Sex ára gömul og strax komin með fyrirsætusamning

Mægðurnar Khloe Kardashian og True Thompson.
Mægðurnar Khloe Kardashian og True Thompson. Skjáskot/Instagram

True Thompson, dóttir raunveruleikastjörnunnar og athafnakonunnar Khloe Kardashian, er nýjasti meðlimur fjölskyldunnar til að landa fyrirsætusamningi, en hún er aðeins sex ára gömul.

Kardashian-Jenner fjölskyldan er þekkt fyrir að landa stórum viðskiptasamningum við hin ýmsu fyrirtæki, en á dögunum tilkynnti Kardashian að dóttir hennar væri nýjasta andlit barnamerkisins Zip N' Bear sem selur litrík náttföt með sérsniðnum bangsa sem er klæddur í sömu náttföt. 

Á rándýran fataskáp með merkjavörum

Það er óhætt að segja að Kardashian-Jenner fjölskyldan lifi ekki hinum hefðbundna lífsstíl, en það sama á við um börnin þeirra sem fá iðulega afmælisveislur sem minna helst á brúðkaup og gjafir sem innihalda rándýrar hönnunarvörur.

Thompson hefur þó nokkrum sinnum ratað í fjölmiðla fyrir að vera klædd í hönnunarfatnað með dýrar töskur. Þegar hún var þriggja ára gömul birti Kardashian mynd af Thompson klædd í Dior frá toppi til táar. Þá hefur hún einnig birt myndir af henni með töskur af dýrari gerðinni, þar á meðal veski frá Judith Leiber sem kostar rúmlega hálfa milljón íslenskra króna og sérmerkta 243 þúsund króna Louis Vuitton-tösku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert