Vill tengjast börnunum sínum með kossum og knúsi

Lína Birgitta Sig­urðardótt­ir og Guðmund­ur Birkir Pálsson ásamt börnunum hans …
Lína Birgitta Sig­urðardótt­ir og Guðmund­ur Birkir Pálsson ásamt börnunum hans Lilju Marín, Mána Hrafni og Pálma. Ljósmynd/Aðsend

Guðmund­ur Birk­ir Páls­son, bet­ur þekkt­ur sem Gummi kíró, á þrjú börn úr fyrra sambandi; Lilju Marín 19 ára, Mána Hrafn 12 ára og Pálma Guðmundsson 7 ára. Hann er í ástarsambandi með Línu Birgittu Sigurðardóttur. Hann segir að vikurnar séu mjög ólíkar hjá þeim Línu og á það við hvort krakkahópurinn sé hjá þeim eða hjá barnsmóður hans. Á þeim vikum sem börnin eru hjá Gumma og Línu Birgittu verja þau dýrmætum tíma í samverustundir og önnur verkefni eru sett alfarið til hliðar. Vikurnar sem börnin eru hjá barnsmóður hans eru því oft þétt setnar af viðburðum og vinnufundum. 

Gummi og Lína Birgitta elska að vera í rólegheitum og skapa þægilegt, rólegt og afslappað umhverfi þegar allir koma heim úr amstri dagsins. „Ég finn það að mínum börnum líður best þannig og mér sjálfum líka,“ segir Gummi. 

Þakkæti efst í huga

„Þakklæti er mér efst í huga því það mótar okkur svo sem foreldra og allar þær stundir sem við eigum saman með börnunum okkar og það viðmót sem við höfum til þeirra. Með þakkæti efst í huga njótum við þess betur að vera með þeim og tökum allar ákvarðanir með ró, kærleik og virðingu að leiðarljósi. Ég sem 25 ára nýbakaður faðir hafði ekki þetta þakklæti heldur aðeins mótaður af uppeldi foreldra minna og lærdómi þess. Ég gerði því öll mistökin með mínu fyrsta barni og oft fullur af eftirsjá þegar ég hugsa til þess unga manns sem var samt að gera sitt besta á þeim tíma. Í dag er ég miklu rólegri og leyfi hlutum að flæða mikið betur enn áður fyrr þó svo að reglur, miðmið og skipulag sé alltaf mikilvægt. Börnin mín þrífast langbest í þannig umhverfi og einnig mér sem foreldri.“

Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og drengirnir hans Máni Hrafn og Pálmi.
Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og drengirnir hans Máni Hrafn og Pálmi. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að líta í eigin barm

„Mér finnst mikilvægt sem foreldri að vera opinn fyrir því að læra og gera betur í uppeldinu hvort maður sé á tvítugsaldri eða eins og ég á fimmtugsaldri. Lesa bækur um öll þau tímabil sem börnin eru að ganga í gegnum til að vaxa og dafna til þess að skilja þau betur og geta sett sig í þeirra aðstæður. Ég var að hugsa til þess, sem ég lærði sjálfur fyrir stuttu, þegar ég tók viðtal við Ella Egils listamann þar sem 5 ára gutti stóð upp á stól og skemmdi listaverk sem faðir hans Egill Eðvalds var að klára. Í stað þess að hundskamma náði hann í myndavél og náði fallegri ljósmynd af honum. Þetta var lykilatriði fyrir Ella og hans framtíð sem listamanns að hafa ekki fengið öskur og skammir fyrir eitthvað sem hann var stoltur af að gera á þessum tíma í hans lífi sem ungur drengur. Ótrúlega falleg saga og eitthvað sem ég tók til mín beint í hjartastað.“

Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og dóttir hans Lilja Marín pósa fyrir …
Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og dóttir hans Lilja Marín pósa fyrir spegla mynd. Ljósmynd/Aðsend

Börnin eru bestu kennararnir

„Auðmýkt er eitthvað sem mér finnst mikilvægt í uppeldinu því oft eru börnin okkar að kenna okkur að stækka og dafna sem manneskjur og einstaklingar. Við höfum ekki alltaf rétt fyrir okkur og það er svo mikilvægt að grípa sig stundum í egóinu sínu og hafa hugrekki til þess að segja við börnin okkar „fyrirgefðu hvernig ég brást við“ eða „fyrirgefðu, en þú hafðir rétt fyrir þér.“

Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og drengurinn hans Pálmi í sumarfríi á …
Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og drengurinn hans Pálmi í sumarfríi á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Tengir með koss

„Ég man svo vel eftir því þegar ég var lítill og pabbi sagði við okkur börnin að bíllinn væri að verða bensínlaus og koss eða knús myndi fylla á bílinn. Hann hægði þá á bílnum og við kysstum hann á kinnina svo bíllinn gæti haldið áfram. Þetta var hans leið á þeim tíma til að tengjast okkur. Ég finn sömu þörf á að tengjast mínum börnum með innilegu knúsi, kossum eða handabandi á leið í skólann á morgnana.“

Bræðurnir Máni Hrafn og Pálmi að njóta sín á Spáni.
Bræðurnir Máni Hrafn og Pálmi að njóta sín á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Skýrar reglur

„Mín börn þrífast best í skipulagi og skýrum reglum hvort sem það sé á heimilinu eða á ferðalagi. Ég reyni eftir bestu getu að setja niður plan fyrir daginn og vikuna svo allir séu sáttir og viti hvert hlutverk þeirra er. Einnig reyni ég svo að umbuna fyrir dugnað í lærdómi eða við heimilisstörf með því að gefa þeim það sem þau langar í eða það sem þau langar að gera. Eitt af mínum ástartungumálum eru gjafir og því er ég gjarn á að kaupa eitthvað fallegt handa þeim í tíma og ótíma.“ 

Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og dóttir hans Lilja Marín í essinu …
Guðmund­ur Birk­ir Páls­son og dóttir hans Lilja Marín í essinu sínu í París. Ljósmynd/Aðsend



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert