Staðfestir framboð 2024

Fjöllistamaðurinn Kanye West segist ætla að bjóða sig fram til …
Fjöllistamaðurinn Kanye West segist ætla að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2024. AFP

Fjöllistamaðurinn Kanye West hefur staðfest að hann ætli að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2024. 

West, sem breytti nafni sínu í Ye á síðasta ári, birti myndband af framboðsmerki sínu á samfélagsmiðlum í dag og skrifaði undir Ye 24.

West segist hafa beðið Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, að vera félagi hans í framboðinu. Trump sjálfur tilkynnti nýverið að hann ætlaði aftur að bjóða sig fram til forseta árið 2024 eftir að Joe Biden hafði betur í kosningunum 2020.

Segir Trump hafa öskrað

Þetta er í annað skipti sem West býður sig fram til forseta, en hann gerði það síðast árið 2020. Hann hafði ekki erindi sem erfiði og hlaut aðeins 70 þúsund atkvæði á landsvísu. 

Fyrr í vikunni sást West í heimsókn í golfklúbbi Trump, Mar-A-Lago í Flórída, ásamt Nick Fuentes. 

Í myndbandi sem West nefndi Mar-A-Lago-skýrslan sagði West: „Trump byrjaði á að öskra á mig við borðið og sagði mér að ég myndi tapa. Hefur það nokkurn tíman virkað fyrir einhvern?“.

Gagnrýndur harðlega

Framboð Wests hefur verið gagnrýnt í fjölmiðlum í dag, en gustað hefur um fjöllistamanninn undanfarna mánuði. 

Hefur hann verið gagnrýndur fyrir andgyðingleg ummæli á samfélagsmiðlum og í viðtölum. Var hann um tíma settur í bann á Twitter og Instagram vegna ummæla sinna. Þá klæddist hann bol með áletruninni hvít líf skipta máli (e. White Lives Matter) á tískuvikunni í París við lítinn fögnuð. 

Hvert fyrirtækið á eftir öðru hafa sagt upp samningum sínum við hann, þar á meðal eru Gap, Adidas og Balenciaga, auk þess sem viðskiptabanki hann rifti samningi sínum við hann. 

Í vikunni fjallaði tímaritið Rolling Stone um ásakanir gegn West. Fyrrverandi starfsmenn Adidas og Yeezy, samstarfslínu West og Adidas, sögðu hann hafa viðhaldið eitruðu andrúmslofti á vinnustaðnum og meðal annars sýnt klám á fundum. Adidas tilkynnti í kjölfarið að ráðist yrði í rannsókn á ummælum fyrrverandi starfsmanna. 

Kanye West bauð sig fram til forseta árið 2020 en …
Kanye West bauð sig fram til forseta árið 2020 en hafði ekki erindi sem erfiði. AFP

Bauð fram í tólf ríkjum 2020

West varð ekki kápan úr því klæðinu í síðustu forsetakosningum. Var hann of seinn að tilkynna framboð sitt og komst ekki á kjörseðla í að minnsta kosti sex ríkjum. 

Hélt hann aðeins einn kosningafund en á þeim fundi brast hann í grát og ræddi um þungunarrof. Sagði hann meðal annars að hann og þáverandi eiginkona hans, Kim Kardashian, hafi rætt þungunarrof þegar hún gekk með elstu dóttur þeirra, North. 

Þá greiddi hann aðeins fyrir tvær sjónvarpauglýsingar og komst í lokin aðeins á frambjóðendalista í tólf ríkjum. 

Nú virðist West hins vegar búinn að spenna á sig bæði belti og axlabönd. Gaf hann til kynna að hann væri búinn að ráða Milo Yiannopoulos, sem er hægri sinnaður stjórnmálaskýrandi frá Bretlandi, sem kosningastjóra sinn. Yiannopoulos hefur meðal annars unnið undir Marjorie Taylor Green, þingkonu repúblikana.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir