Friends-stjarnan Courtney Cox gladdi aðdáendur sína í lok nóvember þegar hún tróð kalkún á höfuðið á sér. Cox endurgerði þar með ógleymanlegt atriði úr Friends. Að troða alvörukalkún á höfuðið er þó ekki auðvelt eins og Cox útskýrði í sérstöku myndbandi á instagram á dögunum.
Leikkonan netta sýndi hvernig hún fór að því að troða kalkúninum á höfuðið á sér. Þar má sjá að hún reyndi bæði að nota handklæði og plastpoka til þess að gera veruna inni í kalkúninum bærilegri. Þrátt fyrir að vera með gott aðstoðarfólk reyndist afar erfitt að koma kalkúninum á. Í nýja myndbandinu má heyra hana segja hversu erfitt þetta sé og að hún geti ekki andað.
Upphaflega atriðið er í fimmtu þáttaröð af sjónvarpsþáttunum vinsælu. Höfundur þáttanna greindi frá því síðar að Cox hefði ekki verið með alvöru kalkún á höfðinu í tökum á þættinum.