Hefur þú endalausar áhyggjur af barninu þínu?

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það er eðlilegt að hafa stundum áhyggjur af velferð barna sinna en niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að margir foreldrar hafa einfaldlega of miklar áhyggjur of oft.

En hvenær hefur foreldri of miklar áhyggjur?

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að foreldrar hafa áhyggjur af börnun sínum í allt að 37 tíma á viku. Það þýðir að sumir foreldrar eyða hátt í fullri vinnuviku í að hafa  áhyggjur af ungviðinu.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Foreldrar hafa mestar áhyggur af öryggi, hamingju, einelti og námsframmistöðu barna sinna

Rannsóknin sem er bandarísk var unnin á vegum OnePoll and Lice Clinics of America og samanstóð þýðið af 2.000 foreldrum. Helstu áhyggjuefni foreldra voru öryggi barna þeirra (48%) og hamingja (44%). Aðrir þættir sem foreldrar höfðu áhyggjur af voru einelti (43%), frammistaða í skólanum (41%), að börnunum gengi illa félagslega (36%), matarvenjur (30%), að þau nytu ekki æsku sinnar (28%), að þau eignuðust ekki vini (27%) og að lokum gamalkunnar áhyggjur af því að börnin kynnu að fá lús (27%).

Foreldrar hafa vaxandi áhyggjur af einelti meðal barna sinna sem veldur bæði börnunum sjálfum og foreldrum þeirra áhyggjum en í ljós hefur komið að allt að 50% skólabarna hafa  upplifað einelti.

Allir þessir þættir virðast samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hafa tekið yfir huga foreldra þannig að þeir eyða allt að fimm til sex tímum á dag að velta þeim fyrir sér og hafa áhyggjur af þeim og þar með velferð barna sinna.

Skólabyrjun eykur enn á áhyggjur foreldra því 71% þeirra segir að þessi árstími auki áhyggjurnar. Það getur þó hjálpað mikið til að vera eins vel undirbúin fyrir nýjan skólavetur og hægt er.

Það á ekki að þurfa að vera full vinna að að hafa áhyggjur af börnunum sínum og ef fólk finnur sig í þeirri stöðu er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Fjölskyldan á mbl.is mælir með að byrja a því að tala við kennarana og athuga hvort hægt sé að útvega sértæk úrræði í skólum fyrir barnið. Ef það dugar ekki til þá er ástæða til að tala við félagsráðgjafa eða sálfræðing.

Heimildir: Mummypages.ie

mbl.is