Ráð fyrir góða sjálfsmynd barna

Sjálfsmynd barna byrjar að þróast fyrr en margir halda eða strax frá fæðingu þar sem börn eru þá í stöðugum samskiptum við umheiminn á einn eða annan hátt. Góð sjálfsmynd er eitt það mikilvægasta sem börn taka með sér út í lífið og er mikilvæg til að lifa hamingjusömu og árangursríku lífi.

Samskipti við fjölskyldu, vini, skólafélaga, vinnufélaga eða hvern sem er í umhverfinu hafa mest áhrif á sjálfsmynd fólks. Það er því vel þess virði að nefna nokkra þætti í samskiptum sem börn læra þegar þau fara að tala og verða virkir þátttakendur í umhverfi sínu.

Sjálfsmynd barna á fyrstu árum ævinnar

Samkvæmt Heilsuveru læra börn á fyrstu árum ævinnar hvers virði þau eru með því að skynja hvernig aðrir koma fram við þau. Öll þurfum við ást, umhyggju, öryggi, samskipti og tækifæri til lærdóms á hvaða formi sem er. Ef þessum þörfum er sinnt vel læra börnin að þau skipta máli og að þau séu elskuð og velkomin. Ef börnin upplifa þetta ekki þá upplifa þau óöryggi og að þau geti ekki treyst neinum, að þau séu lítils virði og að heimurinn sé óöruggur. Þessháttar hugmyndir um lífið geta verið afar skaðlegar fyrir sjálfsmynd og andlegan líðan þeirra seinna á lífsleiðinni.

Sjálfsmynd barna á skólaaldri

Eftir því sem börn tjá sig meira eða eru jafnvel komin á skólaaldur er mikilvægt að hjálpa þeim að styrkja sjálfsmyndina með því að hlusta á þau, veita þeim jákvæða athygli, hrósa þeim reglulega fyrir það sem þau gera vel og hvetja þau til dáða.

Öryggi, aðhald og skýr fyrirmæli um góða eða slæma hegðun spila einnig stór hlutverk í mótun jákvæðrar sjálfsmyndar. Þá er mikilvægt að kenna þeim hvað ætlast er til af þeim og hvað þau geta ætlast til af öðrum.

„Hvetja þarf börn til að leysa verkefni og vandamál upp á eigin spýtur í samræmi við þroska og getu en veita þeim stuðning þegar þau þurfa. Heilbrigt sjálfstraust þroskast með því að fá tækifæri til að spreyta sig, gera mistök, læra af þeim, æfa sig og ná betri árangri,“ segir í leiðbeiningum Heilsuveru um sjálfsmynd barna. 

Óþarfi er þó fyrir foreldra að ofhugsa þetta allt saman heldur er gott að horfa á þetta sem  leiðarljós og skemmtilegt verkefni fyrir fjölskylduna. 

Hér að neðan er góður listi frá Heilsuveru sem gott er að styðjast við til að stuðla að jákvæðri sjálfsmynd barna: 

  • Færni og þjálfun
  • Hrós fyrir það sem vel er gert
  • Að vera vel tekið af öðrum
  • Umhyggja
  • Skýr rammi og mörk
  • Að upplifa það að hlustað sé á mann
  • Fá athygli og faðmlög
  • Að upplifa velgengni í íþróttum eða skóla
  • Að eiga trausta vini
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert