North West sló ekki í gegn í hlutverki Simba

Áhorfendur voru ekki sáttir.
Áhorfendur voru ekki sáttir. Samsett mynd

Elsta barn Kanye West og Kim Kardashian, North West, fór með hlutverk unga Simba á sérstakri tónleikasýningu Lion King sem haldin var í Hollywood Bowl á föstudagskvöldið. Sýningin var haldin í tilefni þess að 30 ár eru liðin frá útgáfu teiknimyndarinnar sívinsælu.

Þekktir leikarar, þeir sömu og talsettu teiknimyndakarakterana á sínum tíma, stigu á svið Hollywood Bowl og rifjuðu upp gamla tíma og sungu lögin sem allir elska. Meðal þeirra sem stigu á svið voru Jeremy Irons, Nathan Lane og Ernest Sabella.

Ekkert nema klíkuskapur

Áhorfendur voru 17.500 talsins og urðu þeir fyrir miklum vonbrigðum þegar hin tíu ára gamla West steig á svið til að syngja lagið I Just Can’t Wait To Be King.

Frammistaða West hefur verið gagnrýnd harðlega en netverjar eru margir hverjir sammála um að stúlkan hafi eingöngu fengið hlutverkið út á klíkuskap, en frændhygli og klíkuskapur í Hollywood hefur verið mikið í umræðunni seinustu ár.

Það var breska framleiðslufyrirtækið Fulwell 73 sem framleiddi tónleikasýninguna í samstarfi við Disney-samsteypuna en fyrirtækið hefur einnig framleitt þáttaseríur Kardashian-fjölskyldunnar síðustu ár. 

Sönghæfileikar West ekki upp á marga fiska

Myndskeið af flutningi West hefur verið deilt víða á samfélagsmiðlum síðustu daga og hafa netverjar ekkert legið á skoðunum sínum. Margir hafa gagnrýnt sviðsframkomu og sönghæfileika stúlkunnar og segja þá ekki upp á marga fiska. 

Kardashian birti myndaseríu af dóttur sinni klædd upp eins og Simbi á Instagram-reikningi sínum og voru margir sem hraunuðu yfir frammistöðu stúlkunnar í athugasemdarkerfinu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert