„Þetta eru mjög íslenskar konur“

Helga Braga Jónsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gagga Jónsdóttir, Arndís Hrönn …
Helga Braga Jónsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gagga Jónsdóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Jóhanna Vigdís Arnardóttir á hátíðarforsýningu á Saumaklúbbnum 27. maí. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Sýningar hófust í gær, 2. júní, á nýrri íslenskri gamanmynd, Saumaklúbbnum, sem leikstýrt var af Göggu Jónsdóttur sem skrifaði einnig handrit myndarinnar með Snjólaugu Lúðvíksdóttur, handritshöfundi og uppistandara. Í myndinni segir af hópi vinkvenna í saumaklúbbi sem halda saman í sumarbústað yfir helgi í þeim tilgangi að skemmta sér og slaka á og hafa það huggulegt. Með í för er samstarfskona einnar þeirra og kárnar fljótlega gamanið þegar gamlar syndir koma upp á yfirborðið og uppgjör virðist óumflýjanlegt.

Með hlutverk kvennanna fara þær Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Arndís Egilsdóttir og Helga Braga Jónsdóttir og nokkrir karlar koma einnig við sögu í litlum hlutverkum. Myndin er framleidd af þeim Erni Marinó Arnarsyni og Þorkeli Harðarsyni sem frumsýndu í fyrra hina vinsælu gamanmynd Síðasta veiðiferðin og framleiddu einnig Ömmu Hófí. Í Síðustu veiðiferðinni létu miðaldra karlar eins og kjánar en nú eru það miðaldra konur.

Nauðsynlegt að grínast

Saumaklúbburinn er að mörgu leyti svar kvenna við karlamyndinni Síðasta veiðiferðin og segist Gagga, í spjalli við umsjónarmann kvikmyndahlaðvarpsins Bíós, ekki hafa verið ein um þá hugmynd að gera þyrfti kvennamynd á móti karlamyndinni. Hún hafi sent Marinó og Þorkeli skilaboð degi eftir að hafa séð myndina og áttuðu þeir sig strax á því hvað klukkan sló. Nú eru tökur hafnar á annarri gamanmynd þeirra félaga í Veiðiferða-syrpunni og fleiri eru fyrirhugaðar.

Saumaklúbburinn er fyrsta kvikmyndin sem Gagga leikstýrir en hún hefur áður leikstýrt sjónvarpsþáttum, tveimur þáttum í gamandramasyrpunni Borgarstjórinn. Gagga er spurð að því hvort húmorinn sé ekki töluvert öðruvísi í Saumaklúbbnum. „Já og nei,“ svarar hún, „það eru alveg alvarlegheit þarna á bakvið.“ Henni hafi enda verið bent á að ekkert sé fyndnara en óhamingjan. „Það er svolítið þannig,“ segir hún kímin og að hún viti til þess að fólk í háalvarlegum störfum þurfi að slá á létta strengi til að draga úr álagi.


Ólíkar konur 


Gagga segist hafa lagt fram grunnhugmynd að handritinu og þær Snjólaug unnið út frá henni og búið til persónur, ólíkar týpur kvenna. „Þetta eru konur sem við þekkjum, smá erkitýpur kannski, gamlar vinkonur og þetta eru mjög íslenskar konur, myndi ég segja. Þær eru ólíkar. Það er múltítaskarinn sem er kappsfull og fyrrum íþróttakona sem er alltaf með allt á fullu og stoppar aldrei. Svo er það verkakonan og gamla skutlan.“

Heyra má viðtalið í heild í þættinum hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir