„Ekki taka þig í gegn í janúar“

Hjá mörgum fer hreyfing ansi aftarlega á verkefnalistann í desember, enda er álagið alla jafna mikið og nóg um að vera. Til að bæta upp hreyfingarleysið er ekki óalgengt að fólk setji sér stór markmið fyrir komandi ár og ætli að taka sig í gegn í janúar. Þjálfaranum Indíönu Nönnu Jóhannsdóttur er það mikið hjartans mál að snúa þessum hugsunarhætti við, enda sé sjaldan jafn mikilvægt fyrir fólk að hreyfa og næra sig eins og á álagspunktum sem þessum. 

Í tilefni af því að fyrsta helgin í aðventunni er gengin í garð deildi Indíana skotheldri 30 mínútna æfingu með lesendum úr æfingarprógrammi hennar sem tilvalið er að taka með henni um helgina. Þá gefur Indíana lesendum einnig góð ráð til að halda í æfingarútínuna og næra sig vel yfir hátíðirnar.

Indíana er þjálfari, mamma og matgæðingur sem hefur mikla ástríðu fyrir því að einfalda hreyfingu og mataræði fyrir fólki. Hún er stofnandi og yfirþjálfari GoMove Iceland sem opnaði æfingastöð í Kársnesinu í febrúar síðastliðnum. Hún hefur alla tíð haft áhuga á hreyfingu og spilaði handbolta alla sína æsku. Ástríðan fyrir styrktarþjálfun og mataræði kviknaði hins vegar þegar hún var tvítug að læra lögfræði í háskólanum, en þá lagði hún handboltaskóna á hilluna og fór að fikra sig áfram sjálf í æfingum og eldhúsinu.  

„Ef ekki fyrir líkamann þá helst fyrir hausinn“

„Í desember er mikið um ánægjuleg hátíðarhöld og hittinga en á sama tíma er líka mikið um skilafresti í vinnu eða skóla og álagið því mikið. Tíminn virðist oft líða hraðar í desember og þá er alltaf auðveldara að setja okkur og hvað þá æfingarútínuna okkar aftast á verkefnalistann. Við höfum ekki allan tímann í heiminum til að æfa og einhvern veginn fer okkar „self care“ oft fyrst út þegar það er mikið að gera,“ segir Indíana.

„Það er einmitt á álagspunktum sem það er allra mikilvægast að næra okkur og styrkja, ef ekki fyrir líkamann þá helst fyrir hausinn. Þá erum við heilt yfir sjálfsöruggari, orkumeiri og bara almennt meira til í allt sem hangir á verkefnalistanum. Það er líka algjör stemning að æfa í kringum jólin og fer þetta allt saman svo vel saman, hátíðarhöld og ánægjuleg æfingarútína sem passar inn í planið okkar,“ bætir hún við. 

Indíana hefur starfað sem þjálfari í nokkurra ára skeið, en aðspurð segist hún sjá mun á aðsókn þegar pestirnar byrja að ganga í kringum haustið og veturinn. „Þá detta margar út í 1-2 vikur, sem er auðvitað eðlilegt og þá er mikilvægt að koma rólega til baka og byggja aftur upp þol hægt og rólega. Svo er eitthvað um að fólk sé að ferðast, en það er svo sem á öðrum tímum líka,“ útskýrir hún. 

Að sögn Indíönu er mikil stemning sem fylgir því að …
Að sögn Indíönu er mikil stemning sem fylgir því að æfa yfir hátíðirnar.

„Alltaf í eitthvað“ í stað „allt eða ekkert“

Margir glíma við svokallað „allt eða ekkert“ hugarfar og þá sérstaklega í kringum hátíðirnar, hvort sem það kemur að hreyfingu eða mataræði. „Ég er gríðarlega hrifin af því að skipta „allt eða ekkert“ hugsuninni út fyrir „alltaf eitthvað“ pælingunni, hún er raunhæfari fyrir flesta. Þannig í staðinn fyrir að ætla sér um of og vera síðan svekkt yfir því að eitthvað gangi ekki fullkomlega upp er gott að sýna sér sjálfsmildi og vita að ein æfing sem þú sleppir eða ein næringarsnauð máltíð er ekki að fara skipta máli í stóra samhenginu,“ segir hún. 

„Mér þykir fátt betra en góður matur og hvað þá í góðra vina hópi. Jólahátíðin er yndisleg matarhátíð sem er hægt að njóta í botn. Það er rými fyrir allan mat en eins og við flest kannski vitum er gott að huga almennt að næringu matar og innihaldi. Ef stærsti hluti mataræðisins er næringarrík fæða er um að gera að njóta þess að fá sér sörur, malt og appelsín eða ris a la mande eftir jólasteikina. Matur og matarupplifanir eru svo stór hluti af lífinu, það væri synd ef við myndum ekki njóta þess,“ bætir hún við. 

Spurð hvort hún hafi ráð fyrir þá sem upplifa mataráhyggjur og samviskubit um jólin mælir Indíana með því að fólk taki eina máltíð í einu. „Núllstilltu þig og byrjaðu bara á einum kafla í staðinn fyrir að velta þér upp úr allri bókinni strax. Byrjaðu á að skoða fyrstu máltíð dagsins og hafðu hafa eins næringarríka og þú getur. Hugaðu vel að samsetningu orkuefnanna –prótein, kolvetni og fita – og seddu. Oft leiða þessir litlu hlutir svo af sér eitthvað stærra og meira. Því fleiri jákvæðar upplifanir sem þú átt í tengslum við hreyfingu og mataræði því líklegra er að þú haldir áfram og virkilega njótir þess að huga að heilsunni,“ útskýrir hún. 

Indíana er mikill matgæðingur og þykir gaman að nostra við …
Indíana er mikill matgæðingur og þykir gaman að nostra við matinn sinn. Hún leggur áherslu á að fólk njóti sín um jólin.

Vill geta mætt nýja árinu af yfirvegun og tilhlökkun

Indíana vill hvetja til umhugsunar þegar kemur að klassísku janúar átökunum. Það er eins ástæðan fyrir því að hún ætlar að vera með heilsuáskorun í desember, sem margir myndi sjá fyrir sér í janúar.

„Mig langar ekkert meira en að fólk geti mætt nýja árinu af yfirvegun en líka tilhlökkun, frekar en að setja of mikla pressu á sig í janúar yfir því að þurfa nú að fara að „taka sig í gegn“. Hreyfing, næringarrík og bragðgóð fæða, betri svefn og önnur mikilvæg atriði eiga almennt að vera gleðiefni og eitthvað sem við sækjum í, ekki leiðinlegt heimaverkefni eða eitthvað sem við gerum til að „refsa“ okkur,“ segir hún. 

„Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég ætla að vera með heilsuáskorun núna í desember. Ég vil að þú hafir eitthvað stutt, skemmtilegt, einfalt og hvetjandi til að auðvelda þér lífið í desember. Svona áskorun mun auka til muna líkurnar á að þú náir markvisst að taka frá smá tíma fyrir þig til að styrkja þig og huga að heilsunni,“ segir hún að lokum.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um heilsuáskorun Indíönu á …
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um heilsuáskorun Indíönu á heimasíðu GoMove.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú vilt hafa hlutina í röð og reglu en skalt varast það að ganga of langt í þeim efnum. Vertu á varðbergi gegn freistingum og gylliboðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú vilt hafa hlutina í röð og reglu en skalt varast það að ganga of langt í þeim efnum. Vertu á varðbergi gegn freistingum og gylliboðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Loka