Rannsókn lögreglu á því hvers vegna Bobbi Kristina Brown, dóttir Whitney Houston og Bobbys Brown, fannst rænulaus í baðkari fyrir rúmri viku, beinist nú að unnusta hennar og uppeldisbróður, Nick Gordon.
CNN segist hafa heimildir fyrir því að áverkar hafi fundist á líkama hennar. Enn hefur ekki verið upplýst hverjir þeir eru. Bobbi Kristina, sem er 21 árs, liggur þungt haldin á sjúkrahúsi. Henni er haldið sofandi og er í öndunarvél.
Stúlkan fannst á kafi í vatni í baðkari í íbúð sinni í Atlanta hinn 31. janúar. Hún var meðvitundarlaus. „Þá meinum við að hún andaði ekki, hafði engan hjartslátt,“ segir talsmaður Rowell-lögreglunnar við CNN.
Ekki er enn vitað hvort hún muni nokkru sinni komast til meðvitundar. Á næstu dögum mun koma í ljós hvort hún hlaut heilaskemmdir.
Í frétt CNN er haft eftir heimildarmanni sem tengist fjölskyldunni að stúlkan hafi opnað augun í stutta stund á mánudag en svo fengið flogakast sama dag.
Ættingjar Bobbi Kristinu eru nú margir hverjir komnir til Atlanta. Þeirra á meðal er amma hennar, Cissy Houston. Þá er faðir hennar, Bobby Brown, við hlið dóttur sinnar á sjúkrahúsinu.
Bobbi Kristina andaði ekki er unnustinn, Gordon, og vinur hans fundu hana meðvitundarlausa í baðkarinu. Andlit hennar snéri að botni baðkarsins, samkvæmt heimildum CNN. Þeir segjast hafa reynt endurlífgun, m.a. hjartahnoð, þar til sjúkralið kom á staðinn.
Frétt mbl.is: Í ástarsambandi við uppeldisbróður