Hver var grímuklæddi þrjóturinn?

MF Doom eða Daniel Dumile var fæddur árið 1971 og …
MF Doom eða Daniel Dumile var fæddur árið 1971 og var afar afkastamikill rappari, textasmiður og upptökustjóri. AFP

Fréttir af andláti rapparans MF Doom hafa hrist upp í hip-hopheimum enda var Doom einungis 49 ára gamall og hafði á undanförnum áratugum skapað sér sess sem einn hæfileikaríkasti rímnasmiður sem fram hefur komið þar sem gjarnan er talað um ljóðræna nálgun Doom á rappið. Sjálfur leit hann á textagerðina sem einskonar sagnabálk þar sem fjölmargar persónur komu við sögu. Með ólíkum persónum komu ólíkir möguleikar í frásögnina. 

MF Doom hét réttu nafni Daniel Dumile og var fæddur í London en flutti snemma til New York með foreldrum sínum sem voru afrísk. Móðir hans var frá Trinidad og faðir hans frá Zimbabwe. Ferillinn hófst undir lok níunda áratugarins og síðasta skráða útgáfa hans á Spotify er lag sem hann gerði ásamt kanadísku djass/hip-hop sveitinni BADBADNOTGOOD fyrir tölvuleikinn Grand Theft Auto og kom út undir lok síðasta árs. Afköstin hjá honum voru hvað mest á fyrri áratug aldarinnar þó vissulega sé mikið kjöt á beinunum bæði fyrir og eftir það.

Fyrstu skrefin í tónlistargeiranum steig Dumile með rapp-þríeykinu KMD þar sem bróðir hans sem kallaði sig Subroc var einnig meðlimur. Sveitin gaf út undir merkjum Elektra útgáfunnar en skömmu fyrir útgáfu Black Bastards, annarrar skífu sveitarinnar, árið 1993 lést Subroc þegar hann varð fyrir bíl. Bræðurnir höfðu deilt hlutverkum í upptökustjórn, hljóðsmölun og framleiðslu ásamt því að rappa og semja texta. Samningi sveitarinnar við Elektra var sagt upp einungis viku síðar og hætt var við útgáfuna. Strákarnir í jakkafötunum voru ekki að láta tilfinningar flækja hlutina fyrir sér. En opinberlega ástæðan hefur gjarnan verið gefin upp sem eldfimt umslag plötunnar þar sem Sambókarakter hangir í gálga. Dumile hefur útskýrir hugmyndina á bak við umslagið í ráðstefnuspjalli sem er að finna í greininni. Í grunninn var hugsunin sú að þarna væru það rasísk viðhorf sem dingluðu í gálganum. KMD var verulega flott band sem fólk ætti hiklaust að kynna sér. 

Dumile hélt áfram að rækta listina þrátt fyrir áfallið og kom t.a.m. reglulega fram á klúbbakvöldum í New York þar sem hann fór að þreifa sig áfram með að hylja andlit sitt á sviði. Þær þreifingar skiluðu sér í hliðarsjálfinu MF Doom sem á rætur sínar í Marvel-persónunni Dr. Doom en framburðurinn á Dumile er einnig svipaður, Doomile. Þetta virðist hafa opnað ýmsar dyr í sköpuninni því nú fóru hlutir að gerast og töluvert er til af gæðatónlist sem hann framleiddi í kringum aldamótin. Platan Operation: Doomsday frá árinu 1999 vakti verðskuldaða athygli og nú var ferillinn farinn að hreyfast í rétta átt. Tilvísanir Doom í vísindaskáldskap og hljóðsmölun frá gullaldartímabili bandarísks sjónvarps, yfirbragð tónlistarinnar og silkimjúkur hljómurinn skapaði honum sérstöðu.

En snilligáfan lá ávallt í rímnaflæði Dumiles, stíllinn, orðavalið og myndmálið sem hann kallar fram í textanum tónar fullkomnlega við fjölbreytt litróf tónlistarinnar í bakgrunni. Þar ægir saman persónum og á ferlinum urðu þær fjölmargar. Zev Love X, King Geedorah, King Ghidra, Viktor Vaughn, Metal Fingers, Doom og Metal Face bjuggu til einhverskonar súrrealískan hip-hop smurðan sagnabálk í bundnu máli. Alveg magnað dæmi. 

Í áhugaverðu spjalli sem er að finna í spilaranum hér að ofan fer Doom yfir grímuna og ástæðurnar fyrir notkuninni:

„Að mínu viti var þetta á þeim tíma sem hlutirnir fóru að snúast meira um útlit femur enn hljóminn og innihaldið. Þegar ég var að byrja vissi maður ekkert hvernig rapparar litu út fyrr en maður sá þá koma fram. Áður en myndböndin komu til sögunnar og þá snerist allt um hljóminn á plötunni og hæfileikana. Eftir því sem hip-hopið varð meiri gróðamaskína fékk útlitið meira vægi í sölu á vörunni. Ég vildi nálgast þetta þannig að útlitið væri aukaatriði, uppreisn gegn útlitsvæðingu hip-hopsins.“

Ferskt sjónarhorn í geira þar sem áherslur á efnishyggju, útlitsdýrkun, frægðardýrkun, metingur og mont hefur riðið röftum í gegn um tíðina. Svokallað glam-hop.     

Samstarf Doom og taktasénísins Madlib á plötunni Madvillainy frá árinu 2004 markaði þáttaskil sem kom ferlinum almennilega á flug og er almennt talið vera meistaraverkið á ferlinum. Mögnuð plata sem rennur í gegn í ómótstæðilegu flæði enda hafa þeir félagar lýst nálguninni sem slíku. Flæði þar sem lítið var rætt um hvernig hlutirnir ættu að vera eða hverju ætti að ná fram. Pitchfork gerðu heilmikla umföllun um plötuna á tíu ára afmæli hennar.

Lítið hefur komið fram um dánarorsök en þó virðist sem Dumile hafi látist 31. október þó tíðindin hafi ekki verið gerð opinber fyrr en Jasmine Dumile, eiginkona hans, tilkynnti um andlátið á gamlársdag. Dumile fjölskyldan hefur mátt ganga í gegnum ýmislegt því í desember 2017 lést King Malachi Ezekiel Dumile fjórtán ára gamall sonur Doom en það hefur lítið verið sagt frá því nánar enda hafði Dumile greinilega lítinn áhuga á sviðsljósinu.  Eins og vani er við andlát listamanna sem haf náð að snerta svo mikið af fólki hafa samfélagsmiðlar verið yfirfullir af myndum, greinum, tístum og minningarorða um Dumile og hér fyrir neðan má sjá brot af því og upptöku af tónleikum þar sem okkar maður er í essinu sínu.

View this post on Instagram

A post shared by MF DOOM. ALL CAPS. (@mfdoom)

View this post on Instagram

A post shared by Questlove (@questlove)




       

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Unnur Lilja Aradóttir