Ekki tilbúinn fyrir Kanye

Michael Kiwanuka.
Michael Kiwanuka.

Michael Kiwanuka er þrítugur tónlistarmaður sem vakti fyrst almenna athygli í heimalandi sínu Bretlandi þegar hann var valinn áhugaverðasti tónlistarmaður ársins 2012 í netkosningu breska ríkisútvarpsins, BBC's Sound of 2012. Könnun þessi er haldin árlega og ríkir jafnan mikil eftirvænting um niðurstöðuna, hvaða hljómsveit eða tónlistarmaður þyki sá mest spennandi hverju sinni. Kiwanuka hafði þá gefið út þrjár stuttskífur og leikið með Adele í tónleikaferð hennar, Adele Live, ári fyrr. Þar áður hafði hann leikið á gítar með hinum og þessum hljómsveitum, áður en hann hóf sólóferil.

Það var sannkölluð draumabyrjun hjá Kiwanuka að fá að leika með Adele og verða fyrir valinu í keppni BBC og var hann vel að heiðrinum kominn, heillandi og tilfinningaríkur tónlistarmaður sem gestir Iceland Airwaves fá að kynnast í Gamla bíói á laugardaginn, 4. nóvember, en Kiwanuka hefur leik á miðnætti. Hátíðin hefst í dag.

Skemmtilegur tími með Adele

Foreldrar Kiwanuka eru frá Úganda en fluttu til Bretlands á níunda áratugnum og þar fæddist piltur og ólst upp í Muswell Hill, úthverfi í norðurhluta London sem er m.a. þekkt sem heimaslóðir hljómsveitarinnar Kinks. Kiwanuka segist ekki hafa hlotið tónlistaruppeldi þó vissulega hafi verið leikin tónlist á heimili hans í æsku og þá m.a. popptónlist frá Úganda. Hann er spurður að því hvenær hann hafi áttað sig á því að hann vildi verða tónlistarmaður og segist hann hafa verið 11 eða 12 ára þegar það rann upp fyrir honum. Hann hafi haft mikinn áhuga á tónlist og langað að vera í hljómsveit. Áður en hann byrjaði í tónlistarnámi við Westminster-háskóla fór hann að leika á gítar með ýmsum hljómsveitum og söngvurum, m.a. djass- og sálarsöngvurum og hélt því áfram meðfram námi, auk þess að kenna á gítar. Hann segist hafa lært mikið af því.

– Árið 2011 hefur verið þér mikilvægt því þú samdir þá við Communion Records sem gaf út nokkrar stuttskífur með þér og fórst líka í tónleikaferð með hinni gríðarvinsælu Adele sem var þá nýbúin að gefa út metsöluplötuna 21. Hvernig var að spila með henni fyrir framan mörg þúsund manns? Það hlýtur að hafa verið dálítið skrítið fyrir þig?

„Jú, það var það. Fyrstu tónleikarnir voru í Noregi og það var margt sem ég kunni ekki almennilega, hljóðprufur og fleira. Þannig að ég spilaði bara fyrst í 10 eða 15 mínútur,“ svarar Kiwanuka kíminn.

– Varstu taugaóstyrkur?

„Já, ég var taugaóstyrkur en þetta var skemmtilegt,“ svarar Kiwanuka og hlær við. Hann hafi lært heilmikið á því að ferðast og leika með Adele.

Stór stund

Talið berst að netkosningu BBC og segir Kiwanuka að hún hafi verið heilmikil kynning fyrir hann og vegsemd. Að venju hafi verið tekið viðtal við hann á einni af útvarpsstöðvum BBC og hann flutt lög í beinni útsendingu. „Þetta var stór stund fyrir mig, að fá að flytja og tala um tónlistina mína við svo marga hlustendur.“

– Var þetta „stóra tækifærið“ á ferlinum?

„Já, ég held það. Ég gat komið tónlistinni minni á framfæri og fór í framhaldi í fyrstu tónleikaferðina með hljómsveitinni minni. Ég fór að leika á stærri tónleikastöðum en áður og fyrir fullu húsi. Mér hefði líklega ekki tekist það án BBC,“ segir Kiwanuka.

Fyrsta breiðskífa hans, Home Again, kom út árið 2012 á vegum Polydor Records og hlaut hún mikið lof gagnrýnenda. Á henni flytur Kiwanuka tilfinningaþrungna tónlist í anda sálartónlistar áttunda áratugarins og velgengni plötunnar minnir á velgengni annars sálartónlistarmanns, Amy Winehouse, sem Kiwanuka segir hafa haft mikil áhrif á sig. Winehouse hafi fylgt eigin sannfæringu.

Missti sjálfstraustið

Næsta breiðskífa, Love & Hate, kom út í fyrra og segist Kiwanuka hafa upplifað mikið óöryggi milli platna og skort á sjálfstrausti.

„Ég var ekki viss um hvaða stíl ég gæti þróað og fór að efast um að fólki myndi líka tónlistin mín. Viðbrögðin voru ekki nógu jákvæð frá útgáfufyrirtækinu við því sem ég var að gera á æfingum og því missti ég heilmikið sjálfstraust og tapaði gleðinni við að búa til tónlist. Ég velti því fyrir mér að hætta en fann svo aftur gleðina,“ útskýrir hann.

– Talandi um sjálfstraust þá var þér boðið til samstarfs við tónlistarmann sem býr yfir ansi miklu sjálfstrausti, Kanye West. Þú fórst á hans fund en sagðir seinna frá því að þú hefðir ekki verið tilbúinn í að vinna með honum. Hvað gerðist eiginlega?

„Ég fór í hljóðver til hans á Havaí og trúði því einfaldlega ekki að svo vinsæll og eftirsóttur tónlistarmaður kynni að meta tónlistina mína. Ég fór til hans með því hugarfari að ég þyrfti að vera einhver annar en ég er en hann vildi bara að ég væri ég sjálfur og héldi mínu striki. Ég skil þetta betur núna en gerði það ekki þá og var ekki tilbúinn,“ svarar Kiwanuka.

Svartur maður í hvítum heimi

– Lagatextarnir þínir eru að mestu byggðir á þinni eigin reynslu, sjálfsævisögulegir. Geturðu gefið mér dæmi um hvað þú ert að syngja?

„Já, ætli besta dæmið sé ekki „Black Man in a White World“ en í því er ég að syngja um hvernig var að alast upp í Muswell Hill, tónlistarbransann og fólkið sem kemur á tónleikana mína. Það fjallar um ákveðinn menningarárekstur, þeldökkan mann sem ólst upp með svipuðum hætti og flest hvítt miðstéttarfólk,“ svarar Kiwanuka. Hann hafi líka verið að velta fyrir sér innra skipulagi þess samfélags sem hann hafi alist upp í. „Hvert sem ég fór hitti ég aldrei fólk eins og foreldra mína heldur afkomendur eldri kynslóða sem ólust upp í hverfinu og því í öðrum menningarheimi en fjölskylda mín.“

– Hefur þú upplifað rasisma í Bretlandi?

„Já en þó vægan. Hann er annars konar í Bretlandi en Bandaríkjunum. Ég átti hamingjusama æsku og varð aldrei fyrir fordómum af hálfu vina minna, foreldra þeirra eða í skóla heldur birtust fordómarnir meira í fyrirfram gefnum hugmyndum fólks.“

Mikil áhrif Big Little Lies

– Eitt af lögunum þínum, „Cold Little Heart“, var valið sem upphafslag vinsælla sjónvarpsþátta HBO, Big Little Lies, sem milljónir manna hafa horft á. Það hlýtur að hafa aukið vinsældir þínar, ekki satt? Ég uppgötvaði tónlistina þína t.d. út frá þessu lagi og þessum þáttum og býst við að það sama eigi við um marga áhorfendur þáttanna.

„Já, það á við um flesta sem koma á tónleika með mér núna. Ég er að spila fyrir álíka marga og Adele gerði árið 2011, um 2.000 manns og ég held að það megi að miklu leyti þakka þáttunum. Það horfðu svo margir á þá um allan heim og heyrðu lagið.

Það er reyndar skondið frá því að segja að í síðustu tónleikaferð lék ég ekki lagið á einum tónleikanna út af bilun í tækjabúnaði. Umboðsmaðurinn minn fékk næsta dag tölvupóst frá pirruðum tónleikagesti sem furðaði sig á því að ég hefði ekki spilað lagið,“ segir Kiwanuka kíminn. Hann hafi ekki upplifað það áður að eiga svo vinsælt lag að honum bæri skylda til að spila það á tónleikum.

Fimm manna hljómsveit kemur fram með Kiwanuka á Iceland Airwaves og blaðamanni leikur forvitni á því hvort leikin verði ný lög. Kiwanuka segir líklegt að hann laumi einu eða tveimur inn í efnisskrána. En er hann farinn að vinna að næstu plötu? „Já, ég hef verið að mæta í hljóðver milli tónleika en vil ekki segja of mikið um hana á þessu stigi,“ segir Kiwanuka að lokum.

Þeir sem vilja kynna sér tónlist Kiwanuka geta gert það á vefsíðu hans, michaelkiwanuka.com og á YouTube og Spotify.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir