Það er alltaf gaman að fá að kíkja á skólabyrjunarmyndir foreldra eftir að ævintýralegt sumarfríið er að baki og skiptir þá litlu hvaða skólastig er um að ræða. Boomer Robert Phelps litli byrjaði sinn fyrsta dag í leikskóla í Arizona nýlega en hann er sonur sundkappans knáa Michaels Phelps og fyrrverandi fegurðardrottningarinnar Nicole Johnson, síðar Nicole Phelps. Ekki alslæm genasamsetning þar á ferð, en Phelps vann 23 gullverðlaun á sundferli sínum og í allt 28 medalíur.
Myndin af honum hér birtist á eigin instagramsíðu Boomers litla en líklegt má telja að annað hvort foreldri hans beri ábyrgð á henni.
Boomer litli er stoltur stóri bróðir Becketts Richards Phelps sem fæddist í maí á þessu ári og birtust myndir af þeim bræðrum og hinni hamingjusömu fjölskyldu víða í fjölmiðlum í tilefni af stækkun hennar. Þau búa í Paradísardalnum í Arizona þar sem Nicole sinnir ungum sonum og Michael starfar sem þjálfari fyrir sundliðið The Arizona State Sun Devils.