„Ég nánast gargaði í símann af gleði“

Baldur Björn er keimlíkur Elton John.
Baldur Björn er keimlíkur Elton John. Samsett mynd

Baldur Björn Arnarsson er annar tveggja Verslinga sem fer með hlutverk Elton John í söngleiknum Rocketman sem er byggður á ævi bresku stórstjörnunnar. Baldur Björn fer á kostum í hlutverki John og hefur glatt áhorfendur með líflegri sviðsframkomu, en hann deilir hlutverkinu með góðvini sínum, hljómsveitar- og skólafélaga, Jóni Arnari Péturssyni. Drengirnir leika John á mismunandi aldursskeiðum.

Baldur Björn er nýnemi í Verslunarskóla Íslands og alls ekki ókunnur sviðsljósinu. Hann fór með hlutverk í söngleikjunum Matthildi og Níu líf, en þar lék hann ungan Bubba Morthens ásamt Gabríel Mána, samnemanda sínum, sem fer einnig með hlutverk í Rocketman. 

„Draumur frá því ég var lítill krakki“

Þegar blaðamaður hringdi var Baldur Björn í hádegishléi ásamt samnemendum sínum. Hann gaf sér þó tíma í létt spjall. „Hvar á ég að byrja? Ég er 16 ára gamall og nemandi á nýsköpunar- og listabraut. Ég er busi.“

Baldur Björn átti alls ekki von á því að verða valinn til að leika eitt aðalhlutverkanna í sýningunni Rocketman, sérstaklega þar sem hann er nýnemi við skólann. Hann segir augnablikið þegar Júlíana Sara Gunnarsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, las upp hlutverkaskipanina hafa verið súrrealískt. 

„Ég átti ekki orð. Það fyrsta sem ég gerði var að hringja í fjölskylduna mín og segja þeim tíðindin. Ég nánast gargaði í símann af gleði,“ segir Baldur Björn og hlær. „Þetta er búið að vera draumur lengi. Draumur frá því ég var lítill krakki,“ útskýrir hann. „Ég lagði mig bara allan fram í prufuferlinu og sýndi hvað í mér býr.“

Það er mikið líf og fjör á sviðinu.
Það er mikið líf og fjör á sviðinu. Ljósmynd/Aðsend

Hvenær fékkst þú að vita að þú hefðir hreppt hlutverkið?

„Mig minnir að það hafi verið 19. október. Það gerðist á fyrsta samlestrinum þegar hópurinn fékk handritið í hendurnar. Júlíana Sara sagði: „Og...Elton John er...Baldur Björn.“ Ég hef sjaldan verið jafn glaður og stressaður,“ útskýrir hann. „Þetta var sambland af allslags tilfinningum.“

„Það var brekka“

Öll þekktustu lög tónlistarmannsins eru sungin í Rocketman, en söngleikurinn er byggður á samnefndri bíómynd frá árinu 2019. Söngtextar Johns voru sérstaklega þýddir yfir á íslensku fyrir uppfærsluna. Baldur Björn segir það hafa verið áskorun að læra textana á íslensku. 

„Það var brekka. Ég þekkti langflest lög Johns í upprunalegri útgáfu en síðustu mánuði hef ég varla hlustað á neitt annað en Elton John. Það var mjög skrýtið að syngja íslenska texta við laglínur sem maður þekkti svo vel, en það kom á endanum. Íslenska þýðingin er líka svo falleg,“ útskýrir Baldur Björn. 

Þessir krakkar eiga hrós skilið fyrir dugnað, en þau sýna …
Þessir krakkar eiga hrós skilið fyrir dugnað, en þau sýna Rocketman mörgum sinnum í viku ásamt því að sinna fullu námi. Ljósmynd/Aðsend

Ertu aðdáandi Elton John?

„100% Hann er sannkölluð goðsögn í tónlistarheiminum, einn besti tónlistarmaður allra tíma.“

Áttu þér uppáhalds lag með Elton John?

„Ekki gera mér þetta, öll góð. Æj, ég verð samt eiginlega að segja I'm Still Standing. Ég á svo skemmtilegar minningar, en það er eitt af fyrstu lögunum sem ég og Jón Arnór spiluðum saman. Það gerðist í einhverju afmælispartíi. Og hér erum við nokkrum árum seinna að leika sjálfan Elton John.“

Baldur Björn hvetur að lokum almenning til að láta þessa sýningu ekki fram hjá sér fara. Síðasta sýning á söngleiknum Rocketman er 14. mars næstkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ánægður með að fá það til baka sem þú hefur lánað og þetta kennir þér að lána ekki hluti sem þér eru kærir. Makinn mun koma þér á óvart næstu daga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Loka