„Á enn erfitt með að trúa að Högni sé okkar“

Bera Tryggvadóttir og Hjörtur Hermannsson ásamt syni sínum, Högna Hjartarsyni.
Bera Tryggvadóttir og Hjörtur Hermannsson ásamt syni sínum, Högna Hjartarsyni.

Aðdragandi þungunar Beru Tryggvadóttur var erfiður, en Bera og unnusti hennar, fótboltamaðurinn Hjörtur Hermannsson, fóru í gegnum langt og strembið ferli tæknifrjóvgunar og síðar glasafrjóvgunar sem að lokum færði þeim son þeirra, Högna Hjartarson.

Í dag er fjölskyldan búsett í Pisa á Ítalíu þar sem Hjörtur leikur í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu. Þau eru afar lukkuleg á Ítalíu, en Bera leyfði okkur að skyggnast inn í fjölskyldulíf þeirra og sagði frá upplifun sinni af ófrjósemi á einlægan máta.

Bera lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og hóf einkaflugmannsnám áður en hún varð ófrísk að syni sínum, en hún hefur mikla ástríðu fyrir flugi og eldamennsku. Draumurinn er svo að komast í Le Cordon Blue matreiðsluskólann í Flórens.

„Núna er ég að njóta lífsins heima með eins árs …
„Núna er ég að njóta lífsins heima með eins árs gamla stráknum okkar. Ég reyni að nýta tímann í að læra ítölsku sem mun hjálpa mér að komast betur inn í samfélagið á Ítalíu.“

Á miklu flakki fyrstu árin

Bera og Hjörtur kynntust fyrir sjö árum, en þá var Hjörtur búsettur í Eindhoven í Hollandi þar sem hann spilaði fótbolta. Bera var 18 ára gömul þegar hún flutti út til Hjartar, en við tóku mikil ferðalög hjá parinu.

„Fótboltalífið tók heldur betur á móti mér með trompi, en þremur vikum eftir að ég flutti út til Hollands var Hjörtur fenginn að láni til IFK Gautaborgar í Svíþjóð. Ég var nýbúin að taka upp úr töskunum þegar hann fékk símtalið. Við náðum að pakka öllu niður aftur, troða inn í bíl og keyrðum af stað til Svíþjóðar sólarhring síðar,“ útskýrir Bera.

Í Gautaborg var Beru sannarlega hent í djúpu laugina, en hún fór beinustu leið í IKEA með starfsmanni hjá liðinu og keypti þar heila búslóð í fyrsta skipti. „Ég var mjög ung, 18 að verða 19 ára, og mætt til Svíþjóðar að skoða íbúðir,“ segir Bera, en að hennar sögn fór afar vel um þau í þá fjóra mánuði sem þau voru búsett þar.

„Ég vissi náttúrlega alls ekki hvað ég var að gera, …
„Ég vissi náttúrlega alls ekki hvað ég var að gera, en ég lærði svo ótrúlega mikið og fljótt á þessu. Gautaborg er frábær borg og mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta okkur, enda vorum við bæði ung, þó okkur hafi ekki liðið þannig þá, að byrja lífið saman í nýju landi.“

Frá Frakklandi til Kaupmannahafnar

„Eftir lánið í Svíþjóð var flakkað um Frakkland að horfa á leikina í Evrópumeistaramótinu í fótbolta sem var mögnuð upplifun,“ segir Bera.

Eftir Evrópumeistaramótið var ferðinni heitið til Kaupmannahafnar þar sem Hjörtur var keyptur til Brøndby. Bera og Hjörtur fluttu þangað í júlí 2016 og voru búsett þar næstu fimm árin. „Köben verður alltaf okkar „heima“ og að okkar mati er ekki til betri borg í heiminum,“ segir Bera.

Í dag eru Bera og Hjörtur búsett í Pisa á Ítalíu og hafa verið þar í rúmt ár. „Ítalía er mjög ólík því sem við vorum vön í Köben. Hér er mikil ró yfir öllu, búðir loka í þrjá eða fjóra tíma í hádeginu, það er lítið gert í gegnum netið og því mikil pappírsvinna sem fylgir öllu hér,“ útskýrir Bera.

Bera og Högni alsæl í veðurblíðunni ásamt hundinum Kalla.
Bera og Högni alsæl í veðurblíðunni ásamt hundinum Kalla.

„Svo byrjaði ég að hafa smá áhyggjur“

Þegar Bera og Hjörtur ákváðu að stofna fjölskyldu stóðu þau frammi fyrir mörgum áskorunum. „Við vorum svolítið barnaleg ef svo má segja, en við vorum búin að eiga það samtal að við værum tilbúin að stofna fjölskyldu ef það myndi gerast. Þá tókum við í raun allar hindranir í burtu og ég einhvern veginn hugsaði bara að það myndi gerast,“ segir Bera.

„Svo byrjaði ég að hafa smá áhyggjur eftir einhvern tíma þegar ekkert hafði gerst, en hélt alltaf í vonina um að „þetta væri mánuðurinn“ en svo varð ekki,“ bætir hún við.

„Ég fór að lesa mér til og það koma mér þvílíkt mikið á óvart hversu margt þarf að ganga upp hjá pörum svo þungun geti átt sér stað. Við tók mikill lestur um egglos og hormóna, og endalaus ráð um vítamín, mataræði og hreyfingu. Ég fór inn í þetta af öllum krafti en lærði í leiðinni að það er ekki gott að lesa of mikið á netinu,“ segir Bera.

Stuttu síðar byrjaði hún að finna á sér að eitthvað væri ekki í lagi og bað um að fá nánari skoðun hjá læknum. „Mér var alltaf mætt með þeim orðum að við værum „ung og heilbrigð“ og ættum bara að „halda áfram að reyna.“ Ég er mjög óþolinmóð kona og átti frekar erfitt með að heyra þessi svör,“ segir hún.

„Góð vinkona mín kom mér að hjá lækni á Íslandi sem var tilbúinn að skoða mig og manninn minn betur. Við fengum þau svör hjá honum að við ættum að fara í enn ítarlegri skoðun,“ segir Bera.

Hjá lækninum fengu þau ráð og nokkur lyf til að …
Hjá lækninum fengu þau ráð og nokkur lyf til að prófa yfir sumarið. Þá var þeim ráðlagt að leita sér frekari aðstoðar í Kaupmannahöfn eftir sumarið.

„Ég var mjög óttaslegin yfir ferlinu sem beið okkar“

Um haustið fundu Bera og Hjörtur stofu í úthverfi Kaupmannahafnar, en þar var tekið vel á móti þeim. „Við fengum ný lyf og stærri skammt til að prófa á meðan verið var að skoða okkur bæði, en planið var að undirbúa okkur fyrir tæknisæðingu. Við fengum síðan hringingu frá stofunni þar sem okkur var tjáð að því miður væru engar líkur á að þetta myndi ganga upp á náttúrulegan hátt og að tæknisæðing væri heldur ekki nóg,“ útskýrir Bera.

„Þetta var gífurlegt áfall fyrir okkur og símtalinu fylgdi mikil sorg. Ég átti mjög erfitt með að sleppa þeirri hugmynd sem ég var með um hvernig við myndum stofna fjölskyldu,“ segir Bera.

Í kjölfarið ákváðu þau að fara í glasafrjóvgun. „Ég var mjög óttaslegin yfir ferlinu sem beið okkar og þurfti að undirbúa mig andlega fyrir aðgerðirnar og allar sprauturnar sem biðu mín,“ segir Bera, en þau ákváðu að taka sér smá tíma áður en meðferðin myndi hefjast og eyddu jólunum á Íslandi. „Við vildum koma fersk til baka í janúar og tilbúin í meðferðina,“ útskýrir Bera.

Upplifði kvíða á meðgöngunni

„Í janúar byrjaði síðan smásjárfrjóvgunarmeðferðin okkar og hún gekk hratt fyrir sig. Við fengum oft að heyra hversu gott það væri að við værum enn svona ung og hefðum tímann með okkur þegar við byrjuðum meðferðina, en þarna var ég mjög ánægð að hafa verið þessi óþolinmóða kona sem ég er,“ segir Bera.

„Við fengum fjóra fósturvísa úr þeirri meðferð og Högni er einn af þeim. Ég á enn erfitt með að trúa að Högni sé okkar, þvílíkt kraftaverk sem þessi meðferð er,“ bætir hún við.

Feðgarnir Hjörtur og Högni í góðum gír.
Feðgarnir Hjörtur og Högni í góðum gír.

Aðspurð segir Bera meðgönguna hafa gengið vonum framar, en hún upplifði þó kvíða á meðgöngunni vegna þess sem þau höfðu gengið í gegnum til þess að hún gæti orðið þunguð. „Mér leið mjög vel líkamlega og fannst þetta vera yndisleg upplifun. auðvitað var mikil þreyta í lokin og ég var alveg komin með nóg af spörkum í rifbein og svefnlausum nóttum,“ segir hún.

„Ég get samt sem áður verið mjög þakklát fyrir svona …
„Ég get samt sem áður verið mjög þakklát fyrir svona góða meðgöngu, það er alls ekki sjálfsagt.“

Krefjandi að vera fjarri fjölskyldunni

Þegar Bera var gengin sex mánuði á leið fluttu þau til Ítalíu, en þá hafði hún farið í gegnum allt tengt meðgöngunni í Kaupmannahöfn. „Að flytja til Ítalíu ólétt var frekar krefjandi. Það eru virkilega góðir læknar hér, en hins vegar er kerfið svona 15 árum eftir á. Það hjálpaði heldur ekki til að ég talaði ekki ítölsku og þau ekki ensku,“ útskýrir Bera.

„Það gekk erfiðlega að skrá mig inn í landið og þar voru allt aðrar áherslur tengdar meðgöngunni en í Kaupmannahöfn, til dæmis alls kyns próf sem ég þurfti að gangast undir sem ég hafði aldrei heyrt um,“ bætir hún við og lýsir tímabilinu sem verulega krefjandi andlega, enda fyrsta meðganga Beru og hún stödd langt frá fjölskyldu sinni.

Skakki turninn í Pisa.
Skakki turninn í Pisa.

„Allar reglurnar vegna kórónuveirunnar hjálpuðu heldur ekki, enda fór Ítalía mjög illa út úr veirunni. Ég átti helst að mæta ein í allar skoðanir, og hefði ég fætt á ríkisspítala hefði Hjörtur ekki fengið að vera með mér nema alveg í lokin. Hann hefði síðan bara mátt koma á heimsóknartíma, sem var ein klukkustund á dag, eftir fæðinguna,“ útskýrir Bera.

Bera segir þó allt hafa farið vel, en þau enduðu á einkaspítala með enskumælandi læknum. „Við fengum alveg frábæra þjónustu, en ég þurfti hins vegar að syrgja fæðinguna sem ég hafði í huga. Maður gerir sér einhvers konar mynd af því hvernig fæðingin verður,“ segir Bera.

Bera hafði heyrt fæðingarsögur frá systur sinni og vinkonum og …
Bera hafði heyrt fæðingarsögur frá systur sinni og vinkonum og í kjölfarið gert sér væntingar um sjálfa fæðinguna.

Besta ráðið að treysta sjálfri sér

Aðspurð segir Bera það hafa komið sér á óvart hve krefjandi móðurhlutverkið er. „En það sem kom mér eiginlega meira á óvart er hversu yndislegar allar litlu stundirnar inn á milli eru. Það tala allir um hvað þetta er erfitt og guð minn góður, það er það svo sannarlega. En þetta er líka tíu sinnum betra en ég bjóst við,“ segir Bera.

„Maður upplifir svo mikla ást og fyllist af stolti þegar barnið manns hlær í fyrsta skipti eða drekkur sjálft úr glasi eða klappar, þetta eru svo magnaðar tilfinningar sem erfitt er að lýsa. Ég er alltaf mætt beint á Facetime að segja mömmu minni, systur eða tengdamömmu frá því þegar hann gerir minnstu hlutina,“ bætir hún við.

Feðgarnir á ströndinni.
Feðgarnir á ströndinni.

Spurð að því hvað hún hefði viljað vita áður en hún varð móðir svarar Bera að hún hefði viljað vita hve mismunandi börn eru. „Eitthvað sem hentar einu barni hentar kannski ekki öðru barni, en maður lærir hægt og rólega inn á þennan litla einstakling,“ segir Bera.

„Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að börn tækju ekki öll snuð. Ég hélt að öll börn vildu alltaf snuð, en Högni byrjaði með snuð og harðneitaði því svo gjörsamlega. Ég hefði líka viljað vita hversu oft hlutirnir breytast hjá þeim og mér sjálfri - endalausir þroskakippir, svefnvandamál og tanntökur,“ bætir hún við.

Að lokum segir Bera besta ráðið vera að treysta sjálfri sér. „Það er frábært hvað allir vilja deila ráðum og skoðunum sem er auðvitað mjög hjálplegt stundum, en þó svo að fólk meini vel er stundum bara best að segja „já einmitt“ en fara eftir eigin tilfinningu. Þú þekkir þig og þitt barn best, og það getur enginn sett sig nákvæmlega í þín spor. Ég var alltof dugleg að hlusta á aðra í byrjun og gera nákvæmlega eins og mér var sagt, en það gerði allt bara erfiðara,“ segir Bera.

Mæðginin Bera og Högni á góðri stund saman.
Mæðginin Bera og Högni á góðri stund saman.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert