Þarf að borga 440 þúsund til að tryggja sér pláss í janúar

Sylvía Briem Friðjónsdóttir og ungi drengurinn hennar Henning Örn Briem.
Sylvía Briem Friðjónsdóttir og ungi drengurinn hennar Henning Örn Briem. Ljósmynd/Aðsend

Athafnakonan Sylvía Briem Friðjóns­dótt­ir vekur athygli á erfiðri stöðu foreldra á Instagram-síðu sinni. Yngsta barn hennar er fætt í janúar. Það gerir það að verkum að það er erfitt fyrir hana að fá pláss hjá dagforeldri nema hún taki frá pláss strax í haust. 

„Er orðin lúxus að fjölga sér?“ Svona hefst færsla Sylvíu á Instagram. Fer hún þar yfir að foreldrar fái samtals 12 mánuði í fæðingarorlof. Hún bendir hins vegar á að börn komist ekki inn á leikskóla fyrr en 18 til 24 mánaða. „Hver á þá að brúa þessa sex til átta mánuði?,“ spyr Sylvía. 

Borgar fyrir „loft“

Hún tekur dæmi um hversu dýrt og erfitt það getur verið að halda plássi hjá dagforeldri. 

„Dagmömmur taka ekki börn fyrr en á haustönn (september). Þú þarft þá að borga 110.000 til 250.000 fyrir pláss til að tryggja sæti. Þangað til þú kemst loksins inn í janúar. Eða hætta orlofinu fyrr. Samt er alltaf verið að segja hvað þetta fer illa með börnin að láta þau fara svona snemma í vistun,“ skrifar Sylvía. 

Hún tekur dæmi um sjálfa sig sem á barn sem er fætt í janúar á þessu ári. 

„Dæmi: Ég þarf að borga 440 þúsund til að tryggja mér pláss í janúar,“ skrifar hún. 

Lendir oftast á konum

Hún vekur einnig athygli á því að konur beri þungan af fæðingarorlofinu og það komi niður á lífeyrissparnaði þar sem þær eru lengur frá vinnu. Segir hún þær jafnvel missa vinnu eða fara að vinna á leikskóla til að koma barninu sínu að á leikskóla. Hún segir þær jafnvel taka tekjuskerðingu þar sem leikskólakennarar fái ekki nægilega góð laun. 

„Ísland er að halda konum kerfisbundið niðri. Erum við ekki komin lengra?“ spyr hún. 

Færsla Sylvíu hefur fengið mikla athygli á Instagram og hefur fólk verið duglegt að skrifa athugasemdir, líka við færsluna og deila henni. 

Hér fyrir neðan má sjá færslu Sylvíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert