Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hófst í gær og strax hefur talsvert stórskemmtilegra hljómsveita stigið á stokk. Ljósmyndari og blaðamaður mbl.is röltu um miðbæinn í gær og litu inn hér og þar eins og sjá má í meðfylgjandi myndasyrpu.
Meðal hljómsveita sem léku á níu stöðum í gær voru Árstíðir, Börn, Æla, Muck, Mosi Musik, Magnús Leifur, drusluhópurinn Reykjavíkurdætur og Árstíðir. Af nógu var að taka og ef gærkvöldið lofar einhverju um framhald hátíðarinnar er alveg á tæru að við eigum mikla veislu í vændum.
Það er líka vert að minna á „off venue“ dagskrána en það er engin þörf á að vera með armband til að geta notið tónlistar tímunum saman.
Fyrir utan þá dagskrá sem birt er á heimasíðu hátíðarinnar má vel búast við að hljómsveitir verði að dúkka upp hingað og þangað um bæinn og því ættu allir sem á því hafa tök bara að halda sig í 101 fram á sunnudag því það er engin leið að vita hverjir birtast hvar.
Einnig má benda á ítarlega umfjöllun um gærkvöldið í Morgunblaðinu á morgun.