Allt öðruvísi en venjulegur skóli

Kristófer Liljar Fannarsson.
Kristófer Liljar Fannarsson.

Kristófer Liljar Fannarsson, nemandi við Kvikmyndaskóla Íslands, segir að skólinn sé allt öðruvísi en venjulegur skóli. Kristófer Liljar er nú að klára sitt annað ár á framleiðslu- og leikstjórnarbraut við skólann.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Þá þekkti ég engan í þessum bransa og vissi ekki hvernig ég ætti að koma mér í hann. Mig langaði að læra grunninn að kvikmyndagerð og það sem heillaði mig mest var Kvikmyndaskólinn,“ segir Kristófer Liljar.

Námið er ólíkt öðru námi að því leyti að það er að mestu verklegt. Þegar nemendur eru ekki að vinna að sínum eigin verkefnum eru þeir að hjálpa öðrum nemendum að vinna í þeirra verkefnum. Þegar blaðamaður heyrði í Kristófer var hann einmitt að vinna í ljósum í verkefni hjá samnemanda sínum. 

Allir vinna saman

Kristófer segir stemninguna í skólanum vera góða, enda námið þannig upp sett að allir þurfa að kynnast og vinna saman. „Þetta er allt öðruvísi en venjulegur skóli. Þetta er mjög mikið verklegt og maður þarf að kynnast fólki,“ segir hann.

„Maður lærir líka einhvernvegin allt sem kemur að kvikmyndagerð, lýsing, hljóð, klipp, leikstjórn og líka leiklist. Maður þarf líka að kunna að gera allt til að geta hjálpað öðrum. Eins og til dæmis hljóð, ég var meira og minna í hljóði og aðstoð framleiðslu fyrsta árið mitt,“ segir Kristófer Liljar.

Hann segir nemendur líka fá frábært tækifæri til að starfa í kvikmyndabransanum á Íslandi og hefur hann fengið verkefni hjá íslenskum framleiðslufyrirtækjum á síðustu árum í gegnum fólk sem hann hefur unnið með í verkefnum í skólanum. 

Skapandi og krefjandi

Mikill uppgangur hefur verið í kvikmyndaframleiðslu á Íslandi undanfarin ár. Gott dæmi um það er að verið er að taka upp fjórðu þáttaröð True Detective hér á landi um þessar mundir. Auk þess er fjöldi erlendra kvikmyndaverkefna í gangi hér á landi. 

Það gefur nemendum í Kvikmyndaskólanum mikið að Ísland sé orðinn að ákjósanlegum tökustað í kvikmyndabransanum. Kristófer Liljar bendir á að á sama tíma og stór verkefni séu unnin hér séu mörg innlend verkefni einnig í gangi.

„Það hafa aldrei verið jafn mikið af íslenskum verkefnum í gangi á sama tíma og því hefur aldrei verið betra tækifæri til að komast inn í íslenska bransann,“ segir Kristófer Liljar. Sjálfur hefur hann unnið í erlendum verkefnum hjá True North og Pegasus. 

„Það er alltaf gaman að vera á setti. Að fá að taka þátt í framleiðslu á einhverju, að fá að gera eitthvað skapandi sem er á sama tíma krefjandi, það er mjög gefandi.“

Stuttmynd eftir Maríu Matthíasdóttur sem Kristófer Liljar kom að.

 

Lokaverkefnið í pípunum

Um þessar mundir er Kristófer Liljar að vinna að útskriftarmyndinni sinni sem hann lýsir sem fjölskylduþriller. „Hún fjallar um tvo bræður sem hittast eftir að einhver atburður kemur upp á milli þeirra. Þeir eru að hittast til að ná sáttum, en svo koma upp fullt af vandamálum. Svo eru þeir líka vampírur, en þetta vampírudæmi er bara til að velta upp fjölskyldudrama hjá þeim sem þurfa að lifa í 200 ár með því,“ segir Kristófer Liljar. 

Hann segir mikið þurfa að ganga upp til þess að svona verkefni líti dagsins ljós og er einmitt að safna fyrir framleiðslu myndarinnar núna. „Ég er mjög mikið að treysta á góðmennsku annarra og redda einhverjum greiðum, eða athuga hvort maður þekki einhvern sem getur hjálpað manni,“ segir hann. Þau sem vilja styrkja hann geta lagt inn á bankareikning: 0370-26-036331 kennitala: 020700-2890.

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Loka