Bíllinn er þriðja druslan

Úr kvikmyndinni Hvernig á að vera klassadrusla.
Úr kvikmyndinni Hvernig á að vera klassadrusla.

Hvernig á að vera klassadrusla nefnist ný íslensk kvikmynd sem sýningar hefjast á á morgun en býsna langt er liðið frá því íslensk kvikmynd var frumsýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Til stóð að frumsýna myndina 3. apríl í fyrra en frumsýningu var ítrekað frestað vegna kófsins.
Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Ólöf Birna Torfadóttir og með aðalhlutverk fara Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir.

Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir í kvikmyndinni.
Ásta Júlía Elíasdóttir og Ylfa Marín Haraldsdóttir í kvikmyndinni.

Í myndinni segir af Karen, „lífsreyndri sveitapíu sem kemur á vel pimpaða bílnum sínum að sækja vinkonu sína Tönju, fáláta borgarsnót, sem akkúrat á því augnabliki er að lemja sokkum í andlitið á kærastanum og hætta með honum enn eina ferðina“, eins og því er lýst á vef Senu sem dreifir myndinni. Vinkonurnar halda út á land til starfa á á stóru sveitabýli yfir sumarið. Tanja fellur fljótt fyrir myndarlegum sveitapilti en gengur illa að heilla hann. Á meðan á þeim tilraunum gengur dáist hún að því hvernig Karen virðist geta sofið hjá hverjum sem er án væntinga eða eftirmála, eins og því er lýst. Tanja biður því Kareni um að kenna sér að vera eins og hún, klassadrusla.

Ólöf Birna Torfadóttir, leikstjóri og handritshöfundur.
Ólöf Birna Torfadóttir, leikstjóri og handritshöfundur.


Neikvætt orð gert jákvætt


„Það er svolítið „attitude“ í þessum titli,“ segir Ólöf þegar blaðamaður spyr frekar út í titilinn og bætir við að hún hafi persónulega reynslu af notkun orðsins. „Ég bjó í sveit þegar ég var yngri og kom úr frekar fátækri fjölskyldu og maður var talinn druslulegur af því maður var ekki í nýjustu fötunum og svona,“ útskýrir Ólöf og bendir á fleiri niðrandi merkingar orðsins en ein þeirra er, eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók, „lauslát kona“. Ólöf segir að með þessari notkun orðsins í titlinum og myndinni sé valdið tekið af þeim sem noti það í niðrandi merkingu og því snúið yfir í að vera „cool“. Þá sé bíll Karenar „þriðja druslan“ í myndinni.
Um þær vinkonur Tönju og Karen segir Ólöf að þær séu ólíkir persónuleikar. Sveitastelpan Karen er lífsreynd og áhyggjulaus, öruggari með sig, en Tanja er feimnari og hlédrægari og hefur lítið farið út fyrir borgarmörkin um ævina. „Eftir svolítið erfiða fyrstu nótt hjá borgarstelpunni biður hún hina um að kenna sér að vera meira eins og hún, að vera alveg sama og hætta að pæla í afleiðingunum og hvað fólki finnst. Það er svolítið kómedían í þessu,“ útskýrir Ólöf.

Ólöf með leikurum og tökuliði á lokadegi takna.
Ólöf með leikurum og tökuliði á lokadegi takna.

Þekktust fyrir 


Aðalleikkonurnar tvær voru í leiklistarnámi í Kvikmyndaskóla Íslands og fóru báðar með lítil hlutverk í Síðustu veiðiferðinni. Hlutverk þeirra í kvikmynd Ólafar eru fyrstu aðalhlutverk beggja og segist Ólöf hafa unnið með þeim áður. „Ég kynntist Ástu þegar ég réð hana í aðalhlutverk í stuttmynd sem ég var að búa til. Þar unnum við fyrst saman og svo aðstoðaði ég hana á setti hjá Ylfu þegar hún var að útskrifast úr kvikmyndaskólanum. Á því setti var Ásta einmitt að leika með henni, þær eru búnar að vera vinkonur í svolítinn tíma og þar kviknaði hugmyndin að hafa þær aðalkarakterana,“ segir Ólöf.

Fékk áhugann í sminki 


Ólöf stundaði nám í handritaskrifum og leikstjórn við Kvikmyndaskóla Íslands og segist hafa fengið áhuga á kvikmyndagerð þegar hún var í förðunarnámi. „Ég var mikið að sminka í stuttmyndum og svoleiðis og þar kviknaði áhuginn á því að búa til mínar eigin sögur,“ segir hún frá.


Frumsýna átti myndina í byrjun apríl í fyrra, sem fyrr segir, og segir Ólöf að frumsýningardagurinn, 5. janúar 2021, sé í raun sá fjórði sem settur hafi verið fyrir myndina. En voru þá einhverjar breytingar gerðar á henni á þessum tíma sem leið frá upphaflegum frumsýningardegi til þess núverandi? „Við nýttum alveg tímann,“ svarar Ólöf ,að myndin hafi verið tekin í gegn og löguð til. „Mér finnst hún koma betur út fyrir vikið,“ segir Ólöf.

Hlaðvarpsþáttinn má finna hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir