Nick Gordon hefur verið fundinn sekur um að bera ábyrgð á dauða Bobbi Kristina Brown. NBC greinir frá því að Nick hafi ekki mætt ekki í dómsal í gær þegar dómurinn var kveðinn upp.
Nick og Bobbi Kristina, sem var dóttir Whitney Houston og Bobby Brown, voru kærustupar. Bobbi Kristina var 22 ára gömul þegar hún lést 26. júlí á síðasta ári. Þegar hún fannst í baðkarinu var Gordon á staðnum og hafði reynt lífgunaraðgerðir. Hún var flutt á sjúkrahús í Roswell í Georgíu og sett í öndunarvél og haldið sofandi. Tíminn leið og Bobbi Kristina sýndi engin merki um bata. Var þá ákveðið að hætta allri læknismeðferð og flytja hana á líknardeild í Duluth í Georgíu þar sem hún lést.
Mál gegn Nick var fyrst höfðað í júní 2015 þar sem hann var meðal annars ásakaður um að misnota Bobbi og hafa gefið henni „eitraðan kokteil“ og í kjölfarið drekkt henni í baðkari af köldu vatni. Tilgangurinn hafi verið að sækjast eftir arfi Bobbi. Nick hefur ekki verið ákærður á glæpsamlegan hátt, heldur er hann dæmdur fyrir að bera ábyrgð á dauða Bobbi.
Lögfræðingar Nick hafa áður neitað öllum ásökunum á hendur honum og kallað þær hneykslanlegar og óviðeigandi.
Bobby Brown, faðir Bobbi, segir í yfirlýsingu að hann sé ánægður með ákvörðun dómarans, en hann vilji enn fá svör um hvað kom nákvæmlega fyrir dóttur hans.
„Dómsúrskurðurinn segir mér að Nick Gordon sé ábyrgur. Nú þarf ég að vinna úr öllum þessum tilfinningum og treysta á Guð til að koma mér og fjölskyldu minni í gegnum þetta,“ sagði Bobby.
Bobby hefur áður gefið það út að hann telji að Nick beri ábyrgð á dauða Bobbi og Whitney, sem lést árið 2012 eftir að hafa tekið of stóran skammt fíkniefna.
„Þetta er mér engin ráðgáta. Ég veit nákvæmlega hvað kom fyrir dóttur mína. Það sem kom fyrir dóttur mína er það sama og kom fyrir Whitney. Það er aðeins ein manneskja sem var á svæðinu í bæði skiptin,“ sagði Brown í viðtali í júní 2016.