Natan Dagur hafði betur í einvígi í The Voice í Noregi í kvöld og er þar með kominn áfram í þriðju umferð keppninnar. Natan keppti við söngkonuna Alexu, og sungu þau saman lagið Take me to Church.
„Þetta kom mikið betur út en ég átti von á, þetta var nánast gallalaust,“ sagði Natan Dagur í samtali við mbl.is eftir að þættinum lauk í kvöld. Einvígið var tekið upp í stúdíói fyrir nokkrum vikum svo Natan rifjar upp hvernig honum leið þegar einvígið sjálft fór fram.
„Eftir upptöku einvígsins fór ég í viðtal og ég spurður hvernig mér liði; mér leið bara ábalavelbala,“ sagði Natan og vísaði í fræg mismæli keppanda í íslenska Idolinu forðum daga.
Natan segir að mótkeppandinn sinn hafi ekki verið neitt lamb að leika sér við. Hún hafi reynt að grafa undan öryggi hans og ekki verið til í að vinna verkefnið, sem krafðist nóþokkurs undirbúnings, í samvinnu. „Ég veit ekki hvað var í gangi hjá henni, en hún var augljóslega að reyna að brjóta mig niður. Kannski er hún bara óörugg,“ segir Natan. Hann segir sigurinn ekki síður hafa verið sætan vegna þess að það tókst ekki hjá mótherjanum.
„Eins og sést á upptökunni þá er hún svolítið að reyna að öskra yfir mig í laginu,“ segir Natan og segir Alexu ekki hafa nýtt tækifæri til að lyfta flutningi lagsins upp, heldur hafi hún reynt að „yfirsyngja“ hann.
Fyrsta stig keppninnar er svokölluð blind áheyrnarprufa, þar sem Natan Dagur sló rækilega í gegn og grætti dómara þáttarins. Allir dómarar og söngþjálfararnir föluðu eftir að fá hann með sér í lið. Myndband með áheyrnarprufunni hefur nú hlotið yfir milljón áhorf á myndbandsveitunni Youtube og yfir 400 þúsund hlustanir á tónlistaveitunni Spotify.
Upptöku af áheyrnarprufu Natans má sjá hér:
Það var bróðir Natans sem skráði hann upphaflega í keppnina. Natan segir að hann hafi haft áhuga á söng frá því að hann var krakki. Á aldrinum 11 og 12 ára, þegar stjarna Justin Bieber reis, hafi hann fyllst aðdáunar af honum og langað að vera eins og hann.
„Ég fór að gera Youtube myndbönd sjálfur þegar ég var ellefu eða tólf ára. Mér fannst það mjög gaman og ég var mjög spenntur fyrir þessu öllu saman. Það var erfitt að búa í litlu samfélagi eins og Akureyri. Það voru mínir eigin vinir sem gerðu mikið grín að mér til dæmis á fótboltaæfingum. Þeir fóru að gera grín að því sem ég sagði á ensku og svona, endurtekið á asnalegan hátt. Eftir það læsti einn félagi minn sig inni í tónlistarherberginu og spilaði mig í matsalnum fyrir allan skólann. Þá varð ég mjög lítill í mér, hætti að gera myndbönd og hætti bara að syngja yfir höfuð.“
Hann segir vendipunkt í sínum tónlistaráhuga síðan orðið þegar hann var 17 ára og flutti til Ítalíu. „Þá byrjaði ég að taka sönginn aðeins upp aftur. Ég flutti bara einn út, frá öllum sem ég þekkti á Íslandi, var einn í skóla og var bara mikið einn. Pabbi gaf mér ukulele áður en hann fór aftur heim, en hann var hjá mér fyrstu vikurnar. Ég fór að taka það upp, syngja með og finna mig aftur í söngnum. Þá fór ég að gera aftur myndbönd og fékk mjög góð viðbrögð við þeim.“
Natan segir að hann hafi síðan æft sig mikið fyrir framan bróður sinn og vini hans og þeir hafi hvatt hann áfram. Þannig kom það til að bróðir Natans skráði hann í keppnina þar sem hann eltir nú drauma sína um að vera söngvari.
Sjá má upptöku af frammistöðu kvöldsins hér: