Þráir barn 46 ára en vill vinna meira

Nicole Scherzinger þráir að eignast börn en vill vinna meira …
Nicole Scherzinger þráir að eignast börn en vill vinna meira fyrst. AFP

Nicole Scherzinger skaust upp á stjörnuhimininn sem söngkona í hljómsveitinni Pussycat Dolls. Hún ræðir um lífið og barneignir í viðtali við The Times.

Leið illa sem barn

Scherzinger leið illa sem barn þar sem henni fannst hún öðruvísi. Móðir hennar er frá Havaí og á ættir að rekja til Úkraínu en faðir hennar var frá Filippseyjum. 

„Enginn leit út eins og ég. Allir voru ljóshærðir, ljósir á hörund og með blá augu. Ég var því alltaf utanveltu og feimin,“ segir Scherzinger í viðtali við The Times.

Aðskilnaðurinn mótar lífið

Faðir Scherzinger yfirgaf fjölskylduna þegar hún var lítil og hefur aðskilnaðurinn haft mikil áhrif á líðan hennar.

„Ég var svo ung. Ég er viss um að þetta hafi haft áhrif á tengslamyndun mína og hræðslu um að vera yfirgefin. Ég ólst upp hjá móður minni sem átti mig þegar hún var 18 ára. Enginn á fullkominn bakgrunn en ég bjó þó við mikla ást. Ég myndi ekki vilja hafa það öðruvísi.“

Tekur áhættur í ástarlífinu

Ástarlíf Scherzinger hefur verið í miklum blóma en frægast er þegar hún var í sambandi við Formúlu 1 kappann Lewis Hamilton en nú er hún í sambandi við Thom Evans. 

„Ég hef tekið ýmsar áhættur í samböndum. Ég er frekar meðvirk týpa og ég er enn að læra að setja mörk og yfirgefa óheilbrigð sambönd sem þjóna mér ekki lengur. Ég vil alltaf bæta mig. Það er samt alltaf þessi ótti um einmanaleika. Maður vill vera elskaður. Hver þráir það ekki?“

Þráir að eignast börn

Scherzinger segist þrá að eignast börn en hún er 46 ára gömul.

„Ég myndi elska að eiga börn. Ég hef aldrei verið í felum með það. Ég get ekki beðið. Klukkan tifar. Ég vil eignast barn en vinnan kallar. En ég þarf að búa til tíma því ég get ekki beðið.“

Scherzinger segir að móðir hennar sé ekki að þrýsta á hana með barneignir. 

„Mamma mín veit hversu mikilvæg vinnan er mér og hvað ég hef lagt mikið á mig. Hún setur traust sitt á Guð og að allt eigi sinn tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert