Vansvefta foreldrar vonlaus þrýstihópur

Við erum búin að leysa út alla hugsanlega greiða varðandi …
Við erum búin að leysa út alla hugsanlega greiða varðandi barnapössun hjá vinum og vandamönnum, þaulnýta ömmur og afa,“ segir Grettir, en þau eru svo heppin að önnur amman vinnur vaktavinnu og gat skipulagt sínar vaktir með tilliti til Tryggva litla og hin amman og afinn eru hætt að vinna og þau hafa hjálpað eftir getu. mbl.is/Hari

Á Teigunum hefur lítil fjölskylda komið sér fyrir í kósí íbúð sem þau hafa verið að gera upp. Þetta eru þau Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri AFS, maðurinn hennar Grettir Heimisson, sem vinnur í greiningardeild Landsbankans og sonur þeirra Tryggvi S. Grettisson en hann komst nýlega inn á ungbarnaleiksskóla eftir mikla baráttu við að finna pláss. Hinir ungu foreldrar eru ósáttir við það hversu illa hefur gengið að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þó að þau séu að sjálfsögðu ánægð með að litli karlinn þeirra sé loksins kominn inn á leikskóla. Þeim finnst sem að þetta sé vandi ungra foreldra sem virðist aldrei ætla að leysast.

„Við erum búin að leysa út alla hugsanlega greiða varðandi barnapössun hjá vinum og vandamönnum, þaulnýta ömmur og afa,“ segir Grettir, en þau eru svo heppin að önnur amman vinnur vaktavinnu og gat skipulagt sínar vaktir með tilliti til Tryggva litla og hin amman og afinn eru hætt að vinna og þau hafa hjálpað eftir getu. „Svo er maður búinn að gjörnýta allt sumarleyfið,“ bætir hann við og segir að tæplega hafi verið hægt að ganga að fleiri reddingum þegar loksins bauðst rými á ungbarnaleikskóla á vegum Háskólans en Grettir er að fara hefja meistaranám, samhliða vinnu, í tölfræði við HÍ í haust. „Svo er bara eins gott að standa sig, svo maður missi ekki plássið,“ segir hann en það er ljóst að hann á ærin verkefni fyrir höndum næstu tvö árin eða svo; að stunda meistaranám og samhliða vinnu. En hann er búinn að semja við vinnuveitendur sína um sveigjanleika vegna náms enda alltaf þörf fyrir góða sérfræðinga í tölfræði.

mbl.is/Hari

Með ólíkindum að þetta bil skuli ekki löngu vera brúað

„Sko, ég vil ekki vera eitthvað voðalega neikvæð en það er alveg með ólíkindum hvað það gengur illa að brúa bilið og hvað maður heyrir alltaf að til úrbóta komi eftir ár, eða hálft ár eða bara einhvern tíma síðar. Það er alveg ljóst að dauðþreyttir foreldrar með lítil börn eru langversti hópurinn til að þrýsta á um breytingar. Kannski þess vegna sem ekkert eða lítið gerist í dagvistunarmálum fyrir þennan aldurshóp ár eftir ár, eða jafnvel áratugum saman. Það er bara út í hött að allir foreldrar níu til 18 mánaða gamalla barna séu bara alltaf í lausu lofti á vinnumarkaði, þurfi að stóla á foreldra, ættingja, sveigjanlega atvinnuveitendur og taka út allt sumarfrí og launalaus leyfi. Svo getur þetta ástand líka bitnað á samstarfsfólki. Þannig að það er með ólíkindum að ekki skuli hafa verið búið að brúa þetta alræmda bil fyrir löngu,“ segir Sólveig Ása.

Vistun fyrir Tryggva litla var þessu unga pari, eins og öllum útivinnandi foreldrum, bráðnauðsynleg, ekki síst í ljósi þess að Sólveig var að taka við nýju ábyrgðarmiklu starfi en það er aðeins vika síðan hún tók við stöðu framkvæmdastjóra alþjóðlegu fræðslusamtakanna AFS.

Hún er þó öllum hnútum kunnug enda búin að starfa sem deildarstjóri nema á vegum samtakanna í sjö ár. Þess vegna þekkirhún manna best um þau ólíku og stundum erfiðu mál sem upp geta komið í tengslum við nemana, bæði erlenda nema hérlendis og íslenska nema í útlöndum. Hún fór sjálf út sem skiptinemi þegar hún var 17 ára til Denver í Bandaríkjunum og heldur enn góðu sambandi við fjölskyldu sína. Og ekki bara hún heldur haldi foreldrar hennar góðu sambandi við skiptiforeldra hennar í Bandaríkjunum og því ljóst að þarna varð til vinátta fyrir lífstíð.

Horfði upp á Bandaríkin breytast

„Ég var í Bandaríkjunum þegar flogið var á tvíburaturnana í New York, það var atburður sem yfirleitt er kallaður 9/11 á ensku og sá hreinlega hvernig Bandaríkin breyttust og þjóðernishyggjan tók yfir samfélagið að því er virtist. En í heildina var þetta mjög jákvæð og lærdómsrík upplifun, eins og skiptinám er fyrir langflesta.

Sólveig Ása stendur frammi fyrir þeirri áskorun um þessa mundir að finna fjölskyldur fyrir þann töluverða fjölda erlenda nema sem langar að koma í skiptinám til Íslands. „Aðalmálið í þessu öllu saman er að sannfæra fólk um að þetta sé ekki svo mikið mál. Að skiptineminn eigi einfaldlega að vera hluti af fjölskyldunni og að þetta sé ekki eins og að fá gest frá útlöndum sem þú þarft að halda uppi með „Gullfoss-Geysi“ dagskrá í heilt ár. Þegar fólk áttar sig á því og er búið að sannreyna að koma skiptinemans inn á heimilið er í raun minna mál en flestir gera sér í hugarlund er eftirleikurinn auðveldur,“ segir Sólveig Ása.

Sólveig Ása, Grettir og Tryggvi
Sólveig Ása, Grettir og Tryggvi mbl.is/Hari

Hún segir að stundum verði þó árekstrar menningarheima, eðlilega. Mikilvægast sé þá að tala um hlutina strax, birgja þá ekki inni, þá sé hægt að leysa flest. Það eigi bæði við um nema, hérlendis og erlendis en líka fjölskyldurnar. Reyndar eru sumir af þessum árekstrum bráðfyndnir eins og til dæmis taílenski strákurinn sem ætlaði að vera voða góður og elda fyrir fjölskyldu sína. Þau biðu róleg en voru farin að undrast lætin úr eldhúsinu, kíktu inn og sáu að það var allt á hvolfi. Skýringin lá í því að fjölskyldan hans var vön að elda úti og hann því ekki vanur að þurfa að hugsa um það sem fer á gólfið/jörðina með sama hætti inni og úti. Sólveig Ása segir líka að viðbrigðin geti verið gríðarlega mikil, til dæmis fyrir ungmenni sem elst upp í fámenni úti á landi og fer til erlendrar stórborgar, sem og skiptinemann frá Hong Kong sem flutti í þorp úti á landi sem var fámennara en blokkin þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni.

Sólveig Ása segir að vinnan í kringum skiptinemana sé fyrst og fremst gefandi og skemmtileg, þó að upp komi stundum krefjandi atvik. Einnig að skiptinám sé eins og framhaldsnámskeið í víðsýni, samkennd og ábyrgðartilfinningu fyrir krakkana sem taka þátt. Skiptinámið er oft stóra stökkið fram á við í þroska þessara krakka og ætti að vera metið til eininga í framhaldsskólanum enda má segja að skiptinám sé eins og heils árs ofurkúrs í lífsleikni.

Mikilvægt að meta skiptinám til eininga

„Það er mikilvægt að fá námið metið og við eigum í viðræðum núna við menntamálaráðuneytið um það. Einnig vegna þess að það er svo mikið í boði fyrir ungmenni í dag, miklu meira en bara þegar ég fór utan á sínum tíma, og því mikilvægt í allri samkeppninni um tíma ungs fólks að skiptinámið sé metið til eininga. Við finnum alveg fyrir styttingu framhaldskólans í þessu samhengi,“ segir Sólveig Ása.

Hún segir einnig að AFS þurfi líka að svara kalli tímans. Samtökin fögnuðu 60 ára afmæli sínu hér á Íslandi í fyrra en eru rúmlega 100 ára á heimsvísu og þau geta ekki haldið áfram að starfa eins og þau gerðu í upphafi eða fyrir 20 árum. „Þess vegna erum við að bjóða upp á skiptinám fyrir fólk á öllum aldri og líka í styttri tíma. Þ.e.a.s. ekki bara fyrir 15-18 ára krakka í tæpt ár.

„Gæti ég þá farið til dæmis ein í skiptinám til Argentínu?“ spyr blaðakona vongóð.

„Já, það er einmitt heila málið, segir Sólveig Ása. „AFS eru friðarsamtök þar sem skiptinemar, fjölskyldur og sjálfboðaliðar vinna markvisst að því að tengja saman menningarheima. Þetta er grunnskilgreiningin á samtökunum og við þurfum að aðlagast breyttum heimi með fleiri aðferðum fyrir okkar fólk; skiptinemana, sjálfboðaliða og fjölskyldur,“ segir Sólveig Ása að lokum og ljóst að skiptinemar hérlendis og ytra eru í góðum höndum undir styrkri stjórn þessarar skeleggu konu.

mbl.is

Bloggað um fréttina