í götin og það hefur aldrei nokkurn tímann verið vandamál með þessi göt. Það er miklu meiri sýkingarhætta þegar verið er að setja göt í barn á leiskólaaldri sem hefur vit á að fikta í götunum með litla fingur sem bera með sér fjölda sýkla. Nýfætt barn lætur götin algjörlega vera og er því ekki að bera í það sýkla.
Sú eldri er afar stolt af þessu og minnist þess að hafa alltaf þótt gaman að vera með eyrnalokka og segja frá þessari hefð og hversu ung hún var þegar hún fékk götin. Sú yngri er enn ekki nema 2 ára, en enn sem komið er finnst henni rosalega gaman að bara ég og hún eigum eyrnalokka, en ekki pabbi og strákarnir. Því hef ég ekkert nema góða reynslu af þessu og ekkert slæmt um þetta að segja. Ég er hvorki að mæla með eða á móti þessu heldur langar mig bara að fræða ykkur sem hafið áhuga á þessu um hvað hafa skal í huga þegar sett eru göt í mjög ungt barn.
Ráð þegar setja á göt í eyru:
- Aldrei láta skjóta læknastáli í eyrað á barninu. Þó það sé nikkelfrítt. Látið frekar skjóta sænsku plastlokkunum sem eru viðurkenndir læknisfræðilega. Þeir valda ekki ofnæmi.
- Ekki hreyfa við lokkunum í 6 vikur. Ekki snúa né fara með puttana í þá og hreinsið aðeins í baði þegar barnið er baðað. Kreistið þá vatni úr svampi yfir lokkana og þurrkið svo vel í kringum eyrun. Ekki koma nálægt lokkunum. Alls alls ekki spritta, aldrei aldrei aldrei. Spritt er alkóhól og að setja það á opin nýskotin göt er eins og að setja olíu á bál og veldur það brunasári.
- Þegar skipta á um lokka að sex vikum liðnum notist þá eingöngu við ekta gulllokka ekki undir 14 karötum.
- Ef stúlkan er undir eins árs notist þá við ungbarnalokka. Þannig lokkar eru með mun mjórri og styttri pinna og er smellann skrúfuð á pinnann. Einnig er kúla aftan á smellunni sem kemur í veg fyrir að pinninn stingist í húð barnsins.
- Ég persónulega myndi nota þessa tegund af lokkum alveg upp í 12-18 mánaða og ekkert annað.
En ég vona að með þessum skrifum hafi ég þó getað hjálpað þeim sem eru í þessum hugleiðingum, og að koma í veg fyrir sýkingar sem eru allt of algengar þegar sett eru göt hér á landi. Ég veit til þess að þær skartgripaverslanir sem eru að skjóta læknastáli í börnin senda mæður heim með sprittklúta og ráðleggja að sótthreinsa með honum og snúa lokkunum reglulega, það er algjört no no. Ég hef orðið allt of oft vitni að óþarfa sýkingum, í börnum vinkvenna minna á leikskólaaldri, eingöngu vegna rangrar meðhöndlunar.
Að lokum vil ég minna á að ég er ekki sérfræðingur í þessum málum en þessi ráð hef ég frá Spáni sem er þjóð sem hefur iðkað þennan sið í fjölda fjölda ára og veit sínu viti. Ég fór sjálf eftir þessum ráðum og hafa þau hentað okkur vel 🙂
En nú hef ég þetta ekki lengra
Færsla Maríu á Paz.is vefnum