Kvikmynd Stevens Spielbergs, The Fablemans, var valin besta dramamyndin á Golden Globe-hátíðinni í Bandaríkjunum í nótt, auk þess sem hann var valinn besti leikstjórinn.
Myndin er lauslega byggð á uppvaxtarárum Spielbergs og fyrstu árum hans sem leikstjóri.
The Banshees of Inisherin var kjörin besta myndin í flokki gamanmynda og söngleikja.
Hildur Guðnadóttir, sem var tilnefnd fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Women Talking, varð að lúta í lægra haldi fyrir Justin Hurwitz og tónlist hans í myndinni Babylon.
Cate Blanchett var valin besta dramaleikkonan fyrir hlutverk sitt í Tár og Austin Butler bar sigur úr býtum fyrir frammistöðu sína í Elvis.
Í gaman- og söngleikjaflokknum vann Michelle Yeoh fyrir hlutverk sitt í Everything Everywhere All At Once og Colin Farrell fyrir leik sinn í The Banshees of Inisherin. Síðarnefnda myndin hlaut ein verðlaun til viðbótar, eða fyrir handrit Martins McDonagh.
Argentina, 1985 frá Argentínu var kjörin besta erlenda myndin og bestu sjónvarpsþættirnir voru House of the Dragon. Í dramaflokki fyrir bestan leik í sjónvarpsþáttum vann Zendaya fyrir Euphoria og Kevin Costner fyrir Yellowstone. Bestu þættirnir í gaman- eða söngleikjaflokki voru Abbott Elementary.
Í þeim flokki hlutu þau Quinta Brunson fyrir Abbot Elementary og Jeremy Allen White fyrir The Bear gylltu styttuna fyrir bestan leik.
Gamanleikarinn Eddie Murphy hlaut heiðursverðlaun á hátíðinni, sem var haldin í Beverly Hills.
Jerrod Carmichael var kynnir og byrjaði á því að gera grín að samtökum erlendra fréttamanna, HFPA, sem standa fyrir Golden Globe-verðlaununum. „Ég ætla ekki að segja að þetta sé rasísk stofnun en það var enginn svört manneskja í henni fyrr en George Floyd dó. Þið megið gera það sem þið viljið við þessar upplýsingar,“ sagði hann.