Ófrísk og varð fyrir líkamssmánun á tískupöllunum

Iskra Lawrence harmar að enn þann dag í dag séu …
Iskra Lawrence harmar að enn þann dag í dag séu konur líkamssmánaðar, jafnvel þegar þær eru ófrískar. Samsett mynd

Ofurfyrirsætan Iskra Lawrence gekk á dögunum á tískupöllum á sundfatavikunni í Miami, en hún er ófrísk að sínu öðru barni og er gengin sex mánuði á leið. Þegar myndir birtust á samfélagsmiðlum frá viðburðinum varð hún hins vegar fyrir mikilli líkamssmánun og fékk ógrynni af ljótum og meiðandi athugasemdum.

Lawrence hefur verið í fyrirsætubransanum frá því hún var 12 ára. Hún er þekkt fyrir að efla jákvæða líkamsímynd og hefur haft áhrif á fjölmargar konur um allan heim, en hún hefur þó einnig hlotið mikla og ljóta gagnrýni á ferli sínum fyrir að vera í „yfirstærð“.

Er ekki árið 2024?

Fyrirsætan tók saman nokkur ummæli sem notendur skrifuðu undir myndir af henni á tískupöllunum og birti í færslu á Instagram. „Ímyndaðu þér að líkamssmána einhvern ókunnugan á netinu sem er gengin sex mánuði á leið þegar hún gengur á sundvikunni í Miami, stoltari af líkama sínum en nokkru sinni fyrr eftir að hafa reynt að verða þunguð,“ skrifaði hún.

„Ég trúi því ekki enn að árið 2024 (og með öllu sem er að gerast í heiminum) séu fitufordómar og líkamssmánun gegn ófrískri konu það besta sem þið hafið að nýta tímann ykkar í?

Ég vil þakka öllum þessum nettröllum fyrir að vera svo heltekin af mér að þau hafi ákveðið að gera athugasemdir við feita ólétta líkamann minn að mesta forgangsverkefninu,“ bætti hún við. 

View this post on Instagram

A post shared by Iskra Lawrence (@iskra)



Lawrence var stórglæsileg á tískupöllunum en hlaut samt sem áður …
Lawrence var stórglæsileg á tískupöllunum en hlaut samt sem áður ljót ummæli. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert