Staðirnir sem varðveita sögu okkar og sál

Halldór Armand.
Halldór Armand. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mínir eftirlætistímar í grunnskóla voru þegar bekkurinn fór á bókasafnið til að hlusta á sögu. Unnur á bókasafninu í Hlíðaskóla bjó yfir mikilli frásagnargáfu og við sátum eins og dáleidd þegar hún flutti fyrir okkur þjóðsögur og ævintýri. Meira að segja mestu villingarnir sem aldrei voru til friðs hlustuðu opinmynntir og héldu sér í stólbríkina af spennu. Seinna meir skildi maður hversu mikil list – mér liggur við að segja töfrar – það eru að geta fangað athygli barna svona gjörsamlega. Á bókasafninu lærðum við um sögu okkar og menningu á sama tíma og við gleymdum stað og stund – persónur og atburðarás stóðu okkur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Þvílík kennsla!

Fyrir tveimur vikum var á þessum vettvangi fjallað um skertan afgreiðslutíma sundlauga Reykjavíkurborgar og því haldið fram að þær væru helsta almannarýmið á Íslandi. Bókasöfn eru hins vegar ennþá mikilvægari og þýðingarmeiri vegna þess að þar kostar ekkert inn. Nú á að skera niður afgreiðslutímann þar líka, sem er óneitanlega póetískt þegar skuggi Pisa-könnunarinnar liggur yfir landinu. En alveg eins og sundlaugar snúast ekki bara um það að synda, þá snúast söfnin um annað og meira en að lesa. Hin hljóða reisn þeirra geymir ekki bara uppsafnaða þekkingu, visku og sköpunarkraft kynslóðanna heldur finna heimilislausir og fólk sem glímir við félagsleg vandamál líka skjól þar. Þau eru yfirlýsing um gildismat þjóðfélagsins.

Bókasöfn hýsa þannig fegurð frjálsrar sannleiksleitar og forvitni, þau hýsa fegurð þess að varðveita hugsanir og drauma forvera okkar og bera virðingu fyrir hinu liðna, þau hýsa fegurð opins samfélags og jafnra tækifæra, en þau hýsa líka fegurð náungakærleikans og þá samfélagslegu fegurð sem felst í því að halda saman utan almannagæði og vernda staði þar sem allir eru velkomnir, óháð því hvað þeir eiga eða gera.

Átt þú ríkið eða á það þig?

Það gæti farið að koma tími á það fyrir okkur hér á Íslandi að dusta rykið af klassískum spurningum um hlutverk hins opinbera. Þær hafa ekki heyrst í einhverja áratugi. Eigum við ríkið eða á það okkur? Hvernig viljum við forgangsraða? Nú á dögum þykir sjálfsagt að stjórnmálaflokkar sogi til sín risavaxnar fjárhæðir úr ríkissjóði, fjölmiðlar séu komnir á ríkisframfæri, skattgreiðendur niðurgreiði allt frá rafbílum til Hollywood-mynda til viðbótar við allt hitt, og milljarðar séu settir í að halda fund í Hörpu sem virtist hafa þann megintilgang að verja fyrirmenni fyrir Íslendingum með götulokunum og leyniskyttum, auk þess sem lögreglan var vopnuð í leiðinni. Það er endalaust hægt að búa til nýjar nefndir og ráð.

Á sama tíma eru ýmsar vísbendingar um að hið opinbera ráði ekki lengur við grundvallaratriði. Biðlistar í heilbrigðiskerfinu orðnir svo langir að því má jafna við uppsögn samfélagssáttmálans, í refsivörslukerfinu eru ofbeldis- og kynferðisbrotadómar teknir að fyrnast af því það er ekki til peningur til að senda hina dæmdu í afplánun, til stendur að einkavæða hjúkrunarheimili af því ríkisvaldið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart eldra fólki, menntakerfið er augljóslega illa statt, og svona mætti lengi áfram telja.

Sex þúsund milljóna króna skrifstofuhúsnæði Alþingis sprettur upp, rétt á hæla sextán þúsund milljóna króna húsnæðis fyrir ríkisbanka, meðan barnaheimili og skólar grotna niður í myglu. Stundum fær maður á tilfinninguna að hér á landi þyki mikilvægara að tryggja aðgengi fólks að Eurovision frekar en einhvers konar grunnþjónustu sem varðar líf þess og heilsu. Til hvers viljum við nýta sameiginlega sjóði okkar?

Almannagæði eins og bókasöfn og sundlaugar verða ennþá mikilvægari þegar innviðirnir veikjast. Við þurfum að passa upp á staðina sem varðveita bæði sögu og sál samfélagsins okkar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir