Arnar Dan fór að vinna á leikskóla til að koma barninu að

Arnar Dan Kristjánsson segist vera óhefðbundinn leikskólastarfsmaður.
Arnar Dan Kristjánsson segist vera óhefðbundinn leikskólastarfsmaður. Ljósmynd/Aðsend

Leikarinn Arnar Dan Kristjánsson hefur átt farsælan feril í heimi leiklistarinnar og hefur leikið ótal hlutverk, bæði í íslensku leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum, frá því hann útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013. Hann ákvað að skipta um vettvang til að koma yngsta barni sínu inn á leikskóla og tók því nýverið við stöðu deildarstjóra á leikskólanum Drafnarsteini í miðbæ Reykjavíkur. 

Þegar blaðamaður hringdi í leikarann Arnar til að forvitnast um ráðningu hans sem deildarstjóra á leikskólanum Drafnarsteini þá lá hann heima með flensu, en það er eitthvað sem flestir nýir leikskólastarfsmenn kannast við. 

„Ég er búinn að vera með smá vott af kvefi alveg frá því ég byrjaði og nú hefur það þróast yfir í lungnabólgu. Þetta byrjaði sem bronkítis og nú er maður kominn með lungnabólgu. Ég fer út um allar koppagrundir og syng linnulaust, það reynir á raddböndin. Þetta er líkt og ólíkt sviðinu,“ segir Arnar. 

„Jæja, hvað tekur við?“

„Þetta átti sér mjög stuttan aðdraganda,“ segir Arnar um ráðningu sína. „Eftir sex vikna sumarleyfi þá hugsaði ég: „Jæja, hvað tekur við?“ Ég var með einhver kvikmynda- og talsetningarverkefni í bígerð en hugsaði að ég þyrfti á einhverju stöðugra að halda, enda með þrjú börn á framfæri. 

Yngsta dóttir mín, sem var 17 mánaða gömul á þessum tíma, var ekki komin með leikskólapláss og ég heyrði að það væri í það minnsta eitt ár það til hún kæmist að, sem að sjálfsögðu gekk ekki. Ég sagði við leikskólastjórann einn daginn: „Hvað þarf ég að gera til þess að hún fái pláss á leikskólanum?“ og svarið var: „Þú getur alltaf sótt um starf?“ segir Arnar, sem bókaði viðtal hjá leikskólastjóranum daginn eftir. 

Arnar settist niður með leikskólastjóra Drafnarsteins, Halldóru Guðmundsdóttur, sem hann þekkti ágætlega, enda búinn að vera með eldri börn sín tvö á leikskólanum. 

„Hún fór í gegnum ferilskránna mína, lagði mat á mína manngerð og spurði hvort ég treysti mér til þess að taka að mér stöðu deildarstjóra. Ég játti því og í rúma þrjá mánuði hef ég starfað á Drafnarsteini með þrjá starfsmenn á deild með tuttugu yndislegum börnum af ólíkum uppruna.“ segir hann. 

Hvernig fílarðu þetta?

„Mér finnst þetta alveg stórkostlegt. Það sem var erfiðast var að samsama sig við leikskólakennara eða starfsmann á leikskóla af því að allar fréttir sem berast af þessari stofnun eru svo neikvæðar og það litaði mína ómeðvituðu stöðu. 

Svo hafði ég hugmyndir um mig sem listamann og egóið mitt áður en ég tók þetta að mér, en um leið og ég mætti, búinn að jarða egóið og byrjaður að njóta hversdagsins, þá gat ég ekki verið neitt annað en þakklátur.“

Hvernig finnst börnunum þínum að sjá pabba á leikskólanum?

„Já, veistu þetta er áhugaverð spurning. Þetta kom konunni minni ekkert á óvart en þetta er að koma mér mjög mikið á óvart. Þeim er drullusama um að ég sé þarna. Ég geri mjög óhefðbundna hluti og börnin mín sýna aldrei nein viðbrögð, öllum hinum börnunum finnst þetta stórmerkilegt.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert