Grætur mun meira eftir að hann varð faðir

Breski leikarinn Daniel Radcliffe.
Breski leikarinn Daniel Radcliffe. AFP/Angela Weiss

Leikarinn Daniel Radcliffe segir í viðtali við E News að hann gráti mun meira eftir að hann varð faðir. Óhætt er að segja að margt hafi breyst í lífi Radcliffe eftir að sonur hans kom í heiminn í apríl á síðasta ári en hann segir föðurhlutverkið vera það besta sem hann hefur upplifað. 

Í viðtalinu opnar hann sig og segist gráta mun meira en áður. Hann bætir því við að tárin geti verið gleðitár eða tár sem fylgja tilfinningarússíbananum sem nýbakaðir foreldrar upplifa.

Radcliffe segir að hann hafi notið föðurhlutverksins mikið til þessa án þess að hann hafi vitað við hverju hann ætti að búast. Hann er líka yfir sig stoltur af kærustu sinni, leikkonunni Erin Drake

Hefur talað opinskátt um föðurhlutverkið

Leikarinn hefur áður talað opinskátt um föðurhlutverkið en hann deildi því meðal annars í október á síðasta ári að honum fyndist föðurhlutverkið oft á tíðum ógnvekjandi. Þá sagði Radcliffe að ástæðan væri sú að sonur hans væri það besta, mikilvægasta og jákvæðasta sem hafi gerst í lífi hans. Þá finnst Radcliffe sérstaklega ógnvekjandi hvernig svona lítil manneskja getur algjörlega stjórnað hans líðan.

Radcliffe segir líka að hann sé óviss um hvort hann vilji að sonur hans verði leikari og kynnist kvikmyndaiðnaðinum. Hann bætir því við að fleiri störf í Hollywood, sem eru t.d. í boði baksviðs, bjóði upp á heilbrigðari lífsstíl á marga vegu

„Ekki nema hann virkilega vilji það. Ég mun ekki stoppa hann ef hann vill fara í þá átt,“ segir Radcliffe

Radcliffe og Drake kynntust árið 2012 við tökur á kvikmyndinni Kill Your Darlings. Parið hefur haldið syni sínum algjörlega frá sviðsljósinu frá því hann fæddist en þau hafa hvorki gefið upp nafn drengsins né deilt myndum af honum á samfélagsmiðlum.

People 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert