Áslaug Arna dansaði með Ægi og móður hans

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra dansaði með Ægi Þór Sævarssyni og móður hans, Huldu Björk Svansdóttur. Ægir Þór er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn. 

„Ég verð að segja að ég er virkilega ánægð með ráðherrana okkar á Íslandi. Ég er þakklát fyrir hvað þeir eru tilbúnir að styðja gott málefni og dansa fyrir Duchenne með okkur. Þeir eru góð fyrirmynd fyrir aðra ráðamenn í heiminum og því getum við verið stolt af,“ segir Hulda Björk.

„Nú bætist Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í hóp ráðherra frá Íslandi sem hafa dansað fyrir Duchenne. Hún veit hvað það er að eiga ástvin sem glímir við sjaldgæfan sjúkdóm þar sem systir hennar er með sjaldgæfan efnaskiptasjúkdóm. Ég kann öllum ráðherrunum frábærar þakkir fyrir að taka þátt og verð þeim ævinlega þakklát. Það er á óskalistanum mínum að fá alla ríkisstjórnina til að dansa við okkur og ég veit að það er allt hægt ef maður bara gefst ekki upp. Það var svo gaman að dansa með Áslaugu og ég er einkar hrifin af laginu sem hún valdi, það fær mig alltaf til að líða vel. Ég vona að þið ​hafið gaman af þessu og dansið með ykkur. Fyrir hönd okkar Ægis sendi ég ykkur ljós og kærleika. Megið þið eiga frábæra helgi,“ segir Hulda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert